A Good Day to Die Hard

Það er orðið klárt mál að Bruce Willis hefur ekki mikla hugmynd um hvað það var við fyrstu (þrjár) Die Hard sem aðdáendur elskuðu svo grimmt. Núna þegar hann er einnig kominn með framleiðendahúfuna á sig er klárt mál að hann haldi að það að toppa stærðina á hverri mynd sé eina nálgunin sem skiptir máli, ekki nema honum sé bara nákvæmlega sama. Hann kemur út í plús hvort sem lokavaran er góð eða ekki.

John McClane var hér áður dýrkaður vegna þess að hann var nálægt því að vera hversdaglegur löggu-Jói sem festist óheppilega í hinum trylltustu aðstæðum. Það besta við hann var að hann nennti þessu aldrei og gek hann alltaf ónýtur út úr klandrinu og líkamlega í rúst, eins og gerist fyrir eðlilegt fólk eftir stjórnlaust ofbeldi. Skoðanir á Die Harder og Vengeance hafa ávallt verið skiptar, en keisarakrúnan sem fyrsta myndin ber er 130% réttlætanleg. Brúsi gerði í mínum huga stór mistök þegar hann samþykkti að gera nr. 4. Karakterinn var sama og eyðilagður fyrir mér og hér heldur hefðin áfram að svívirða nafn gömlu myndanna.

Þeim sem fannst ekkert að því að sjá ofurhetjuna sem McClane breyttist í árið 2007 eiga líklega eftir að sjá margt gott við heildarpakkann sem A Good Day to Die Hard hefur upp á að bjóða. Það er kannski ósanngjarnt að bera alltaf saman fyrstu þrjár myndirnar við þessar nýjustu, en sama hversu yfirdrifnar þær gátu oft verið þykir mér þær búa yfir svo miklum persónuleika. Þetta skýrir hvernig þeim tekst að skera sig nokkurn veginn út úr hasarmyndageiranum.

Die Hard 4 var týpísk, þrollaheft Hollywood-poppkornsmynd sem „vildi“ vera stór, nútíma Die Hard-mynd. Þessi fimmta er bara týpísk þrollaheft, illa skrifuð hasarorgía sem veit ekkert hvað það þýðir að vera Die Hard-mynd. Forverinn var skárri, báðar eru álíka gagnslausar. Þessi er sem betur fer mun styttri, og þrengra rými veitir möguleikann á villtara flæði. Myndin gefur skít í alla fitu og leifar sem gætu boðið upp á minimalíska persónusköpun og hleypur í staðinn frá einu ofbeldisatriði til þess næsta. Hasarinn keyrir ekki söguþráðinn. Hasarinn ER söguþráðurinn og hann er alveg andstyggilega óspennandi. Síðan eru samtölin skrípaleg, dramatilraunir skelfilegar, húmorinn máttlaus og aðdáandanum er ekki einu sinni sýnd sú lágmarkskurteisi að troða almennilegu illmenni í þunnildin.

Það er nógu slæmt hvað karakterbyggingin hjá Willis og Jai Courtney er grunn, en síðan þurfa allir aðrir í myndinni að vera auðgleymdari en gulrótin sem einn skúrkurinn japlar á. Willis leikur eins og hann sé að reyna að muna hvernig McClane hegðaði sér í fyrri myndunum og Courtney er í sama gír allan tímann, hvorki fínn né leiðinlegur. Handritið hefði getað gert ýmist áhugavert með sambandið þeirra en það er að biðja um of mikið þegar handritshöfundurinn skrifaði t.d. Swordfish og X-Men Origins: Wolverine. Síðan að sjálfsögðu, til að bæta gráu ofan á svart, rís Brúsi upp eftir hverja einustu drápstilraun og áhættustriði eins og lítið hafi bókstaflega í skorist. Ég skal jafnvel velja þotudansinn úr seinustu mynd fram yfir heppnina hans í bílaeltingarleiknum í þessari. Það er reyndar ein af betri áhættusenunum í allri myndinni, eins rugluð og hún er. Skilst að það hafi tekið einhverja 78 daga að taka þetta upp. Vel gert, en á samt eiginlega heima í annarri mynd.

Die Hard 5 er að vísu talsvert frá því að vera algjörlega glötuð, nema jú, í síðasta atriðinu (væmið freeze-frame skot… í alvöru?!). Ég fíla rosalega rakettuflæðið og hvernig hún reynir að vera öðruvísi en hinar. Einnig  þorir hún að sleppa öllu kjaftæði sem leiðir ekki beint til hasars, sem gefur hraðanum betra búst en geldir samstundis innihaldið. Ekki veit ég þó um marga sem myndu mótmæla því hvað John Moore er pirrandi leikstjóri. Pirrandi vegna þess að hann er ekki alltaf algjör auli á bakvið vélina. Hann kann að búa til stíl – sem hann stundum (ókei, OFT) ofgerir af engri ástæðu – og skjóta hasar betur en margir, en gallinn við Moore er að hann hlýtur að vera pínu heilaskemmdur.

Ekki gæti þessi leikstjóri búið til athyglisverða (hvað þá spennandi) mynd til að bjarga lífi sínu og sama gildir um óhæfni hans til að fókusa á karaktera. Annaðhvort velur hann svona leiðinleg handrit eða hann slátrar handritum þar sem eitthvað gæti verið gott í. Þegar á botninn er hvolft skiptir engu máli hver hefði leikstýrt Die Hard 5, sannarlega ekki með handritinu sem var notað. Willis hefur oft fengið vont efni í hendurnar, en á blaði er þetta með því versta. Undirtónninn um gildi fjölskyldna eykur einnig kjánahrollinn á verstu tímapunktum.

Ef McClane heldur áfram að þrepa sig upp í ódauðlegum absúrdleika kæmi varla á óvart ef hann myndi einn daginn finna sig staddan úti í geimnum, eða hoppandi á milli heimsálfa með vopnuðu börnunum sínum tveimur. Die Hard-serían tók ljóta dýfu seinast en nú hefur hún misst öll skynsemismörk og hefur breyst í eitthvað sem hún ætti ekki að vera: háværan brandara sem talar niður til manns. Upp úr þessu er erfitt að trúa því að þeir sem bera virðingu fyrir upprunalegu klassíkinni geti nokkurn tímann tekið þessa mynd í sátt.

Ferillinn hjá Moore lítur sífellt verr út með árunum. Tvær tilgangslausar endurgerðir og þrjár tilkomumiklar en tómar spennumyndir. Og eins og þessi leikstjóri hafi ekki fengið nógu mikið hatur í sinn garð eftir Max Payne þá nuddar hann glerbroti í sárið með þessu innslagi. Héðan í frá getur hann allt eins breytt nafninu sínu og gengið með bréfpoka á hausnum.

fjarki

Besta senan:
Bílahasarinn er skemmtilega sturlaður. Eyðilegging og off-screen dauðsföllin jafnast hér um bil á við Transformers-mynd.

Sammála/ósammála?