Gangster Squad

Mikið skelfilega getur það verið sárt á sálina þegar maður sér svona klunnalega farið með efnivið sem átti svo margfalt betra skilið. Gangster Squad hefur réttu leikaranna, rétta útlitið, réttu músíkina og rétta attitjúdið. Dásamlegir kostir í sjálfu sér og myndi þetta tvímælalaust lyfta góðri mynd upp á hærra plan, en þá þarf handritið að vera gott og leikstjórnin í lagi. Ef skemmtanagildið gengur heldur ekki upp er heildarpakkinn sama og gagnslaus. Það er aldrei gaman að vera gagnslaus, sama hversu flottur maður er til fara. Eitthvað fór nefnilega alvarlega úrskeiðis hjá þessari mynd.

Gangster Squad vill vera svöl, póstmódernísk hasarmynd með stóran kjaft en reynir að gleyma ekki dramanu svo áhorfendur festist betur í sögunni, eðlilega. Hún vill láta taka sig alvarlega og kalla sig einhvers konar Untouchables sinnar kynslóðar en kemur meira út eins og Dick Tracy eða Bugsy Malone-útgáfan af þeirri mynd, og það er ekki beinlínis meint sem hrós.

Það er nógu leiðinlegt að horfa á grútlélega mynd, verra er að horfa á grútlélega mynd sem lúkkar gríðarlega vel, því þá pirrast maður til lengdar meira yfir því hversu góðri vinnu er sóað. Búningarnir eru flottir og settin eru meiriháttar. Leikararnir eru líka allir í prýðilegum gír. Það verður seint hægt að segja að þeir séu að túlka einhverjar alvöru persónur, vegna þess að það er í rauninni bara ein stilling hjá öllum, en allir virðast njóta sín heldur betur með sínar einfölduðu, einhliða fígúrur. Einkenni allra eru einnig svo sterk og það hjálpar smávegis til. Að minnsta kosti er betra að hver og einn sýni lit í illa skrifuðum hlutverkum frekar en að rugla persónunum saman.

Josh Brolin hefur ætlað sér að vera mega-harður, og honum tekst að vera eins eitrað harður og handritið (og leikstjórnin) leyfir honum. Sama með Ryan Gosling, sem gengur um alla ramma eins og noir-teiknimyndafígúra. Félagsskapurinn verður að segjast vera afskaplega spennandi, með liðsauka á borð við Sean Penn (gæddur gervinefi), Robert Patrick, Emmu Stone, Michael Peña, Giovanni Ribisi og Anthony Mackye. Skotheldur hópur, sama hversu þunnir eða ýktir sumir eru. Annars má alls ekki gleyma Nick Nolte, sem lítur alls ekki út fyrir að vera í ástandi til þess að halda neinni senu á floti. Eins þrusugóður og hann getur oft verið er hann orðinn alvarlega ónýtur að sjá, og alltaf þegar ég heyri hann tala líður mér eins og ég eigi að gefa honum hálsbrjóstsykur.

Hópurinn er samt ekki vandamálið, langt frá því, og hver sem púslaði saman þessu liði á skilið gott faðmlag. Allir gallar sem koma leikurunum við eiga samstundis að færast yfir á leikstjórann, Ruben Fleischer. Ekki veit ég nefnilega hvaða snillingi datt það í hug að gefa manni sem eingöngu hafði sérhæft sig í klikkuðu gríni aðgang að því að gera bófamynd með miklum hasar og semí-alvarlegu drama. Fleischer hefur áhugann, en ekki hæfileikann. Tónn myndarinnar er hálfbrenglaður, því myndin veit stundum varla hvort hún eigi að vera yfirdrifin eða áhrifarík. Leikararnir gera gott úr því sem þeir hafa, en það á enginn að sætta sig við svona bitlaust, spennulaust og fyrirsjáanlegt handrit þar sem klisjur eru orðnar svo margar að maður spyr sig hvort þetta eigi að vera einhver skopstæling. Man annars einhver eftir Johnny Dangerously til dæmis?
Hún var reyndar ekkert mikið skárri en þessi.

Í hvert skipti sem Gangster Squad ætlast til þess að maður sýni persónunum einhverja væntumþykju þá molnar hún alveg í sundur. Fleischer er ekki að blekkja neinn. Hann býr bara til hallærislegar og þvingaðar senur upp úr handriti sem hann vissi ábyggilega ekki hversu slakt var. Hasaratriðin eru skárri, en ekki mikið skárri. Leikstjórinn virðist vita hvenær og hvernig skal best stuða orku í atburðarásina en síðan fer hann út af kortinu með stílmontið, haldandi að hann eigi séns í það sem maður hefur séð mun betur gert frá Zack Snyder og Guy Ritchie, svo einhverjir séu nefndir. Svo hefði myndin alveg getað batnað aðeins ef endaatriðin hefðu verið betur skrifuð. Há krafa býst ég við, miðað við gæðin á handritinu eins og það er, en frá bjánalegu slagsmálunum til ógeðfellda eftirmálans er myndin komin með buxurnar niður að hælum. Aldrei góð staða til að vera í rétt áður en kreditlistinn rúllar.

Fleischer er efnilegur þjarkur, og vona innilega að hann geri aftur eitthvað sturlað fyndið og brakandi ferskt eins og Zombieland, en stundum eru bara rangir fagmenn fengnir til að tækla verkefni sem ætti að vera geymt handa þeim sem eru reyndari og skarpari. Með góðu handriti og betri leikstjóra get ég ímyndað mér hellað frábæra útgáfu af þessari sömu mynd, en því miður lifir hún og deyr í einungis hausnum mínum.

fjarki
Besta senan:
Dno… skotæfingin?

2 athugasemdir við “Gangster Squad

Sammála/ósammála?