Warm Bodies

Warm Bodies brýtur nokkrar grundvallarreglur sem að mati undirritaðs er ófyrirgefanlegt (en samt ekki) þegar verið er að díla við ástarsögu á milli uppvaknings og mennskrar píu. Í fyrsta lagi fer sagan eftir svo fyrirsjáanlegri uppskrift að allt sem lofar góðu í byrjunni breytist smátt og smátt í uppstillingu fyrir voða týpíska atburðarás. Þetta væri svosem í lagi ef sjarmi væri mikill, tónninn samkvæmur sjálfum sér og hvergi væri brotin stærsta reglan varðandi efniviðinn; maður á aldrei að gera PG-13 útgáfu af zombie-mynd! Það er hægt, en gagnslaust og alls ekki sniðugt (merkin eru greinilega ekki nógu skýr, þrátt fyrir að aðalpersóna myndarinnar heiti einfaldlega bara „R!“). Skaðinn er ekki gríðarlegur en þetta er ein ástæðan af hverju myndin haltrar með hangandi hendur í stað þess að spretta á nýja staði.

Það er hægt að hrósa myndinni fyrir að vera drifin af sjúklega ferskri grunnhugmynd sem tekur annan vinkil á Romeo & Juliet. Ég, einhverra hluta vegna, sá hana samt bara sem massíft furðulega samsuðu af táningavænni, ófyndnari Zombieland (lóner verður ástfanginn af harðri gellu í miðjum „zombiepocalypse“), hinni vanmetnu Daybreakers (þar sem heimurinn er í skítnum – og skyndilega uppgötvast hálfaulaleg lækning sem gefur gangandi líkum aftur púlsinn) og – já, því miður – Twilight (stúlka laðast að uppréttu líki). Reyndar, ef út í það er farið, er merkilegt hversu auðveldlega þær Teresa Palmer og K-Stew gætu verið systur, en Palmer yrði þá augljóslega „sú hressa“ af þeim.

Warm Bodies mætti vera bitastæðari og eftirminnilegri hugmyndablanda en hún er nokkuð skemmtileg engu að síður og nýtur sérstaklega góðs af fernu: viðkunnanlegum aðalleikara, hressilega óhressum aukaleikara (Rob Corddry, vissulega), ljómandi góðu soundtrack-i sem greip mig frá fyrsta lagi og nokkrum fínum mómentum, sem koma öllu þessu ofangreindu sterkt við, oftar en ekki. Mér líkar afar vel við Nicholas Hoult (þó ég muni alltaf sjá hann sem fyrst og fremst krakkann úr About a Boy) og hann rokkar hér helvíti erfitt hlutverk. Að gera uppvakning skemmtilegan, sympatískan og elskulegan með sparsaman orðaforða er ekki kannski það léttasta sem til er en hann ber sig ofsalega vel. Palmer er þokkaleg sem hinn helmingur rómantíkurinnar en frekar óheillandi og persónuleikalaus, sem betur fer ekki eins óhress og leiðinleg og sú sem hún minnir mig á. Aðrir hafa litlu að bæta við, að utanskildum Corddry. Dave Franco og Analeigh Tipton verða pínu óþolandi eftir smátíma og John Malkovich er flatur og vannýttur í fimmta veldi. Ég fékk aldrei þá tilfinningu eins og hann væri ekki bara að sækja í auðfengna peninga. Þess vegna ákvað ég að bolda ekki nafnið hans.

Afþreyingargildið helst samt stöðugt þrátt fyrir þessa gengdarlausu galla og 50/50-leikstjórinn Jonathan Levine (sem skrifar einnig handritið upp úr bók Isaac Marion) tekur þá skynsömu ákvörðun að missa ekki athyglina á rugluðu rómantíkinni. Myndin virkar best þegar hún er sem einföldust en síðan þegar hlutir eru komnir meira á hreyfingu (eins og t.d. með ljótu, tölvugerðu uppvakningunum) var mér meira sama. Tónninn, eins og áður nefndi, er heldur ekki alveg að ríghalda og kemur oft á óvart hvað myndina langar mikið til að vera létt-óhugnanleg án þess að ná nokkurn tímann því markmiði.  Skilaboðum sögunnar er einnig skóflað beint upp í nösina og hefði vel mátt gera betur með allegoríuna og súru grunnhugmyndina í heild sinni. Að öðru leyti gengur Warm Bodies prýðilega upp sem sniðug, skondin og nokkuð skemmtileg unglingamynd sem ráðlagt er að gera ekki of miklar væntingar til.

sex
Besta senan:
Sló-móið eða Hungry Heart montage-ið. Ég er ofsalega gay fyrir þetta Springsteen-lag.

Sammála/ósammála?