Dead Man Down

Það munar oftast miklu að dæla evrópsku blóði í bandarískar krimmamyndir, ekki síst einhverja dropa af þessu skandinavíska. Miðað við hversu vel hann stóð sig með Man som hatar kvinnor má alveg fullyrða að danski leikstjórinn Niels Arden Oplev sé alls ekki einn af þeim sem slórar í vinnunni. Oplev er góður í að vinna með andrúmsloft, leikara og rólegu augnablikin, sem eru allt kostir sem tilheyra Dead Man Down, en stöku sinnum skiptir myndin beint og snöggt yfir í ameríska gírinn. Einnig mátti alveg bæta handritið. Reyndar frekar mikið.

Söguþráðurinn tekur áhugaverðan, flæktan snúning á hefndarformúluna með berjandi kennslu um hversu mikilvægir ástvinir eru, sem og hversu kröftug öll litlu mómentin í lífinu geta verið. Það er samt eins og bandaríska framleiðslan (þrátt fyrir að leikstjórinn og leikararnir séu flestir evrópskir) höndli ekki alveg köldu og semí-djúpstæðu meðhöndlunina og þess vegna breytist hún á köflum bara skyndilega í allt aðra bíómynd. Rætur gallanna mega samt alfarið rekja til handritshöfundarins. Illmennin eru teiknimyndaleg, plottið fer oft í rangar áttir og af óskiljanlegum ástæðum er mikil hræðsla við það að ganga of langt með grimmdina. Tennurnar hjá Oplev voru allavega flugbeittar seinast, hérna nær hann varla einu biti.

Myndin er að megnu til mjög dæmigerð en samt er mjög spes hvernig henni tekst líka að fara á staði sem maður býst ekki almennilega við, bæði er þetta meint á mjög góðan hátt og einkennilegan (og þá ‘einkennilegan’ á slæman hátt. Eruð þið memm?). Hér er nefnilega eins og einhver hafi haldið á dökku, neo-noir krimmadrama í annarri hendi og týpísku, flötu Hollywood-hefndargubbi í hinni – og ákveðið síðan að klappa þessu tvennu saman. Augljóslega getur það orðið örlítið subbulegt, og óánægjulegt. Það eru tvö ágætis hasaratriði í fyrri hlutanum en þegar cirka korter er eftir af myndinni er eins og réttu leikararnir hafi óvart lent á setti á vitlausri mynd. Samkvæmt tímaröðinni breytist glæpaspennumynd fyrst í drama, glæpadramað svo aftur í spennumynd, en síðan á lokasnúningnum verður allt í einu úr þessu… hasarmynd! Ekki spennumynd, HASARmynd. Með heimsku, sturluðu áhættuatriði og öllu. Ég sat með galopin augu eins og einhver væri að grilla í mér.

Colin Farrell er frábær þegar hann fær að leika. Skiljanlega fær hann hér bæði að leika og vera á sjálfstýringu með sígilda augnsvipinn sinn. Oplev heldur samt þétt utan um réttu senurnar og koma rólegu kaflarnir yfirleitt best út, nema þegar þeir eru ekkert sérstaklega vel skrifaðir. Skynsamlega leyfir hann samt leikurunum sínum oft að tala saman út heilu atriðin án þess að búa til tilfinningar með tónlistinni. Þögnin nægir og hún betrumbætir myndina. Hún á að snúast öll um persónurnar. Fókusinn á sögunni er ekki nægur en nógu ásættanlegur til þess að efninu sé ekki óviðbjargandi. Að auki hefur Noomi Rapace varla tekið sig betur út í enskumælandi kvikmynd áður. Staðallinn er alls ekki hár en þessi leikkona er samt með þeim kjarkaðri sem finnast þarna úti. Voða fáar eru svona sannfærandi í að vera alvarlegar með svona sæt augu og samt grenja ofboðslega mikið. Það er hún. Hún er dásemd.

Alveg er hægt að gleyma því að segja eitthvað almennilegt um aukaleikaranna, reyndar að utanskildum Dominic Cooper, sem er alltaf traustur. Terrence Howard, aftur á móti, er vannýttur út í eitt í mikilvægu en illa skrifuðu aukahlutverki. F. Murray Abraham og Armand Assante (af öllum mönnum) eiga líka miklu betra skilið, þrátt fyrir að vera vanir menn þegar kemur að pappagerðum karakterum. Ef eitthvað, þá er þetta skref upp fyrir þá.

Það er erfitt fyrir hvaða leikstjóra og handritshöfund sem er að útbúa mynd sem er tiltölulega hæg í keyrslu en springur síðan út á gefnum tímum þegar „flashy“ skothríð tekur við sem menn eins og John Moore myndu dást að. Þetta passar bara ekki saman. Þegar kemur að yfirborðskenndum hasar er Oplev samt ekki sama fíflið og herra Moore (aldrei er víst slæmt tækifæri til þess að moka meiri skít í þann mann) en óneitanlega eru sum svið þar sem hefði mátt vita betur. Dead Man Down er hin fínasta mynd og örugglega prýðileg á vídeókvöldi ef ekki er búist við of miklu, en það er eflaust frústrerandi þegar mynd sem þessi lendir svona akkúrat á milli markhópa og finnur sér þ.a.l. engan fastan. Kvikmyndaáhugamenn og noir-fíklar munu meta hana í skömmtum (eða minna) og þeir sem ætla sér að sjá góða spennumynd fá ekki alveg það sem þeir vildu fyrir allan aurinn.fin

Besta senan:
Kúgunin hefst. Gott lítið twist, án þess að það sé beint hægt að kalla þetta twist.

Sammála/ósammála?