Identity Thief

Klikkuð, vinalaus kelling eyðir peningum saklauss fjölskyldumanns (með nýtt barn á leiðinni) sem nauðsynlega þarf á þeim að halda, og það sem er framundan er nákvæmlega jafnfyndið og þessi lýsing á plottinu.

Það er ekki vondur hlutur þegar leikarar ákveða að betrumbæta handritið sem þeir hafa með því að spinna alls kyns grín í gegnum tökurnar. En ef svona lagað á að heppnast er þá eins gott að spuninn sé fyndinn og bæti myndina en fyrst og fremst mikilvægt að handritið sem stutt er við sé ekki blæðandi úr húmorsleysi. Ófyndið handrit er augljóslega slæmur vandi þegar hugsunin er að gera gamanmynd, en það bætir aðeins gráu ofan á svart þegar flatt og húmorslaust handrit sýnir ekki vott af ferskleika og þykist síðan taka sig alvarlega með grútlélegri dramatík. Identity Thief hefur glens en lítið grín. Hún telur sig vera með hjartað en skortir alveg sálina. Hún vill vera ærslafull og skemmtileg en er í afneitun með það að vera sett saman úr svona 10 betri (og verri) myndum. Þetta eru góðu gallarnir, því í hreinskilni sagt er þessi mynd ekki langt frá því að vera eins konar dauðadæmt drasl.


Leikstjórinn Seth Gordon ætti að halda sig við (feik?) heimildarmyndir. Þegar hann fór að dunda sér við Hollywood-gamanmyndir fóru neyðarbjöllur strax að hringja (fyrsta tilraunin var jólamyndin Four Christmases – sem vissi ekki einu sinni hvað það þýddi að vera fyndin! Eða jólamynd!) og nú þegar maður sér að Horrible Bosses var algjör heppni hjá honum (enda voru það leikararnir og meðalgóða handritið sem gerðu myndina, ekki taktar Gordons), þá má hann alveg finna sér eitthvað annað að gera. Identity Thief á að vera hjartahlý og meinfyndin afþreying, og það var akkúrat það sem ég bjó mig undir, en eftirá gekk ég út móðgaður, pirraður og með engan skilning á því hvernig Melissa McCarthy getur ofmetið sjálfa sig svona rosalega eða af hverju Jason Bateman þurfi ALLTAF að leika sama manninn. Best kann ég við þann mann þegar hann ber eftirnafnið Bluth.

Lykilplottið hefði kannski getað dugað í 80 mínútna mynd, en 110 mínútur er ávísun á allt annað kvikindi. Söguþráðurinn lofar ágætu í fyrstu, þá aðallega vegna þess að áhorfandinn getur léttilega sett sig í spor Batemans (og tilhugsunin að refsa McCarthy er mjög ljúf – þangað til að myndin ákveður allt í einu að okkur á að vera annt um gerpið!). Af engri spes ástæðu er handritið flækt og verður myndin enn klisjukenndari og úldnari því lengra sem á hana líður. Þetta byrjar allt sem fyrirsjáanlegur og leiðinlegur vegamyndafarsi en um leið og þetta breytist allt í hasargrín með tilheyrandi glæpahyski eykst klisjuóþolið talsvert. Slöku atriðin stefna sjaldan eitthvert og þau eru enn sjaldnar brotin upp með góðu gríni. Ég tók eftir nokkrum atriðum sem *áttu* að vera fyndin, en ég sat almennt þöglari yfir Identity Thief heldur en flestum dramamyndum. Ég held að Zero Dark Thirty hafi m.a.s. átt betri grínspretti heldur en þessi.


McCarthy þarf að finna sér alvöru hlutverk svo hún verði ekki endanlega stimpluð sem einhver trúður. Hún á að líta á Bridesmaids sem stökkpall í staðinn fyrir grunnformúlu, haldandi að hún eigi bara að halda sig við ákveðnar týpur. Það segir sig sjálft að hún hafi verið æðisleg í Bridesmaids en lítið hefur hún gert fyndið síðan. Bateman og McCarthy eiga fínan samleik en aldrei verða til drepfyndnar senur út af þessu vonlausa handriti. Í fyrri helming er hann staðgengill áhorfandans og hún einhliða brandari, en svo þegar „dramað“ tekur við stefnir allt hratt niður. Hver einasti aukaleikari nýtist illa (John Cho, Favreau, Robert Patrick og Amanda Peet hljóta að hafa svindlað á skattinum til að hafa hlotið þessar rullur) og svo ég undirstriki það betur: Myndin er DREPleiðinleg. Á latari degi hefði þessi umfjöllun hjá mér ekki þurft að vera lengri en þessi þrjú orð. Ég beið alltaf eftir að hún yrði betri. Svo kláraðist hún. Þá varð hún betri.

Identity Thief gefur gamanmyndum slæmt orð. Það er niðurdrepandi að hugsa til þess að fólk sem ætlar sér að sjá hana í leit að kexruglaðri kímnigáfu fái svona lata og þurra kanafroðu sem snýr munnsvipnum í öfuga átt. Kosturinn við það að ætla sér að sjá heiladauða hasarmynd, sama hversu léleg hún getur orðið, er maður fær oftast hasar í einhverju magni sama hvað. Þannig er ekki raunin með glataðar gamanmyndir og sérstaklega ekki þessa. Hún er með þeim þreyttari og leiðinlegri sem ég hef lengi þraukað í gegum, aðallega vegna þess að hún reynir ekkert á sig nema í píndum skömmtum. En húmor er að sjálfsögðu einstaklingsbundinn. Þeir sem horfa sjaldan á bíómyndir geta hækkað þessa einkunn upp um tvö eða þrjú númer.

thrir
Besta senan:
Eric Stonestreet parturinn. Ég hló ekki, en Stonestreet kætir mig alltaf pínu.

Sammála/ósammála?