Lincoln

Það er alveg sama til hvers er ætlast af manninum, Daniel Day-Lewis bregst aldrei í listinni að eigna sér bíótjaldið. Það er ástæða af hverju maður sér svona oft langar tökur sem einblína á hann í nærmynd með vanalega engri tónlist undir; það er ekki hægt að taka augun af þessum leikara.

Day-Lewis mætir alltaf á settið andsetinn manneskjunni sem hann er að túlka, hvort sem hún er skálduð eða ekki, og fer ekki á milli mála að hann gíri sig í hvert sinn upp fyrir hreinræktað meistarastykki. Stundum er efnið sem hann er með í höndunum nógu gott til að verðskulda gæðabústið sem hans vinnubrögð færa fram. Það er nefnilega dýrmæt gjöf út af fyrir sig að geta tekið frábærar kvikmyndir og gert þær að skylduáhorfi, og sömuleiðis breytt þessum ágætu í eitthvað gott. Þó Danni sé gull þá þýðir ekki að það sé allt gull sem eltir hann. Seinast var Nine prýðileg sönnun fyrir því, og núna bætist við Lincoln – sem er enn betri sönnun fyrir þessu!

Eins mikið og ég ber massavirðingu fyrir Steven Spielberg þegar hann sýnir að hann sé með einhvern pung, svona til að réttlæta af og til þetta keisarasæti sem hann er löngu kominn í. Hann hefur alltaf haldið góðu jafnvægi á því að gera poppkornsmyndir og svo bitastæðara efni sem sýnir að hann er fyrst og fremst „kvikmyndagerðarmaður“ en ekki ofurframleiðandinn með vestræna bransann í buxnavasanum. Hins vegar, þegar Spielberg þráir nýja Óskarsstyttu þá sé ég hann fyrir mér með útteygðar hendur og galopinn, slefandi kjaft. Stundum fer hann vandlega með klassaefni en svo eru aðrir dagar þar sem hann er bara fullmikill… Spielberg! Sama hversu mikið hann reynir að fela það.

Með Lincoln reynir Spielberg að búa til óttalega kalda og dáleiðandi fræðslumynd sem vill bæði sýna epík tímabilsins á skjánum en líka spilast út eins og lágstemmt leikhúsverk. Sniðug nálgun en handritið er alltof þurrt, langdregið og ógrípandi til að hægt hefði verið fyrir einhvern til að hnoða úr þessu hágæðamynd og leikstjórinn keyrir söguna eins og hann sé sjálfur syfjaður. Það eru nokkrar frábærar senur í myndinni sem fá mann umhugsunarlaust til þess að óska þess að öll myndin væri þannig, en í kringum þær allar eru atriði sem haltra, teygja á og gera rosalega lítið til þess að áhorfandinn hafi meðvitaðan áhuga að fylgjast með rest. Lincoln er þar af leiðandi ein af þessum myndum sem maður gæti stoppað eftir hálftíma án þess að líða illa yfir því og haldið svo áfram að horfa á nokkrum dögum seinna eins og ekkert hafi skorist. Það er enginn skriðþungi í flæðinu og það drepur skuggalega mikið möguleikann á björgun frá Daniel Day-Lewis, sama hversu stórfenglegur hann er. Reyndar er alveg heill lager af fínum leikurum en allir eiga heima í dýpri, kjarkaðri mynd. Helst mynd sem málar sig ekki sem lúmskan (en samt ekki) áróður.

Allt við þessa mynd er eins og það sé tínt beint af hillu, þ.e.a.s. hillunni sem aðeins voldugustu leikstjórar hafa aðgang að og nota þegar Óskarsbeita er í sigtinu. Þegar maður er orðinn jafnvirtur og Spielberg þá getur sköpunargleðin oft rýrnað og raðar maður bara ofan í körfu það sem myndirnar eiga að bjóða upp á. Lincoln hefur leikaranna, útlitið, umgjörðina, tónlistina (sem er reyndar drulluleiðinleg) og margt fleira en er síðan hömruð niður af óbragði og pirrandi nálgun að frábæru efni.

Aldrei fær áhorfandinn að kynnast gallaðri hlið að Lincoln sem karakter, sem ég get svo sem skilið. Ef það er einhver bandarískur forseti sem á mikla dýrkun skilið í bíómynd þá er það hann. Það þýðir hins vegar ekki að gera tveggja og hálfs tíma mynd um forsetann og sýna hann sem hátt í fullkominn, einhliða einstakling. Enn og aftur ítreka ég hversu magnaður Day-Lewis er í hlutverkinu, en það er ekki honum að kenna ef galla rullunnar má rekja til handritsins. Karakterinn getur stöku sinnum verið bara grátlega leiðinlegur. Þegar Bruce McGill segist engan veginn vera í stuði til að heyra Abraham fjara enn eitt skiptið út í langa sögustund þá gat ég ómögulega verið meira sammála honum. Ef ég mun einhvern tímann horfa á þessa mynd aftur eftir nokkur ár verður „Skip“ takkinn oft notaður.

Day-Lewis er alltof góður fyrir suma leikaranna í þessari mynd til að leika á móti. Það á enginn roð í hann nema eflaust Tommy Lee Jones, sem er þursasterkur og stelur öllum Danna-lausu atriðum. Sally Field er hrikalega góð líka en ég betra hefði verið ef kaflarnir utan pólitíkinnar væru ekki svona angandi af þessu yfirgnæfandi fjölskyldudrama sem Spielberg á til stundum að þvinga ofan í kokið á áhorfendum sínum. Leikstjórinn heldur einnig að hann sé að gera myndina miklu, miklu betri með því að troða eins mörgum þekktum andlitum og hann getur en satt að segja verður maður meira svekktur við það að sjá hvað margir þeirra fá lítið til að gera. Aldrei mun það líta illa út á ferilskrá að leika í Spielberg-mynd á móti Day-Lewis en t.d. Joseph Gordon-Levitt á sama og ekkert erindi inn í myndina. Hann er bara þarna því leikstjóranum vantaði einhvers konar aukafókus á tengsl milli feðga, eins og alltaf, nema hér hefði annahvort átt að gera meira úr því eða slútta því.

Ég reyndar skil ekki hvernig það gerðist ekki fyrr að keisari Hollywood sameinaðist við einn besta leikara heimsins. Það eina sem hefði fullkomnað uppskriftina væri ábyggilega Aaron Sorkin, sem hefði pottþétt vitað nákvæmlega hvernig best hefði átt að tækla efnið með biti, dýpt og smámunasemi, sem er akkúrat það sem þetta handrit þurfti. Það er fullmikill fókus á hluti sem skilja ekkert eftir sig og aðalþráðurinn nær litlu sambandi við mann, og ef ekki tekt að gera athyglisverða mynd um forseta sem elskar að segja sögur og „góða“ og „vonda“ pólitíkusa (jebb, hlutirnir eru í alvörunni einfaldaðir svo mikið!) að þrasa út hálfa lengdina, þá er eins gott að vera með koddann nálægt þessar 150 mínútur.

fimm
Besta senan:
Í henni minnir mig að Abe hafi talað svolítið mikið.

Sammála/ósammála?