Beautiful Creatures

Auðveldlega gæti maður búið til lítinn leik úr því að spotta þær bíómyndir sem hafa farið í framleiðslu á síðustu árum þar sem vonin er að finna arftaka Twilight-seríunnar. Hæg ástarsaga, unglingaangist, yfirnáttúrulegar hugmyndir – sem eru þar að auki gloppóttar, vannýttar og hálfkjánalegar. Formúlan er þarna strax komin. Kosturinn við samt það að fá „eftirhermur“ af Twilight kemur akkúrat ókostum þess fyrirbæris við, vegna þess að Twilight er eins og andstæðan við hausverkjatöflu og það þýðir að alls ekki er erfitt að búa til eitthvað betra úr sambærilegum hráefnum. Beautiful Creatures sýnir að þetta dæmi stenst nokkuð vel. Þetta er ekki beinlínis afrit en þó keimlíkt á marga vegu og, til mikillar lukku, aðeins skemmtilegra.

Þegar ég er semí-ánægður með eitthvað þá þykir mér nett leiðinlegt að bera það saman við Stephenie Meyer-stórverkin, en hér er það óhjákvæmilegt. Varúlfar og vampírur detta út en nornir og galdrakarlar taka við. Frásögninni er háttað eins og almennt fiðringurinn er af sömu týpu. Stærsti og mikilvægasti munurinn er aftur á móti sá að rómantíkin hér gengur upp (!) og mætti jafnvel ganga svo langt og segja að skjáparið sé bara nokkuð sjarmerandi, þótt tilheyrandi skraut hrindi mann oft svolítið frá því góða. Að minnsta kosti get ég sagt að karakterarnir búi yfir töluvert meiri persónuleika heldur en Edward og Bella nokkurn tímann höfðu, og eru að auki viðkunnanlegri. Reynt er eftir bestu getu að hlaða inn einhverri persónusköpun, sem heppnast ekkert stórkostlega, en tilraunin er einlæg og kemistrían á milli ungu, tiltölulega óþekktu ungu leikaranna heldur þessu í siglingu. Alice Englert (dóttir leikstýrunnar Jane Campion) er ágæt en aðeins litlausari heldur en mótleikari sinn, Alden Ehrenreich (úr síðustu Francis Ford Coppola myndunum tveimur, Tetro og Twixt), sem strax vinnur mann yfir á sína hlið. Hress og skemmtilegur gæi, en saman smella þau prýðilega.

Aukaleikararnir, þá þessir reyndu, geta verið nokkrum skrefum frá því að ofleika en að sjá Óskarssigurvegara eins og Jeremy Irons, Emmu Thompson og Violu Davis láta eins og þau séu stödd á sviði í lélegu leikriti er ekki það versta sem getur hugsast. Frekar en að líta út fyrir að deyja úr leiðindum taka þau hlutverkin sín tvímælalaust alla leið og það er eitthvað sem ég verð að gefa þeim kredit fyrir. Að þeim utanskildum eru flestir of klisjukenndir eða ýktir til að minnast á.

Þegar Beautiful Creatures heldur sér í rólega, jarðbundna gírnum er hún best. Þegar hún springur alveg út í einhvern sjónvarpsþáttalegan fantasíufíling verður hún ódýr og áreynslumikil. Brellurnar eru lélegar, leikstjórnin verður óröuggari en fyrst og fremst verður sagan fyrir barðinu því unnið er svo illa úr ágætum hugmyndum um vont „galdrafólk“ gegn hinu góða sem og kristinni trú. Traustur grunnur en heldur klúðursleg framkvæmdin sem skilur asnalegar spurningar eftir ósvaraðar. Rómantíkin skiptir samt meira máli heldur en fantasían, en það er engin afsökun fyrir að pæla hlutina ekki betur út. Það er líka aðeins of mikill anti-climax bragur á seinustu köflunum, en fínn, óhefðbundinn endir bætir það eiginlega upp… þangað til í blálokin. Ef satt skal segja þá er Beautiful Creatures ein af örfáum myndum sem ég man eftir í fljótu bragði sem er bókstaflega nokkrum sekúndum of löng. Um leið og ein persónan opnar á sér kjaftinn læðist aftur þessi glataða „plís, hættu!“ tilfinning.

Andrúmsloftið kemur út eins og lífsglaðara, gelgjulegra afkvæmi Tims Burton (ættað frá suðurríkjunum) hafi átt einhverja hönd í því og búningarnir auglýsa sig frekar mikið (rétt upp hönd sem fannst erfitt að glápa ekki á það sem Emmy Rossum gekk í! – *hönd*). Það fylgir þessu einhver kjánahrollur en sjaldan neinn sem kemur of oft eða varir of lengi. Myndin er svolítið þannig í hnotskurn. Hún er hallærisleg á pörtum en ekki nógu mikið til þess að hægt sé að sitja og gera grín að henni allan tímann. Hún er í heildina bara… fín. En það telst til mikils hróss fyrir mynd af þessari tegund. Í alvöru.

fin

Besta senan:
Snjórinn var krúttó. Fékk estrógen-sprautu þarna í smástund.

Sammála/ósammála?