The Croods

Voðalega eru mennirnir hjá Dreamworks orðnir alltof sérhæfðir í útlitslega óaðfinnanlegum teiknimyndum með sál sem eru samt eitthvað svo innantómar og einnota á þeim stöðum sem skipta mestu máli. The Croods grípur þessa lýsingu með ánægju. Sjónarspilið vantar ekki, hjartað er á sínum stað, húmorinn fínn, celeba-raddirnar eru flestar með orkuna í takt við hasarinn en samt verður þessi teiknimynd – eins og svo margar aðrar frá stúdíóinu – nánast bensínlaus þegar fyrri helmingurinn er búinn (til er listi með undantekningum, en hann er ekki langur). Svona til samanburðar þá á Pixar sjaldnar við þetta vandamál að stríða en þeirra sögur fara heldur ekki eins oft eftir auðútreiknanlegum formúlum.

Einu sinni, fyrir einhverjum árum síðan, stóð til að gera þessa mynd með Aardman-teyminu þegar hún bar hið kostulega heiti Crood Awakening og var þá John Cleese einn af hugmyndasmiðunum. Plönin breyttust augljóslega og ef satt skal segja hefði ég verið miklu meira til í að sjá myndina eins og Cleese vildi fyrst hafa hana. Kannski hefði ég þá hlegið oftar.

Burtséð frá því að rétt klóra sér út úr meðalmennskunni er The Croods engu að síður byggð á skemmtilegri hugmynd sem á sér stað í skemmtilegum heimi, á skemmtilegum tíma og besta leiðin til að lýsa myndinni er að hún er bara þokkalega skemmtileg. Orðavalið er verðskuldað en varla meira er hægt að segja um myndina. Hún er einföld/þunn og reynir að teygja sér í fullorðinsleg skilaboð. Hún kemur boðskapnum þægilega til skila, þrátt fyrir í rauninni að hún móti aldrei sjarmann sinn fullkomlega. Sagan „kennir“ að hræðast ekki nýjungar og lifa lífinu til fulls, en undirliggjandi þráðurinn kemur aðallega ofverndandi föður við og hvernig honum tekst að sleppa takinu og vera opnari við dóttur sína. Þetta er í rauninni sami söguþráður og var nýlega tekinn fyrir í Hotel Transylvania, nema hér er farið betur að honum.

Það helsta sem handritið nær ekki alveg tökum á er hvernig skipt er um aðalpersónu í sitthvorum helmingnum. Í þeim fyrri (sem líklegastur er til að ná best til barnanna) er þetta saga dótturinnar en síðan fjarar hún út í bakgrunninn og þá er pabbinn kominn í staðinn (þessum hluta þykir mér líklegri að foreldrar kunni að meta). Þetta er snjöll leið til að fá áhorfendur af sitthvorri kynslóðinni til að tengjast sitthvorum helmingi myndarinnar á ólíkan máta. Ef heildin væri áhrifaríkari og betur skrifuð væri þetta sennilega einn sterkasti kosturinn, en handritið ákveður að þróa aðeins nokkrar persónur í stað þess að grípa stærri pakkann. Þessar helstu breytast í þrívíðar persónur en aðrar verða áfram einhliða eða brandarafígúrur, eins og amman, mamman og bróðirinn. Enginn hroðalegur galli svosem þegar um krakkamynd er að ræða en hann lokar á það að fínt verði nokkurn tímann gott.

Í talsetningardeildinni (á ensku, vitaskuld) eru Nic Cage, Emma Stone, Clarke Duke og Cloris Leachman spræk allan tímann. Það eru aðallega Catherine Keener og Ryan Reynolds sem falla fyrr í gleymsku, eins og þau reyna nú að vera hress. Það er einstaklega gaman að sjá Stone talsetja helmassaða hellisbúapíu og eðlilega fær Cage nokkur atriði þar sem honum er leyft að fríka aðeins út og vera (meira) furðulegur (… en hann er). Auðvelt er að ímynda sér manninn í hljóðverinu, hugsandi: „Ókei, nú er ég hellisbúi!“ Upptökurnar þaðan hafa örugglega verið skrautlegri heldur en öll þessi mynd.

Grunnurinn á þessu er nokkuð ferskur en það er skringilega áberandi að Dreamworks er að koma með sitt eigið svar við Ice Age-seríunni, sem er ekki slæmt en peningaþefurinn leynir sér ekki. Dýnamíska útlitið heldur augunum ánægðum en Croods-fjölskyldan trónir ekki eins lengi í minninu eftirá og maður hefði viljað. Kannski næst.

fin

Besta senan:
Fjölskyldan uppgötvar eld.

Annars vil ég endilega mæla með myndinni í 2D. Þrívíddin sem slík er flott en hún tæmir alveg birtuna og litadýrðina sem hin útgáfan veitir miklu betur.

Ein athugasemd við “The Croods

  1. Ég á ennþá eftir að sjá þessa….mér gengur eitthvað illa að fá fólk til þess að fara með mér á teiknimynd hehe

Sammála/ósammála?