Þetta reddast

Eins og mér skilst þá hófst undirbúningsvinna þessarar myndar fyrir einkennilega mörgum árum síðan, meira að segja fyrir hrun. Svo var stefnt á að sýna hana árið 2010 (vel gert að setja plakötin svona snemma upp!) en þá tók við einhvers konar endurmótunarferli í klippiherberginu, og afar langt. Þetta þykir mér býsna mögnuð staðreynd því ekki er eins og hér sé eitthvað brothætt listaverk á ferð frá Terrence Malick sem á sér rétt á endurröðun í frásögn, heldur einföld, reyndar flöt, frekar stefnulaus og aum raunsæisgamanmynd með ranghugmyndir um einhvern léttan dramakraft.

Líklegt þykir mér að minna um smámunasemi hafi átt sér stað í gegnum klippitímann og meira slegist um ákvörðunina hvort ætti að henda þessu beint út á VOD-ið eða ekki. Ég tárast af kalhæðnislegri gleði yfir hugsuninni að mynd með svona sóðalega framleiðslusögu beri titilinn Þetta reddast, og það að enska heitið á henni sé Rock Bottom er enn fyndnara. Ekki að hún sé eitthvað sorp því það er fullt af fínum hráefnum í körfunni. Botninum er alls ekki náð en hann er allavega í augsýn, sérstaklega hvað ábyrga og faglega kvikmyndagerð á klakanum varðar.

Það þýðir ekkert að skamma neinn ef fjármagnið var svona lítið. Slíkt gerist. Það hefði reyndar verið alveg hægt að spila meira út úr því og gera einhvern listrænan óð til Dogme 95 stílsins. Það var það fyrsta sem skaust upp í hugann þegar ég sá að varpinn í SAMbíóunum var ekki eitthvað gallaður, heldur að myndin væri í rauninni bara illa tekin upp með DV-vélum, án mikils tillits til lýsingar eða vandaðrar hljóðvinnslu. Kannski er framsetningartæknin bara orðin of góð fyrir þau gæði sem myndin var tekin upp í á sínum tíma, en það er engin afsökun fyrir svona slök vinnubrögð. Einstaka sinnum heyrir maður lítið í leikurunum, tónlistin kemur út eins og hún sé stundum hærra stillt og til að kóróna allt er boðið upp á heila samtalssenu þar sem tveir aðilar tala saman í hálfgerðu myrkri og það eina sem sést almennilega í er umhverfið út um gluggann.

Að taka upp mynd um hversdagslegheit með ódýrum myndavélum er í fínu lagi, en þá er best að nota HD vélar þar sem linsurnar nema það sem augað sér. Heilu atriðin í þessari mynd líta út eins og þau séu tekin upp á farsíma (þá væntanlega betri farsíma en var í boði fyrir fjórum árum, þegar myndin fór í tökur), og ef ég hefði fyrr vitað að þetta mætti – svo ég tali nú ekki um að svona komist í kvikmyndahús eins og ekkert sé týpískara – hefði ég verið löngu búinn að skjóta þrjár eða fjórar bíómyndir í fullri lengd sjálfur með svona amatör-hætti og útsölu-vélum. Ég þori varla að kenna leikstjóranum alfarið um þetta. Hann vildi örugglega bara að búa til einlæga litla bíómynd með mannlegum skilaboðum, þó hann greinilega kunni það ekki alveg. Frekar set ég samt spurningarmerki við ákvarðanirnar hjá Kemp og Ingvari Þórða, sem oft hafa áður framleitt normal og þokkalega útlítandi kvikmyndir. Kannski var þeim bara sama og gripu oft til frasans góða: „Þetta reddast!“

Með meira fjármagn á milli handa hefði myndin getað orðið nokkuð ágæt. Ekki góð fyrir tíkall, en kannski ágæt. Það besta við hana er hversu realískar samræðurnar í henni eru, sem segir að leikararnir spili prýðilega á móti hvor öðrum og þar fær leikstjórinn gott klapp. Sumir kaflar eru fyndnir en aðra er vart hægt að taka alvarlega af sökum framleiðslugæðanna. Mér leið oftar eins og ég væri að horfa á vöru sem þættist vera kvikmynd, ekki alvöru kvikmynd.

Persónusköpunin er líka mjög döpur, sem er vont þegar svona lítið gerist í sögu sem á að fjalla um persónurnar og eðlilegu vandamál þeirra. Hvert vandamál leysist líka á svipstundu, sem partur af vandræðalegum eftirmála. Allir eru skelþunnir, nema Björn Thors, kaldhæðnislega, sem kemur með sannfærandi alka, en frekar en að vera athyglisverður hrokagikkur í afneitun er hann bara leiðinlegur, eigingjarn aumingi sem nær aldrei samúð manns. Og svo akkúrat þegar áhorfandinn reynir að vorkenna honum, sýna óvænta væntumþykju eða skilning er mottunni kippt undan manni, eins og myndin sé að reyna að fíflast í áhorfendum og hamra ofan í þá óverðskulduð raunsæisskilaboð. Svo gera aukakarakterarnir varla nokkurn skapaðan hlut en að vera auka- eða varahlutar, og því smærri sem skjátíminn er, því tilgangslausari og verr skrifuð eru hlutverkin. Augljóslega vildi leikstjórinn nýta sér allan þann „stjörnukraft“ sem hann hafði, en þetta er eiginlega einum of.

Þetta reddast virðist ekkert vita hvert hún ætlar fyrr en í lokakaflanum og á því bili var ég alveg búinn að stimpla mig út. Það eru góðir sprettir í handritinu en mér var svo skítsama um alla „söguna“ að ég er farinn að spyrja sjálfan mig hvort það hafi verið ætlun aðstandenda. Það þýðir heldur ekkert að kafa ofan í meðalmennskumúsíkina eða aðrar skreytingar því ekkert lyftir þessu glápi á hærra plan nema leikararnir, sem láta eins og þeir séu staddir í bitastæðari mynd og standa sig flestir vel. Restin er öll dregin niður af viðvaningstöktum, á handrits- og framleiðslustigi.

fjarki

Besta senan:
Bláir gúmmíhanskar. Ódýrt og tilgangslaust en ég brosti.

Sammála/ósammála?