This is 40

Þegar hann er ekki á fullu að líma nafnið sitt við hverja aðra gamanmynd (vanalega í örlátri lengd) undir framleiðendatitlinum gerist Judd Apatow sífellt persónulegri með hverri mynd sem hann leikstýrir. Þannig hefur hann allavega verið hingað til og upp úr þessu er erfitt að ímynda sér að hlutirnir gerist eitthvað meira persónulegir hjá honum en hér. Enn og aftur setur hann eiginkonuna sína í eitt aðalhlutverkið og reynir eins og hann getur að smita ást sína á eigin dætrum yfir á áhorfandann, þrátt fyrir að þær hafi oft ekkert að gera annað en að vera uppfylling í bakgrunni. Ofan á það er sagan lauslega byggð á lífi leikstjórans og fjölskyldunnar, að því ógleymdu að spúsan sjálf er nýorðin fertug.

Venjulega þegar kvikmyndagerðarmenn opna sig samt svona mikið er óskrifuð skylda að vandað sé til verka. Apatow virðist vera undarlega áttavilltur að sinni. Þetta er klárlega slakasta myndin á annars stórfínum ferli, en það sem hneykslar mig mest er hversu stórt gæðahrapið er í samanburði við The 40-Year-Old Virgin, Knocked Up og Funny People (hættið að væla, hún er frábær!). This is 40 er ekki eins alvarleg og þessi seinastnefnda en hún vill samt vera tekin alvarlega sem drama og samt hafa áferðina og léttleikann á við fílgúdd-gamanmynd. Gott plan, en svona formúlu á að vinna með smámunasemi, annars endar þetta bara uppi sem einhver klessa með efnislegu- og tónamarkmiðin í algjöru fokki.

Það er ekki eins og Funny People hafi verið algjörlega flekklaus tilraun en hún hafði í það minnsta eðlilegar, næstum því flóknar og heldur áhugaverðar persónur og tilheyrandi þróanir. Þessi er hins vegar teygð, þreytandi, letilega sett saman, langdregnari en þykir ásættanlegt (m.a.s. miðað við Apatow-myndir!) og voða sjaldan eitthvað kætandi eða brenglað fyndin, þó hún reyni að sjálfsögðu að vera það. Það gerist stöku sinnum þegar myndin þykist ekki vera með einhvern söguþráð eða tilgang. Handritið er alfarið tínt saman úr sub-plottum – sem er í lagi en þau leiða hvergi – og eina gagnið er að selja sig sem „næstum því“ framhald af Knocked Up. Að auki vantaði Apatow eitthvað fyrir konuna sína að gera. Ég skal alveg varpa því út samviskusamlega að ég hef aldeilis séð meira sjarmerandi leikkonur í svona myndum. Hvort þetta er persónuleiki hennar eða efnið er ég ekki alveg nógu viss um, en Leslie Mann reynir mikið á þol mitt stundum.

Paul Rudd er alltaf skemmtilegur, og hér er engin undantekning, en sú lýsing byrjar hægt og rólega að missa sitt gildi þegar hann og Leslie þrasa út og inn og manni er tussusama um bæði tvö og hvort þau gætu skilið eða nái að vinna úr vandamálum sínum. Það er ætlast til að áhorfandinn tengi sig við vandamálin, og á marga vegu er það hægt. Á grunnstigi eru þau hversdagsleg og normal en líklegt þykir mér líka að margir eigi erfitt með að vorkenna vel stöddu efristéttarpari, sem býr í þokkalegri höll og kvartar undan fjárhagsvandamálum (hvað með að selja BMW eða LEXUS-bílinn eða einn af þessum fimm iPödum sem eru á heimilinu?!?). Mér tókst samt aldrei að tengja mig við þessa tvo einstaklinga vegna þess að báðir aðilar eru fyrst og fremst algjörir bjánar, og ekki af krúttlegu gerðinni. Þetta á að vera alvöru fólk en að mínu mati er ekki einu sinni hægt að kalla þetta persónur, heldur bara einhverja barnalega og sjálfselska aula sem tveir misskemmtilegir leikarar túlka af miklum áhuga.

Rudd og Mann virkuðu frábærlega sem aukapersónur í Knocked Up. Þar gekk betur að tengja sig við þau, skilja þau og voru e.t.v. betri „raunæisskilaboð“ í samskiptum þeirra þar heldur en í allri þessari bíómynd. Þau mynduðu skothelt mótvægi við persónurnar sem Seth Rogen og Katherine Heigl léku, en nú eru þau fjarverandi (hvers vegna?!) og situr maður bara uppi með ríku væluskjóðurnar og dætur leikstjórans. Þetta er í fyrsta og líklega eina sinn þar sem ég mig langaði í alvörunni til að fá Katherine Heigl í mynd.

130 mínútna lengdin er stærsti brandarinn. Þetta segir kannski ekki mikið því annaðhvort fóru langflestir brandararnir alveg framhjá mér eða það litla sem ég sá af húmor var bara alls ekki að ná til mín. Ég brosti stundum (sem betur fer, annars hefði setan verið algjört morð) en sat þögull yfir megninu af lengdinni og beið eftir dósahlátrinum. Öfugt við það fékk ég óþægilega tilfinningu þegar reynt er að pína dramað. Á blaði er þessi „saga“ þvinguð, illa skrifuð og ranghvolfdi ég augunum oftar en einu sinni þegar í ljós kom hvað Apatow notar oft ódýrar aðferðir til að binda slaufu á myndina og helstu vandamál.

Það er heilt botnfylli af aukaleikurum sem hefðu getað bætt helling við myndina ef „handritið“ væri gott en í staðinn gera þeir flestir ekkert annað en bara að spinna heilu atriðin á staðnum með engum öðrum tilgangi en að vera lengja sýningartímann. Sumir eru góðir (t.d. Albert Brooks og Jason Segel, sem á LANGfyndnustu línuna í myndinni – sem rúmar ekki nema tvö orð), aðrir eru annaðhvort vannýttir, gagnslausir eða óþolandi (vil þarna sérstaklega þakka Charlyne Yi fyrir alversta mómentið. Melissa McCarthy er lítið skárri). Það kemur samt minnst á óvart að Apatow er mest blindaður gagnvart leiknum sem stúlkurnar hans sína. Allar þrjár. Það er fulllangt gengið að segja að þær séu slæmar, en víst er að þær eru engan veginn góðar.

Ég er viss um að Apatow, sem „handritshöfundur,“ hefur fjölmargt að segja um að nálgast fimmtugsaldurinn og… hvað skal segja… andlegu „kvölina“ sem getur fylgt því. This is 40 hefði léttilega hækkað gæðastandardinn ef hún hefði verið hlaðin alls konar undirliggjandi skilaboðum um þroska, fjölskyldutengsl og framtíðina en hún lætur þetta alveg í friði nema gefist tækifæri til að breyta því í brandara sem gengur ekki alveg upp. Þegar klukkutími var liðinn á myndinni sá ég að hún var ekki að gefa mér nægilega gott grín, þá beið ég í staðinn eftir betri meðhöndlun á alvarlegu pörtunum. Nei nei, myndin er voða hálfkláruð í báðum deildum og – ég ítreka – frústrerandi löng.

fimm

Besta senan:
„Frútþ“

Sammála/ósammála?