Jack the Giant Slayer

Það er hressandi að einhver hafi ákveðið að klæða upp söguna um Jóa og baunagrasið aðeins öðruvísi. Myndin kryddar örlítið upp á á týpíska/sígilda ævintýraformúlu og kemur fram við fantasíugoðsagnir eins og sögulegar staðreyndir. Þetta er sniðug hugmynd en sérstaklega spes miðað við hversu hefðbundin myndin er. Jack the Giant Slayer er trúlega eins dæmigerð og nútímaævintýramyndir gerast; alltof straightforward, alltof flöt og með takmarkaðan áhuga á nýjungum… og lógík, en það er auðvelt að afsaka það, annað en hitt. Hún reiðir sig aðallega á afþreyingargildið, sem er jákvætt, en fattar greinilega ekki hversu oft er hrasað á miðlungshandriti. Ég á enn bágt með að trúa því að Bryan Singer hafi í alvörunni gert þessa mynd.

Singer hefur átt bæði svalan og gallaðan feril en yfirleitt má reiða á það að hann prufi eitthvað bitastætt og leggi eitthvað smávegis af sínum eigin persónuleika í myndirnar. Kannski gerir hann það hér án þess að ég hafi tekið eftir því, en Jack the Giant Slayer virðist alls ekki vera gerð af sama manni og ég taldi mig þekkja, og virða. Fyrir utan klisjurnar kann ég að meta þessa einföldu, „gamaldags“ meðhöndlun á sögunni og ég tel að það sjáist langar leiðir að Singer langaði bara til að gera dýrindis sjónarspil, og hafa það gaman.


Hönnunin er flott, myndin rennur á góðum hraða, valhoppar rösklega á milli hasars án þess að drolla og hleður m.a.s. í hitaða árás í lokakaflanum. Kannski er reyndar hæpið að kalla þetta árás. Þetta minnir á ódýrari, geldari gerðina af Minas Tirith-umsátrinu úr Return of the King, bara með miklu færri kaloríum. Senurnar eru ágætlega skipulagðar og orkuríkar… þangað til þetta breytist allt í eitt stórt reipitog! Úrlausnin er frekar veik og mátti klárlega stækka kaosið. Hasarinn í lokin er samt algjört aukaatriði. Verra er hversu mikið mér var sama um allt sem var á seyði í þessari mynd.

Singer fær prik fyrir valið á leikurunum. Nicholas Hoult er líflegur sem titlaði, lúðalegi, viðkunnanlegi risabaninn, Eleanor Tomlinson felur fínan persónuleika í sér og fáir smita mann eins mikið með brossvipum og Ewan McGregor. Hann virðist alltaf vera ómótstæðilegur þegar hann er hress og áhugasamur. Ian McShane gerir ekki mikið en hann þarf hvort sem er ekki að gera neitt annað en að segja nokkrar setningar með þessari miklu rödd til þess að eiga rétt á skjátímanum. Síðan er Stanley Tucci mátulega ýktur og illmannlegur og gamli mótleikari McGregors úr Trainspotting, hann Ewen Bremner, er einnig fullkomlega kýlanlegur og þreytandi sem hjálparhella hans (ég myndi bæta við pósitífri lýsingu um Eddie Marsan, nema hann hvarf bara í bakgrunninn). En í hnotskurn eru leikararnir allir í réttum gír en persónurnar vanskrifaðar. Betri díalógur hefði að vísu getað hjálpað þeim.

Út þessa setu var ég einhvers staðar á milli þess að missa allan áhuga og skemmta mér prýðilega, sem fæddur ævintýraunnandi. Andinn er réttur en handritið svíkur persónur sínar svolítið, en vitaskuld spilast líka inn í vonbrigðin að myndin stólar öll heilmikið á tölvugrafík sem er í besta falli sub-par. Eina stundina horfi ég á eðlilega útlítandi ævintýri, síðan tekur við ruddalega flott teiknimynd. Þetta á samt ekki að vera teiknimynd. Brellurnar eru vel unnar á sinn hátt en þegar tölvuteiknaðar fígúrur mæta alvöru leikurum dettur maður hálfpartinn úr stuðinu. Gervilegar brellur eru eitt, þetta er úrelt! Ég held jafnvel að risarnir og tröllin úr Harry Potter myndunum hafi verið raunverulegri heldur en risarnir hér, sem mér finnst eitthvað segja. Singer fer – skrítið en satt – að nálgast miðaldurinn, þannig að mögulega er sjónin að dvína ef brellumennirnir voru ekki of  mikið að flýta sér. Það er óeðlilegt að ca. 200 milljón dollara mynd líti svona „illa“ út. Tapaði Singer einhverju risaveðmáli í eftirvinnslunni?


Það er mín kenning að Singer hafi (vonandi tímabundið?) misst kjarkinn sem kvikmyndagerðarmaður eftir að margir settu út á allar hans ástkæru ákvarðanir varðandi Superman Returns, því eftir það hefur hann misst bitið sitt talsvert (ég vona innilega að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af Days of Future Past!). Jack the Giant Slayer er ásættanleg mynd en álíka auðgleymd og ópússuð og flestir risarnir í henni. Hún tapar líka mikið á því að vera svona unglingavæn en það er að hluta til vegna þess að minnisstæða ofbeldið í hinni óminnisstæðu Hansel & Gretel: Witch Hunters skildi mikið eftir sig. Það hefði alveg mátt vera meiri grimmd við baunagrasið í stað þess að klippa stanslaust í kringum ofbeldið en frekar hefði ég sætt mig við safaríkara handrit og brellur sem hefðu betur átt heima í læv-aksjón umhverfi. Held samt að yngri áhorfendur gætu fílað þetta í botn.

Líklega er Hans og Gréta skárra valið ef einhver er í leit að mynd sem endurlífgar gamalt ævintýri og átti að koma út á síðasta ári (en var færð því enginn hafði trú á henni). Hún í það minnsta dressaði draslið sitt upp með ýmsu góðu kjöti og hefur minna til að skammast sín fyrir. Þar að auki er hún hálftíma styttri.

fimm
Besta senan:

Baunagrasið vex. Fyrsta skiptið þ.e.a.s.

Sammála/ósammála?