The Last Stand

Þó hann hafi oft sagst ætla að koma aftur þýðir ekkert endilega að þörf sé á honum. Að minnsta kosti ekki þegar hrukkurnar eru ósammála eldmóðinum, en þær eru loksins farnar að láta sjá sig á þessu óhuggulega slétta dúkkufési. Ahnuld er sígildur og ómetanlegur á sinn hátt en þeir sem sjá ekki að hversu miklum brandara hann er orðinn fá plús fyrir óskhyggju en vorkunn fyrir að vera blindaðir nostalgíu. Ef það er einhver Schwarzenegger-sjarmi eftir, þá finnst hann í takmörkuðu magni í The Last Stand, en að minnsta kosti hefur maður nóg af atriðum til þess að glotta yfir, oftar þeim sem kæta mann óviljandi heldur en viljandi.

Ahnuld gerir sig ekki að neinu eðalfífli, ómögulega, og reynir hann stíft að koma því til skila hversu reyndur hann er, sem svosem misheppnast ekki.  En hvort myndin sé almennilega tímans virði eða marki gott „comeback“ fyrir lurkinn er algjörlega annað mál. Hörðustu Schwarzenegger-fíklar munu fá akkúrat það léttmeti sem þeir vilja og ætti arfaslaka handritsgerðin varla að fara í taugarnar á þeim. Hasarhetjan er líka nógu meðvituð um eigin aldur til að kæta megnið af þeim sem elska t.d. Expendables og aðra óði til ’80s mynda í tætlur. Persónulega fékk ég samt ekkert út úr þessari mynd annað en þreyttan hasar- og frasakóng (sem þykist enn eiga einhverjar mílur eftir) og safaríkt ofbeldi á milli úldinna sena með óspennandi persónum. Hún er hvorki betri né verri en megnið af ruglinu sem Ahnuld gerði áður en hann gerðist fylkistjóri Einhvern veginn hefði maður viljað að fyrsta heila bíómyndin hans í áratug væri að minnsta kosti örlítið skemmtilegri en þetta. Kannski eftirminnilegri, en það gæti verið að biðja um frekar mikið af Schwarzenegger-mynd, en ekki ef maður þekkir vel til leikstjórans.

Ég hef fylgst talsvert með Kim Ji-Woon alveg síðan hann gerði A Tale of Two Sisters. Þessi maður er virkilega flinkur og þeir sem hafa ekki séð Sisters, The Good, The Bad, The Weird eða (sérstaklega!) I Saw the Devil eru að missa af góðu efni. Það sem þessum athyglisverða leikstjóra hefur tekist að gera er að gefa vondri og ómerkilegri bíómynd léttan tón og hressandi rafstuð í stíl- og hasardeildinni. Kvikmyndataka og klipping er góð og leikstjórnin gefur mikilvægustu köflunum mikla orku sem veitir aldeilis ekki af. Undantekningin er án efa í lokaeltingarleiknum, sem er bara bjánalegur og það sem fylgir beint á eftir er allt frekar aumt og klístrað af klisjum. Reyndar er allur endirinn á þessari mynd frekar píndur og þreyttur, alveg eins og húmorinn getur á tíðum verið. Það standa kannski tvö eða þrjú stutt atriði upp úr, og mín vegna hefði alveg mátt gera meira úr gömlu konunni. Sýndist hún vera harðari en flestir aðrir á skjánum.

Það er alls ekki leiðinlegt að hafa Ahnuld svona sjálfsöruggan í forgrunninum en hann er ekki svalur frekar en eðlilega útlítandi fyrir mann að nálgast sjötugt. Það eru setningar hér og þar sem hann fær sem mér tókst aldrei að taka eins alvarlega og myndin ætlast til, sem getur verið blanda af því að það fer ekki leikaranum að segja hvað sem er, og svo held ég að leikstjórinn sé bara ekkert alltof góður í ensku. Sérstök tvenna.

Af einhverjum orsökum fengust ágætir leikarar í aukahlutverk og lífga þeir óneitanlega upp á rullur sem fáum gæti ekki verið meira sama um – en ætlunin á að vera gagnstæð. Þeir sem koma samt verst út úr myndinni eru Eduardo Noriega (Abre Los Ojos) og Forest Whitaker. Noriega er frekar glataður sem aðalillmennið og maður eins og Whitaker ætti aldrei að þurfa að sætta sig við það að vera einhver „third fiddle“ týpa í Schwarzenegger-mynd, af öllu. Seinast er ég vissi er þessi maður Óskarsverðlaunahafi og aldrei fær hann eitthvað að gera af viti. Endasprettur myndarinnar líður gríðarlega vegna skorts á þátttöku frá Whitaker. Hann birtist bara í góða stund og hverfur síðan jafnfljótt og tel ég ófyrirgefanlegt að hann sé bara skyndilega vippaður upp í lokin þegar hasarinn er búinn. Að vísu leggur hann ekki skít á sig í hlutverkinu en varla getur nokkur sagt að það sé óskiljanlegt.

Vestraandinn er traustur, tölvubrellur eru í lágmarki, praktískir hvellir ríkjandi og sumir sprettirnir þar eru dúndurfínir. En ef ég segi að þetta sé „týpísk Schwarzenegger-mynd“ þá líta sumir á það sem ávísun á ánægju en aðrir sem normal ástæðu til þess að yppa öxlum, hvort sem hér er um að ræða endurkomu eða eins konar óbeina „kveðjumynd.“ The Last Stand hefur mikinn áhuga á því að standa sig í ofbeldinu og má líta á myndina sem einnota hasarpakka sem best er að njóta í góðra vina hópi, en ráðlagt er bara að þamba bjórinn og gera sama og engar kröfur. Ég að vísu reyndi að slökkva á heilanum og að myndinni lokinni var ég samt farinn að yppa öxlum.

fimm

PS. Gaman að sjá Johnny Knoxville karakterinn vitna óbeint í eina af fyrri myndum Kim.

Besta senan:
Kellan gamla reddar málunum. Óvænt. Húmorískt.

Sammála/ósammála?