Anna Karenina

Þetta kallast að hugsa aldeilis út fyrir rammann! Þegar um er að ræða svona þekkt skáldverk eins og Önnu Kareninu skiptir það talsverðu máli að opna aðeins hugann í listrænni sköpun.

Sagan hefur margoft verið sett upp á á sviði og skjá (að vísu hafði ég eingöngu séð útgáfurnar með Jacqueline Bisset og Sean Bean) og skiljanlegt því þetta er ein af þessum sögum sem reglulega þarf að kvikmynda fyrir hverja kynslóð, en þegar myndast svona stór pyttur af mismunandi aðlögunum er kominn tími á að gera eitthvað aðeins öðruvísi. Leikstjórinn Joe Wright hefur greinilega fundið absúrd, artí og skemmtilega leið til að segja þessa sögu með alveg glænýjum hætti. Myndin gengur alls ekki alveg upp en ef kalla skal þetta einhvers konar feilspor er þetta merkilega aðdáunarverð tilraun samt sem áður.

Aðalumræðan er auðvitað svokallaða leikhúsnálgunin á efninu, og hún er er annaðhvort ferlega djörf eða framleiðendurnir tímdu einfaldlega ekki að setja meiri peninga í myndina. Ég veðja að sjálfsögðu á hið fyrra vegna þess að Wright er einn af þessum leikstjórum sem endalaust leynir á sér. Hann er mikið í því að segja einfaldar ef ekki klassískar sögur en að stilla þeim upp með venjubundnum og óeinkennilegum hætti er hvergi í spilunum. Hann er með gullfallegt nútímalegt auga og tryggir það að myndirnar hans séu sjónrænt séð alltaf athyglisverðar, jafnvel þegar efnistökin eru ekki að grípa mann. Búningar og sviðshönnun skipta í þessari lýsingu mjög miklu máli en þetta tvennt er meira kærkominn bónus en annað. Það er meira hvernig leikstjórinn skipuleggur skotin sín sem er algjörlega það sem gefur gömlu Tolstoy-sögunni mjög einstakan svip sem aðskilur hana strax frá þeim sjónvarps- og bíómyndum sem hafa komið út hér áður.

Wright finnur sinn innri Baz Luhrmann og kemur oft með einkenni sem minna furðulega mikið á Moulin Rouge (…nema bara án orkudrykkjanna, laganna og tölvublætisins), en það er alls ekki endilega vondur hlutur. Þetta er frekar mögnuð blanda af vissum bíótöfrum og leikhúsfíling í bókstaflegri merkingu (köllum þetta „bíóleikrit“). Staðsetningar eru rammaðar inn á mjög afmörkuð svæði, skiptingar á milli sena eru stundum dásamlega spes (leikmunirnir eru færðir á staðnum og allt!), aukaleikarar „frystast“ oft og útitökur eru MJÖG sparlega notaðar. Þetta gerist mest allt innanhúss, jafnvel þegar senur gerast úti (meika ég eitthvað sense??). Eina sem ég get í rauninni sagt er að sjón er sögu ríkari, fyrir utan það að myndin er bara alls ekkert sérstök.

Það tekur smátíma að fatta hvernig stíllinn og uppsetningin á honum virkar – eða reglurnar, öllu heldur – og síaðist ég sjálfur mjög seint inn í hann. Stílíseringin getur orðið oggulítið artí á tilgerðarlegan hátt, dragandi mikla athygli að sér, stundum kjánaleg en allan tímann áhugaverð, fyrir utan þann galla að myndin verður tilfinningalega lömuð út af þessu. Leikararnir eru allir á réttri stillingu og miðað við öfgakenndu framsetningu sögunnar er bókað mál að leikstíllinn sé örlítið meira krefjandi.

Það fer ekki á milli mála t.d. hversu vel Keira Knightley stendur sig. Þetta er líka þriðja myndin hennar með leikstjóranum (og mér sýnist hún líka ekki enn hafa sagt upp áskrift sinni að períóduhandritum). Kemistría hennar við Aaron Taylor-Johnson er fín (en hann verður reyndar ögn slakari eftir því sem sagan þyngist) og Jude Law kemur frábærlega út sem fjarlægur en umhyggjusamur eiginmaður Önnu. Yfirleitt er sá karakter gerður að „vonda karlinum“ í sögunni en í þessari útgáfu er hann teiknaður sem viljandi flatur en pínu sympatískur einstaklingur (á meðan titilfígúran er meira fráhrindandi en manni grunar fyrst). Domnhal Gleeson og Alicia Vikander eru líka ákaflega góð og einlæg saman en gríðarstóra hlaðborð þeirra leikara og persóna sem eftir standa nýta tímann sinn misvel. Var t.d. ekki hægt að gera eitthvað meira við Emily Watson? Eða Oliviu Williams? Matthew Macfadyen mætti líka hafa gert meira enda aldrei hægt að segja neitt slæmt um þann mann.

Wright nær að kreista fullt af góðum, rólegum atriðum úr leikurum sínum inn á milli yfirgnæfandi skrautsins en tekst samt einhvern veginn að sjúga út allan dramatískan kraft úr sögunni og það gerir það auðvelt að detta alveg út úr henni, en sem betur er hægt að dást að umgjörðinni nógu mikið þegar það gerist. Ég sætti mig við það mjög snemma að myndin væri ekki beinlínis grípandi, en það að hún hafi ekki orðið leiðinleg eða langdregin er ákveðinn kostur líka. Kvikmyndatakan og tónlistin er sérefni í mikinn fögnuð og gaman er að sjá hvað leikararnir eru allir djúpt sokknir í rullurnar sínar. Greinilega vantar ekki metnaðinn og áhugann en stundum getur verið fullmikið af kremi ofan á einni köku.

fin

Besta senan:
Leikurinn að orðum. Einfalt og mannlegt.

Sammála/ósammála?