Flight

Síðastliðin ár hefur Denzel Washington verið á sjálfsstýringu, því hann veit álíka vel og næsti maður að þegar hann er kominn á þá stillingu tekst honum samt að vera betri leikari með – öflugri nærveru – heldur en ótalmargir aðrir. Það þýðir samt ekkert að leyfa góðum krafti að liggja og það sama verður nákvæmlega að segjast um Robert Zemeckis, hinn annars dúndurfína leikstjóra. Hæfileikalega séð hafa þessir látlausu fagmenn legið í dvala upp á síðkastið; Denzel er búinn að vera í hlutlausum í annaðhvort auðgleymdum en þó stílískum spennumyndum eða letilega betlandi eftir verðlaunastyttum inn á milli. Síðastliðinn áratug hefur Zemeckis sjálfur farið sniðugar leiðir á ferli sínum með „Mo-Cap“ teiknimyndum sínum, en lítið grætt á því þegar öllu er á botninn er hvolft. Ljóst er að Flight er eitthvað nokkuð merkilegt sem óneitanlega þurfti að gerast og ég er fjandi feginn að mennirnir hoppuðu um borð. Myndin er alfarið í eigu þeirra þótt verði að segjast liðsaukinn sé gjörsamlega frábær.

Flight lætur það ekki í ljós fyrr en eftir góðan hálftíma að hún snýst fyrst og fremst um óviðurkenndan alkahólisma þar sem gengið er trúarlegu (þ.e.a.s. „spiritual“) leiðina hvað nálgun varðar. Myndin sparar ekki alveg predikunina á sumum stöðum. Í mörgum tilfellum er eins og leikstjórinn sé fullmikið að reyna að mýkja fallið í stað þess að stíga til botns og fljúga alla leið með umfjöllunarefnið, því ekki er eins og það bjóði ekki upp á meira myrkur, þyngra drama og talsvert meira óaðlaðandi hliðar í tengslum við lykilpersónuna. Zemeckis hefur þó vanalega verið meira upplífgandi og bjartsýnn sögumaður sem dýfur tánni ofan í djúpu laugina frekar en að taka skriðsundið. Helsta kvörtunin sem ég hef um þessa mynd (fyrir utan eitt klassískt „æ, kommon!“ atriði í seinni hlutanum) er aðallega þyngd hennar, eins og hún mætti vera meiri. Hún snertir sálina rétt svo en grípur aldrei þétt utan um hana. Helgu- og trúarlegu þættirnir eru sömuleiðis örlítið þvingaðir, eins og umræðan poppi gjörsamlega upp úr öllum áttum. Örlítið samt og engan veginn nógu alvarlegt til að hafa áhrif á almenn skilaboð og áhrif sögunnar.

Þegar allt kemur til alls er þetta nefnilega vönduð og áhrifarík mynd sem heldur athygli vegna þess að leikstjórinn passar upp á sterkt handrit, drollar ekki með neinni senu og leikurinn er óaðfinnanlegur. Sumir gætu sagt að Denzel sé nógu fullkominn til þess að geta átt myndina einn en ég er ekki alveg sammála því. Zemeckis, eða hvaða annar leikstjóri sem er, hefði auðveldlega getað pínt söguna út í of mikla melódramatík eða þann kulda sem hefði aldrei passað. Engu að síður er Denzel sannarlega til fyrirmyndar, fyrirsjáanlega, vegna þess að þegar hann fær almennilegt efni skín alveg á hann.

Þetta er ekki sami Denzel og sást í Book of Eli, Unstoppable eða Déjà Vu svo eitthvað sé nefnt, heldur hágæðahöfðinginn sem brilleraði í t.d. Philadelphia, The Hurricane og fleiri góðum. Einnig ber ég ótakmarkaða virðingu fyrir því að maðurinn er ekkert að tapa sér í öskrandi Óskarsmómentum og tilþrif sem krefjast þess að vera í háum gír (Training Day, halló!). Þvert á móti er Denzel þægilega lágstemmdur, manneskjulegur, oft ósympatískur, aumkunarverður en viðkunnanlegur, þrátt fyrir gallanna. Sjálfseyðingarhvötin nær samt hámarki – eiginlega á býsna hallærislegan hátt – í einni tiltekinni senu þegar garpurinn flakkar á milli hótelherbergja (já, þegar hurðin „kallar“ á hann). Þarna er eini kaflinn í myndinni sem mér finnst virka afar þvingaður á handritsstigi og næstum því ótrúverðugur. En ég læt það renna hjá…


Allir aukaleikarar eru í rauninni bara þarna til að styðja við bakið á Denzel en hvergi er neinum sóað og fellur enginn beint í skuggann á honum heldur. Kelly Reilly er meiriháttar góð sem álíka gallaður einstaklingur og Denzel, en þó á batavegi og meira meðvituð um eigin neyslu. Samband þeirra tveggja og samskipti vefjast utan um kjarna sögunnar og verður hún þeim mun betri fyrir vikið. Don Cheatle og Bruce Greenwood eru drullugóðir á þeim tíma sem þeir hafa en fáir gera jafnmikið úr litlu og John Goodman (sem eldhress díler), Tamara Tunie (sem ein af flugfreyjunum) og James Badge Dale (sem skilur haug eftir sig í hlutverki krabbameinssjúklings á sjúkrahúsi). My Name is Earl-skvísan Nadine Velazquez nýtir einnig tíma sinn vel sem mikilvæg aukapersóna. Ýmsir karlmenn eiga varla eftir að ná neinu af því sem sagt er í upphafsatriðinu þar sem hún gengur um allsnakin í nokkuð ágætan tíma. Elska einmitt hvað þessi mynd byrjar sterkt.

Ekki er ólíklegt að mörgum þyki myndin drepleiðinleg eða alltof hæg, enda löng (en heldur „fluginu“ allan tímann) og dettur þar að auki í allt annan gír eftir fyrsta hálftímann, sem er algjörlega stórkostlegur. Flugslyssatriðið á erindi í sögubækurnar sem eitt það flottasta sem hefur verið sett saman, og með öllum líkindum ein af öflugri spennusenum sem Zemeckis hefur nokkurn tímann gert. Annars er sjálfsagt mál fyrir mig að mæla með myndinni, líklega því hún er sú besta sem leikstjórinn hefur gert í 15 ár. Hún er fullorðinsleg, skörp og segir sannleikann í bíómyndalegum búningi án þess að rembast við það að sjúga tárakirtla áhorfandans og móðga hann í leit að gullstyttu. Denzel rífur sig alveg hægt og rólega niður – andlega – í rúma tvo tíma en samt er séð til þess að úr þessu verði bæði dökk og upplífgandi karakterstúdía. Hvorki ótrúlega djörf né of sykruð og það er ekkert til að vera ósáttur með.

atta

Besta senan:
Titlaða flugið. Út alla myndina er reglulega minnt mann á það hversu geðsjúkt atriði þetta er.

Ein athugasemd við “Flight

Sammála/ósammála?