Parker

Mér finnst svo þreytt þegar Hollywood-mógúlar telja sig hafa fundið einhverja töfraformúlu að mynd sem á fullkomlega höfða til beggja kynja, þrátt fyrir að viðkomandi mynd verði ójöfn og meira frústrerandi fyrir vikið. Betur get ég varla lýst Parker en einmitt þannig tilraun að bíómynd. Þegar Jason Statham ræður ríkjum í sinni eigin bíómynd er ekki spurning um annað en að varan sé gíruð í áttina að testósteróntröllum. Að bæta við J-Lo í mynd sem græðir ekki neitt á henni er tákn þess að framleiðendur eru að stinga miðfingrinum upp í boruna á kjarnamarkhópnum, sérstaklega þegar hún er í stóru hlutverki og hegðar sér oft eins og hún sé stödd í vitlausri mynd. Ég hef ekkert á móti henni, en seinast þegar hún lék vel og í góðri mynd var fyrir fimmtán árum síðan…

Það getur verið gaman að bera sterkar tilfinningar til mynda, jafnvel þó þær séu ferlega slæmar. Maður getur nefnilega lært ýmist á því að horfa á sorpmyndir. Í mörgum tilfellum finnst mér leiðinlegustu myndirnar sem ég horfi á vera þessar sem gera ekkert nytsamlegt við tímann sem maður eyðir í þær; þessi miðjumoðsprump sem gera ekkert nýtt, skemmtilegt, áhugavert og skilja ekki rass eftir sig annað en eftirbragð sem mætti líkja við andfýluna sem flestir díla við á morgnana. Hún skolast samt auðveldlega burt, alveg eins og miðjumoðið, en samt er maður alltaf tveimur tímum fátækari. Jason Statham er ekki óvanur miðjumoðinu en venjulega leikur hann í myndum sem skammast sín lítið fyrir að vera það sem þær eru. Parker ætti að skammast sín.

Það þarf mikið að fara úrskeiðis þegar harðkjarna Jason Statham-ræma sem er bæði hefndar- og „heist-mynd“ endar með því að vera svona spennulaus og auðgleymd. J-Lo á einhvern þátt í skemmdarverkinu, aðallega því hún er þreytandi og að megnu til frekar tilgangslaus karakter, en tjónið liggur aðallega í flötu handriti og leikstjórn sem reynir að gera netta harðhausamynd og létta Hollywood-gamanmynd í einni. Aðeins slík blanda gengur upp þegar handritið er skothelt, og engan veginn þegar bíómyndin er cirka 30 mínútum of löng.

Ég hef gaman að góðum „Stattara,“ en það þýðir þá bara að maður er farinn að hugsa um skemmtilegri, harðari Statham-myndir (eins og hina ógeðfellt vanmetnu Safe) þegar maður lendir á einni slakri. Kostirnir við Parker koma ofbeldinu við (svona er að vera einfaldur), aðalleikaranum (sem missir aldrei áhugann…), semí-athyglisverðri titilpersónu og söguþræði sem lofar góðu fyrst áður en hann leysist upp og verður að fyrirsjáanlegu klúðri. Nógu alvarlegt brot, finnst mér, en ekki skánar þetta þegar kemur svo í ljós hvað þokkalegir menn á borð við Micahel Chiklis og Clifton Collins Jr. eru vannýttir. Nick Nolte lífgar aðeins upp á andrúmsloftið górilluhljóðum sínum en hann gerir lítið annað en að minna mann á myndina U-Turn, sem er ein af eingöngu tveimur myndum með J-Lo sem eitthvað er almennilega varið í.

Parker er meinlaus vídeóafþreying (með smá kjaft) ef væntingar eru alveg á botninum en ég get ekki ímyndað mér aðstæður þar sem ekki er hægt að velja á milli hennar og betri myndar. Ef aðlögun á Richard Stark-bók er til umræðu held ég nú að Payback taki þessa alveg í görnina. Kæmi mér ekki á óvart ef Statham sjálfur tæki undir það með mér.

fimm

Besta senan:
Slagsmál Stattarans á salerninu.

Sammála/ósammála?