Hansel & Gretel: Witch Hunters

Ég trúi eiginlega ekki á slæmar hugmyndir þegar kemur að bíómyndum, heldur slæmar framkvæmdir. Að taka móderníska „steampunk“ framlengingu á söguna um Hans og Grétu er eitthvað svo lúðaleg pæling en samt svo ruglað flippuð að hún ætti alveg að geta gengið upp. Það þekkja allir Grimmsævintýrin svo vel hvort eð er að hvergi ætti að setja bann á það að krydda þau aðeins.

Að minnsta kosti er Hansel & Gretel: Witch Hunters miklu meira meðvituð um það hversu bjánaleg hún ætti að vera, annað en t.d. Abraham Lincoln: Vampire Hunter, sem reyndi að halda alvarlegu andliti og segja einhverja sögu á meðan alls kyns absúrdismi var í gangi. Hér virðist stefnan bara vera sú að koma sér beint að ofbeldinu, nudda sér aðeins upp við það og hafa gaman að hasarnum og kjaftæðinu. Það þýðir ekkert annað þegar allt er orðið svona fjandi heilalaust. Myndin kemur reyndar ekkert alltof vel út en hún allavega skammast sín lítið fyrir að vera það sem hún er og rampar upp subbuskapinn og keyrsluna til að einfalda hlutina. Bæði er þetta hentugt fyrir þá sem taka vel í hana og líður þetta allt þægilega hratt ef menn gera það ekki.

Mér fannst ég algjörlega fá tvær sitthvorar upplifanirnar út úr þessari mynd. Öðru megin helltist yfir mig heimskulega skemmtileg, prýðilega útlítandi B-þvæla þar sem ávallt er stutt í grimmt ofbeldi og helstu tveir leikararnir ná ofsa fínt saman. Hins vegar er þarna líka innifalinn algjör hrossaskítur sem minnir mann á lélegan, áratugagamlan sjónvarpsþátt, þar sem allar tilraunir til þess að gera eitthvað úr innihaldinu betrumbæta ekkert, aðallega því handritið er rusl og leikstjórnin slök og áttavillt. Eina stundina líkaði mér við myndina, þá næstu var ég farinn að hata hana alveg jafnmikið og píndu „3D skotin.“ Myndin sprettir samt svo mikið í flæðinu að hvorug tilfinningin endist í of langan tíma. Sterku punktarnir eru nokkuð góðir en verst er hversu krefjandi það getur verið að slökkva á heilanum yfir mynd eins og þessari þegar nokkrir litlir hlutir vekja upp of stórar spurningar (hvar fengu t.d. Hansel & Gretel öll þessi vopn? Af hverju er allt svona nútímavænt og yfirdrifið? Hvers vegna skiptir insúlínið mismiklu máli í sögunni og hvaðan fær Hansel þetta helvítis insúlín reglulega??).

Insúlínið er að vísu (eða hefði getað orðið…) áhugaverð viðbót, eins og margt annað. Grunnurinn að sögunni og beinagrindin að henni er ekki vandamálið, heldur handritið og meðhöndlunin. Flýtta flæðið er augljóslega ekkert að tryggja neitt annað en botnslef hvað persónusköpun varðar, en í svona hraðskreiðu bulli sleppur það alveg. Það sem skiptir mestu er að Jeremy Renner og Gemma Arterton spili vel hvort af öðru og séu gædd einhverjum lágmarkspersónuleika, og sem dúó eru þau þrælfín. Flestir aðrir leikarar eru flatir og óáhugaverðir. Pihla Viitala myndi gleymast strax ef hún hefði ekki farið úr fötunum, Thomas Mann er gagnslaus (fyrir utan eitt svakalegt „money skot“ sem hann tileinkar sér), Peter Stomare er sami skíthællinn og alltaf og Famke Janssen er í alltof ýktum en samt svo svipbrigðalausum gír. Janssen er nógu vandræðaleg þegar hún lítur eðlilega út en fílingurinn eins og maður sé að horfa á vondan sjónvarpsþátt byrjar þegar nornaförðunin tekur við. Þá lítur hún líka út eins og blanda af Courteney Cox og ógeðinu úr Sinister.

Myndin hefði samt átt miklu meira erindi í „gleymdu þessu!“ hrúguna ef hún hefði farið PG-13 leiðina, og það að hún gerði það ekki (eins og stóð til á tímapunkti) er talverður sigur. Það að taka brútal ofbeldið alla leið gerir myndina töluvert betri – án gríns. Vissir kaflar eru svo ánægjulega sjokkerandi þegar skvettist kvikindisskapur út í allar áttir. Það djúsar svolítið upp á fjörið, sem og hinar ómerkilegustu senur, en ekki alveg nógu mikið til að gera heildarævintýrið að öðru en þokkalegu vídeóglápi, ef alls ekki er búist við miklu. Þessu var alveg við að búast frá þeim sama og gerði subbugrínið Dead Snow.

Hansel & Gretel er í versta falli skemmtilegri mynd heldur en The Brothers Grimm og virkar eins og hún sé helmingi styttri í þokkabót. Endirinn grátbiður um „franchise“ og það gæti skilið suma eftir með slæmt eftirbragð, svona öfugt við það hvað kreditlistinn í byrjuninni er klikkaðslega töff, en ég efast nú um að nokkur yfir 16 ára aldurinn búist við gallalausu eða tignarlegu bíói. Mér finnst samt alveg mega taka svona grófan og fríkaðan vinkil á fleiri gömul ævintýri. Mín uppástunga væri Gullbrá og bjarnagildrurnar þrjár.

fimm

Besta senan:
Tröllið traðkar!

Sammála/ósammála?