The Fountain

Þó kvikmyndir séu oft listrænar þá þýðir það ekkert endilega að þær séu allar list.

The Fountain er ótvíræð list, að mínu mati, hvort sem maður hatar hana eða ekki. Hún er meira sjónrænt ljóð heldur en bíómynd, þar sem kvikmyndaverkfærin eru notuð af meistaralegri væntumþykju og fagmennsku. Engin tilgerð, bara fegurð, ljótleiki og eins mikið af symbolisma, djúpum merkingum og hugmyndum um eitt lykilmálefni og maður getur í sig látið á einum og hálfum tíma án þess að fá svima. Margir þola ekki myndina því hún er of þungmelt, óvenjuleg og útvegar aldrei einföld svör (eða jú, leikstjórinn satt að segja veitir svarið, en áhorfandinn á sýna alla útreikninga). Þeir sem dýrka hana hins vegar eru þeir sem finna sig knúna til að kíkja á hana með reglulegu millibili. Það er hægt að horfa á söguna frá ýmsum sjónarhornum og í öllum “útgáfum” er heilsteypt verk að finna. Greinilega er ég í síðarnefnda hópnum.

Líf, ást og dauði hefur sjaldan tekið á sig svona bitastæða og útlitslega óaðfinnanlega mynd í kvikmyndaforminu. The Fountain dílar við það að sigrast á dauðanum, óttanum við hann og að sjá fegurðina í honum, svo eitthvað sé nefnt. Á bakvið öll lögin sem tengja saman fortíð, nútíð og framtíð er hins vegar óhefðbundin ástarsaga, og „óhefðbundin“ er vægt til orða tekið.


Darren Aronofsky
gerir aldrei neitt auðvelt fyrir mann, en dýrmætur er hann fyrir vikið. Allir sem hafa eitthvað vit á kvikmyndum ættu að geta skrifað langar greinar um það eitt hversu aðdáunarverður snillingur hann er eða getur verið. Það er varla hægt að deila um það að The Fountain er hingað til persónulegasta myndin sem hann hefur nokkurn tímann gert. Ef ég ber hana saman við hans bestu að mínu mati er hún ekki eins mikill andlegur hnífur í endaþarminn og Requiem for a Dream var (á góðan hátt samt, ef nokkuð er til í því), en hún er miklu, miklu dýpri, einstakari og elskulegri. Ég tel hana líka vera langt á undan sinni samtíð.

Ekki besta eða áhrifaríkasta mynd leikstjórans en algjörlega sú sem er mest hægt að dást að, þó ekki nema bara fyrir það að hún gerist að miklu leyti í geimnum og eru aldrei notaðar tölvubrellur í stóru skotunum (lesið ykkur til um það, þetta er býsna geggjað!). Hún er líka í mesta uppáhaldi hjá mér og hefur oftast verið sett í gang á mínu heimili. Þegar það gerist, þá reyni ég ekki að horfa á hana, heldur upplifa hana – með góðu hljóði og á eins stórum skjá og ég kemst að. Persónusköpun og söguþráður skiptir minna máli, heldur meira frásagnarhátturinn og skilaboðin sem snúast í kringum persónurnar. Aronofsky í rauninni lýsir þessu best þegar hann segir að þetta sé einfaldlega „hugleiðing um dauðann.“ Lýsingin hljómar leiðinlega, en til þess er leikstjórinn, svo hægt sé að setja einhvern kraft í þetta. Og maðurinn fer með þessa mynd eins og sitt eigið barn. Ekki það að ég viti neitt um það hvernig foreldri hann er. En ef honum er eins annt um afkvæmi sitt og þessa mynd, þá held ég að hann sé í fínum málum.

Aronofsky hefur alltaf verið með heilann, gott auga fyrir mögnuðum skotum sem verða svo helmingi öflugri með réttu tónlistinni. Sérgrein hans er líka hvernig hann leyfir leikurum sínum að opna sig alveg og sýna það sem í alvörunni í þeim býr. Meira að segja á slæmu dögunum finnst mér Hugh Jackman vera einn af þessum leikurum sem mér tekst aldrei að líka ekki vel við. Jackman sýnir hugrekki sem aldrei verður nokkurn tímann kennt við Wolverine-ímyndina hans. Frammistaða hans er ákveðin, áhrifarík og nokkuð póetísk, og hvert þessara þriggja lýsingarorða á við um hverja og eina af þessum þremur tímalínum sem heildarsagan er brotin upp í. Það er ákveðin dýpt sem fylgir persónusköpun hverrar tímabilseiningar en að mínu mati svolítið ábótavant. Myndin er í fínni lengd eins og hún er og mótar allt sem hún getur úr hverri einustu senu, en tilfinningalega þykir mér hún samt örlítið köld. Það nær óneitanlega til manns þegar góðir leikarar gera sitt besta í erfiðum rullum en aðeins meiri karakter-fókus, í stað þess að hrúga hugmyndunum og þemunum í forgang, hefði siglt meistaraverkinu í land.

Það má segja að Jackman sé bensíngjöf sögunnar, en sálin er hér um bil öll í höndum Rachel Weisz (sem, um tíma, var frúin hans Aronofsky). Weisz gerir ekki mikið, þannig séð, en breidd þeirra tilfinninga sem hún sýnir er hreint ótrúleg. Sama með Jackman í raun, en Weisz geymir mestan sjarmann. Í sameiningu eru þau tvö það sem gerir það að verkum að handrit Aronofskys verður almennilega trúverðugt. Ástarsaga þeirra, sama hvernig hún er brotin upp, krækir mann strax frá baðsenunni snemma í myndinni. Með þessu staka atriði tekst þessu pari að selja manni kemistríuna, minningarnar og umhyggjuna betur heldur en 80% af rómantískum gamanmyndum nær að gera á lengd við heila bíómynd. Jackman og Weisz gefa líka atriðunum svo raunsæjan en samt svo fantasíulegan tón, sem er væntanlega leikstjóranum að þakka, en gefa manni alveg þá tilfinningu að ómögulegt er að sjá aðra leikara fyrir sér í rullunum.

Það er eitthvað við þessa mynd. Hún talar alltof mikið til mín (trúnó-viðvörun! – kannski því ég hef sjálfur misst náinn aðila og þekki afneitunina vel, eins með að „sleppa takinu“ – og fyrstu kynni mín á The Fountain voru akkúrat stutt eftir náinn missi og gæti það útskýrt hvers vegna ég fílaði hana ekki strax…). Hún er stór og mikill biti sem mun og hefur ábyggilega staðið fast í koki margra manna, en ekki hjá mér.

The Fountain gæti mögulega verið ein af 10 myndum sem ég hef aldrei rætt eins mikið um á ævi minni við aðra (bæði til að kryfja og verja) og þykir mér hún skara fram úr ferli stórkostlegs leikstjóra fyrir það eitt að gera ótrúlega, ótrúlega mikið við rétt svo 90 mínútna tímaramma. Engin sena fer til spillis, engin kameruuppstilling er ekki pæld út eða grípandi á einhvern máta og tónlistin fer í mína bók sem eitt af bestu stefjum síðasta áratugar, sem er enn ein ávísunin upp á það að Clint Mansell er einn sá besti sem er starfandi í sínum geira. Aronofsky er auðvitað skemmdur en skarpur snillingur, Mansell er alltaf góður en þegar þetta undarlega dúó nær saman er ávallt stutt í meistarastykkið. Þannig er raunin hér.

brill

Besta senan:
Lokaspretturinn. Eins og oftast hjá Aronofsky.

2 athugasemdir við “The Fountain

Sammála/ósammála?