Zero Dark Thirty

Eitthvað er það við tenginguna hjá Kathryn Bigelow og James Cameron sem mér þykir nokkuð meiriháttar. Kannski var þetta eitthvað sem var þarna nú þegar eða kannski smitaðist Bigelow af metnaðarbólunni og sýkinni til að komast á toppinn sem lengi hefur einkennt þennan fyrrverandi eiginmann hennar. Það skiptir engu máli hvort það er, því ferill hennar hefur engu að síður alltaf verið tilkomumikill og aðdáunarverður og þetta eru lýsingar sem styrkjast með árunum. Persónulega finnst mér Strange Days enn vera besta og þýðingarmesta myndin frá henni en undanfarið hefur hún sýnt marktækari merki um stálhreðjar heldur en flestir bandarískir kvikmyndagerðarmenn af gagnstæðu kyni (áfram, stelpur!). Cameron hefur ávallt tekið áhættu með mikla Hollywood-peninga en þorir sjaldan að óhreinka sig, efnislega séð. Hjá Bigelow er það akkúrat öfugt. Verst að þau unnu ekki oftar saman.

Bigelow er sterk og býsna myndarleg kona sem aðeins rembusvín bera ekki einhverja virðingu fyrir. Það er ótvírætt að hún sé fæddur kvikmyndagerðar(kven)maður en þeir sem hafa lofað henni sem einhvern snilling eru annaðhvort að lesa of djúpt í hlutina eða finna sig bara knúna til að setja hana á æðri stall fyrir að vera kvenmaður sem tæklar flugbeitt efni sem fáir kvenmenn fá tækifæri til að gera. Alveg síðan Bigelow fór að dífa tánni í sannsögulega og/eða raunsæja stríðsgeirann hefur hún haldið athygli en að mínu mati situr voða lítið eftir þegar upp er staðið. Öll þrjú skiptin.

Zero Dark Thirty er gríðarlega vandað stykki. Það er t.a.m. mikil nákvæmni í upplýsingarflæðinu og leikararnir útrýma öllum séns á því að vera kallaðir „leikarar“ (sem hægt er að túlka á slæman hátt en hér er eingöngu meint að fólk sé túlkað eins og alvöru fólk, frekar en kvikmyndapersónur). Raunsæiskrafturinn gerir fyrirsjáanlega heimildarsögu nokkuð ófyrirsjáanlega og myndatakan er merkilega mögnuð. Orðið „merkilegt“ skýst líka í reglulega heimsókn í kollinn á manni út þessar 150 mínútur, allt frá því hvernig sumt fer fram og almennt hvernig aðgerðin óx og að lokum fór til að ganga frá Osama Bin Laden. Fyrir þá sem ekki vita þá er titillinn er tilvísun í stundina sem hann náðist („þrjátíu mínútum eftir miðnætti“). Já, því miður var frátekinn titillinn Where in the World is Osama Bin Laden?

Ég er reyndar vægast sagt forvitinn að vita hvernig upphaflega stóð til að binda enda á þessa kvikmynd, því framleiðslan var komin mjög langt á leið þegar Bigelow fékk allt í einu „happí“ endinn sinn og þá beint í kjöltuna á sér. Kannski var fyrirfram miklu dýpri og lagskiptari mynd í vinnslu um þráhyggju í tengslum við einhverjar stærstu mannaveiðar sem sögur bera af og var þessu skipt út fyrir meira straightforward nálgun þar sem slaufan er bundin í lokin. Ég er nokkuð viss um að endurmótun handritsins hafi breytt gjörsamlega öllu, vonandi til hins betra – eins og fyrir fólkið sem eyddi öllum frístundum sínum í að leita að Bin Laden. Afraksturinn eins og hann er núna er áhugaverður en lítið meira en prýðilegur undir smásjánni. Myndin er pappírsþunn miðað við lengd, leiðinlega þröngsýn og afstöðulaus frekar en að spyrja mikilvægar, móralskar spurningar og kafa aðeins meira út í þau svæði. Þegar mynd er tveir og hálfur tími, er það ekki að biðja um of mikið. Það væri annað mál ef þetta væri pökkuð karakterstúdía, en raunin er ekki þannig.

Aldrei tekst mér að skilja hvað Bigelow hefur svona mikið á móti því að gefa „persónum“ sínum einhvern prófíl, frekar en að vera bara fólk sem segir og gerir hluti áður en maður steingleymir þeim. Það er hægt að færa rök fyrir því að Jessica Chastain sé undantekningin, en ég er ósammála þeim. Hún er kannski ein athyglisverðasta óathyglisverða persóna sem ég man eftir í fljótu bragði, en handritið virðist hafa tekið þá meðvituðu ákvörðun að halda persónusköpun í algeru lágmarki. Það eina sem við vitum um Chastain er að áhugi hennar til vinnunnar jaðar við þráhyggju og reynir maður svo að púsla saman persónuleikanum hennar í gegnum samtöl við aðra, en þetta er stærsta hraðahindrun myndarinnar að mínu mati. Það hefði ekki verið neitt að því að leggja aðeins meiri áherslu á mannlega þáttinn til að styrkja heild sem er þegar góð, en frekar áhrifalaus á flestan hátt.

Chastain er frábær leikkona og skilar sínu óaðfinnanlega, en með aðeins meira í höndunum hefði leiksigurinn orðið betri. Það segir samt ýmislegt um hennar hæfileika að geta gert svona mikið úr engu. Aðrir leikarar koma hins vegar bara og fara og skilja ekkert eftir sig. Það gegna allir sínu hlutverki í að koma svokallaða söguþræðinum á þá staði sem hann þarf að fara á en fyrir utan þrumugóða kafla er mikið máttleysi sem kemur úr því að draga einhæfar fundarsenur á langinn svona gríðarlega oft. Áhorfandinn veit hvernig myndin mun enda, hví ekki krydda hlutina aðeins meira til að maður renni ekki eingöngu með upplýsingunum og svo er bara allt búið? Þoli ekki anti-climax örðugleika! Mig langaði rosalega til þess að finna fyrir einhverjum svakalegum tilfinningum eftir myndina, eins og hún hefði eitthvað stórt að segja, en mig langaði frekar bara í fílakaramellu og var svo farið að langa að kíkja á betri, svipaða mynd.

Zero Dark Thirty er sem betur fer laus við predikun, en það að hún neiti að taka afstöðu án þess að víkka sjóndeildarhringinn vinnur meira gegn henni frekar en með henni (sem er annað en ég get sagt um The Hurt Locker), sérstaklega því þetta er mynd um áhættu, drifkraft og róttækar aðgerðir frekar en persónurnar á bakvið þær. Í heildina er ég þakklátur fyrir að hafa horft á myndina. Það eru stundir sem minna á þráhyggjuþemun úr Zodiac, „realismann“ úr United 93 og spennuna úr góðri Twenty Four-seríu þó maður hefði gjarnan viljað meira af þessu öllu. Lokaatriðin standa mest upp úr, aðallega því þeim tekst að gera á korteri það sem t.d. Act of Valor reyndi á einum og hálfum tíma, en í stað þess að vera meistaraverk um Bin Laden-eltingarleikinn er þetta dýrindis viðbót fyrir Chastain til að sýna hvers vegna er í lagi að dýrka hana og þar að auki dást meira að Bigelow.

thessi

Besta senan:
Tölvuleikurinn í lokin.

Sammála/ósammála?