Jagten (The Hunt)

Jagten er drama alveg í gegn en spilast eins og lágstemmdur þriller af bestu sort. Þetta er kraftmikil, grípandi og að öllu leyti spennandi mynd sem notar stigmögnun rétt, líkt og góðum þriller er algjörlega lagið. Þetta gerir hún samt alfarið á jarðbundnu, dramatísku leveli. Enginn hasar, engin margslungin atburðarás eða meðfylgjandi fléttur, heldur aðeins tilfinningar og sálarskaðandi óheppni hjá einni sögupersónu! Myndin svífur alveg á tryllt góðu handriti en eitthvað er það við takta leikstjórans og hreint út sagt óaðfinnanlegan leik hjá Mads Mikkelsen sem flytur hana í skylduáhorfs-status.

Það er klárt að ótvíræði aðdrátturinn við myndina, fyrir utan það að vera stórglæsilega unnin, er raunsæ meðhöndlun á umfjöllunarefni sem ekki er erfitt að festast eða tengja sig við. Hugmyndin togar mann nógu sterkt um hvernig agnarsmá lygi eins barns getur skyndilega leitt til stórra og átakanlegra afleiðinga hjá einstaklingi sem á þær ekki skilið. Síðan í kjölfarið er eytt megninu af lengdinni í að sparka fastar í liggjandi mann. Frekar týpísk formúla, þannig séð, en lykillinn er í því hvernig henni er háttað og kemur í ljós smám saman að handritið vekur upp alls konar athyglisverðar, lógískar spurningar. Það voru ákveðin skilaboð sem brenndust samt inn í hausinn á mér eftirá, og þau voru skýr sem eldur í návígi.

Kannski ég punkti þetta niður: ALDREI mynda saklaus tengsl við litlar (mögulega illar) stúlkur sem særast auðveldlega! Ég held ég láti það sömuleiðis í friði að sækja nokkurn tímann um vinnu á leikskóla. Fyrir myndarmenn sýnist mér það vera álíka hættulegt og fyrir sundlaugavörð með snertisýki, en af öðruvísi ástæðum.

Thomas Vinterberg, sem vafalaust hefur aldrei komið nálægt betri mynd áður (með fullri virðingu fyrir hinni frábæru Festen), heldur fast og grimmt utan um brothættan, krefjandi tón. Saga af þessari tegund, sérstaklega frá Skandinavíu, hefði í röngum höndum getað breyst í eintómt eymdarklám. Það eða eina af þessum frústrerandi myndum sem hrynur vegna þess að yfirdrifnar aðstæður byggjast allar í kringum eina smotterísákvörðun – af engri spes ástæðu í raun (nema líta megi á litlu stúlku myndarinnar sem lævísari skepnu heldur en ófétið úr The Omen). Handritið passar að leika sér með samfélagsrýni, sjónarhorn áhorfandans (því hann veit strax að aðalpersónan er saklaus, þótt nokkru sinnum sé snilldarlega dýpt tánni í vafa) og þemu sem setja spurningarmerki við traust, vináttu og sjálfsagt sakleysi barna. Leyfist mér líka að segja að það er aldrei dauður kafli.

Vinterberg kemur glæsilega í veg fyrir of niðurdrepandi áferð og skreytir öllu heldur týpískan hversdagsleika með ákveðnum kulda og óþægindum. Svo er vísindalega ómögulegt að undirstrika annað en að hinn mikli Maddi Mikk eigni sér alla myndina og beri hana á öxlum sér, enda nánast í hverri einustu senu. Frammistaða hans fer aldrei í of háan dramagír. Jafnvel það hversu mikið hann heldur aftur af sér gerir viðkunnanlegu en niðurbrotnu persónu hans meira sannfærandi (atriðið í kirkjunni nýtir þennan kraft heldur ógleymanlega og keyrir myndina á alla réttu staði!). Það er fullvægt til orða tekið að segja að ég hafi fundið til með honum. Mikkelsen gerir mann öllu heldur meðvirkan, eiginlega bandbrjálaðan fyrir hans hönd. Hver og einn einasti í aukahlutverki kemur einnig frábærlega út, meira að segja litla stúlkan. Eða svo gott sem. Það styrkja allir söguna og aðalleikarann.

Jagten er þægilega aðgengileg mynd og það gerir það miklu auðveldara að mæla með henni fyrir flesta ef ekki alla fullorðna sem þola það að eyða meira en 10 mínútum fyrir framan skjáinn án þess að bíll þurfi að springa í loft upp. Þeir sem horfa ekki mikið á kvikmyndir geta léttilega sogast beint inn í hana á meðan kröfuharðari unnendur munu líklega meta hversu mikið er hægt að lesa út úr henni. Ég sé ekki fyrir mér að nokkur siðmenntuð manneskja sjái eftir þessum tveimur tímum. Þetta eru frekar brilliant tveir tímar.

niuBesta senan:
Kirkjan. Pragtfuld atriði.

Sammála/ósammála?