Oz the Great and Powerful

Sam Raimi hlýtur að fá eitthvað svakalegt kikk út úr því að sýna Tim Burton hvernig betur skal gera suma hluti og hér fær ævintýradýrkandinn að sjá allt það sem Burton gerði rangt með Alice in Wonderland, fyrir utan umgjörðina kannski. Að minnsta kosti hvað rándýra Disney-pixlaveislu varðar sem byggð er á klassískri sögu tel ég í lagi að segja að Raimi sé betri maðurinn. Ég vildi þó að ég gæti sagt að Raimi kynni almennt að nýta Danny Elfman betur, en líklegast er það efni í aðra umræðu. Því ég er ekki einu sinni svo viss um að Elfman sjálfur kunni lengur að nýta hæfileika sína til fulls.

Það sem skiptir mér mestu fyrir mér er að Oz the Great and Powerful (af hverju ekki bara The Great and Powerful Oz??) er ekki alfarið sjarmalaus brelluklessa heldur skemmtileg ævintýrasaga með gamaldags frásögn í nútíma búningi – sem þýðir að hún reiðir sig augljóslega MIKIÐ á tölvurnar, næstum því of mikið. Hún byggir samt heim sinn vel, togar mann inn í hann og veit hvenær hún vill vera hjartahlý, barnaleg, fullorðinsleg og dökk til skiptis án þess að misstíga sig alltof mikið í tónaskiptingunum. Hún getur stöku sinnum verið eilítið… kjánahrollvekjandi, en slíkt tíðkast sjaldan og eru atriðin sem takast vel alveg töluvert fleiri. Jákvætt er að myndin svertir alls ekki nafn einnar sígildustu ævintýramyndar í heimi (sem er nú að nálgast áttrætt og þykir óneitanlega ofmetin af mörgum unglömbum). Það er nú samt ekki eins og The Wiz og Return to Oz hafi gert það erfitt fyrir Raimi að skapa besta (og heilbrigðasta!) innlitið í þennan heim frá því að sú gamla var gerð.

Samanburðurinn við Alice er þreytandi en óhjákvæmilegur og annað en hún þá er Oz knúin af skemmtilegu og oft frekar fyndnu handriti sem bætir upp fyrir það hversu grunnt það er. Það leiðinlega við söguna frá augum þeirra sem þekkja þá upprunalegu er að hún verður aldrei ófyrirsjáanleg, ekki einu sinni þegar hún reynir að bæta bragðið með einni eða tveimur fléttum. Merkin eru alltaf skýr og þegar allt kemur til alls er þetta ofsalega standard forsaga, en sem betur fer er látið það vera að brúa myndirnar tvær of mikið. Það drepur hins vegar mikla spennu þegar maður veit fyrirfram hvað verður eða verður ekki um helstu karakteranna í lokin og „hvernig“ það gerist allt er ekki eins áhugavert og það ætti að vera.

Tölvubrellurnar eru (náttúrulega!) brjálæðislega flottar, allavega þegar kemur að því að kortleggja þennan dásamlega fantasíuheim. Green screen-vinnan er oft hræðilega augljós og þá líður manni eins og góðir leikarar séu fótósjoppaðir beint inn í gullfallega teiknimynd. Töfraandinn glatast svolítið á þessum stundum en Raimi sýnir litla leti og kemur á móti með villt og brengluð kameruskot – eins og hann er/var þekktastur fyrir – svona annað slagið til að pumpa meira fjör í þetta. Það hjálpar, en oft veit ég ekki alveg hvað Raimi sér við suma hluti. Valið á leikurum er t.a.m. í fínu lagi, með einni undantekningu, en ekki alltaf hvernig þeir eru notaðir.

James Franco er góður sem „hinn mikli Oz,“ sem er frábær karakter, en stöku sinnum meira stífur en sjarmerandi. Ég ætla ekki að segja að hann sé rangur maður í rullunni en eflaust hefðu einhverjir aðrir getað gert þetta betur. Hann sér samt þokkalega um sig, sem Mila Kunis gerir aftur á móti ekki. Hún er fín í fyrri helmingnum en fer alveg út af sporinu í þeim seinni á máta sem öskrar orðið „miscast!“ Rachel Weisz og Michelle Williams (sem eru tvær af mínum uppáhaldsleikkonum í dag) láta hins vegar fara vel um sig og leika sér með það sem þær hafa. Það kemur reyndar á óvart að tvær best heppnuðu persónur myndarinnar eru báðar tölvugerðar. Ég er vanalega mishrifinn af Zach Braff en sem pirrandi en samt sympatískur api er hann furðu ágætur. Postulínsdúkkan er samt sú uppfinning sem myndin mætti vera hvað ánægðust með. Hún er heilt kíló af krútti.

Þó svo að hún sé forsaga einnar elstu og ástsælustu fjölskyldumyndar síðustu aldar þá skilst mér að þessi „pre-boot“ mynd sækist meira í bókmenntirnar heldur en klassíkina. Raimi er samt með réttu umhyggjuna og gefur myndinni alveg sitt eigið andrúmsloft þó hún komi oft með krúttlegar og áberandi vísanir í þá gömlu, og á bestu stöðum. Ákvörðunin skilaði sér sérstaklega vel að sýna upphafssenurnar í raunheiminum í boxuðum 4:3 hlutföllum áður en ramminn breikkar þegar komið er til ævintýralandsins. Mjög skýr virðingavottur (nema þessi er fyrst í svarthvítu á meðan hin var í meira sepia-lit) og litadýrðin skvettist æðislega á skjánum, en Raimi er heldur ekki að ætlast til þess að sýna áhorfendum heiminn, heldur leiða hann í gegnum hann. Það tókst, og Danny Elfman músíkin gerir gott mikið betra (enda fær hún nóg af tækifærum til að njóta sín í botn) en þeir sem þekkja nafnið hans vel munu örugglega finna fyrir því að hann virðist mikið endurtaka betri verk eftir sig. Góð tónlist jú, og afar mikilfengleg, en það er löngu kominn tími á annað stórfenglegt og einstakt score frá honum sem vegar nánast jafnmikið og útlitið. Kreditlistinn í byrjuninni er samt meiriháttar, þökk sé honum, að hluta til.

Oz the Great and Powerful smellur ekki á öllum stöðum en kemst upp með að vera býsna töfrandi sjónarspil sem ólíkar kynslóðir ættu auðveldlega að geta tekið í sátt. Svo er ekki leiðinlegt heldur ef börn sem festast í henni, með lágarks, menningarlegt vit þ.e.a.s., uppgötvi The Wizard of Oz í gegnum hana. Sú mynd er ekki fullkomin að mínu mati en á langa líf sitt fyllilega skilið og Raimi-útgáfan af þessari aðlaðandi veröld ætti að styrkja þessa fyrirmynd sína ef eitthvað. L. Frank Baum hefði a.m.k. orðið sáttari við Disney heldur en Lewis Carroll.

thessi

PS. Varla get ég verið einn um það að vera orðinn heldur þreyttur á Tony Cox. Og hvernig er það? Fær hann bara símtal í hvert skipti sem þörf er á svörtum dverg til að rífa kjaft í bíómynd?

Besta senan:
Góðmennska í China Town. Elfman tónlistin græjaði senuna alveg.

Sammála/ósammála?