Ófeigur gengur aftur

Ófeigur gengur aftur var gerð með eingöngu það markmið að fá læstan markhóp til að grípa í buddurnar. Það er fyrir mér hneykslandi hversu margir „Laddáendur“ eru til. Ég bjóst aldrei við því á sínum tíma að „klassíkin“ Jóhannes myndi taka inn meira en þrjátíu þúsund manns í bíóaðsókn. Standardinn var á botninum en peningamerkin mörg og þess vegna er Ófeigur til. Áreynslulaus framleiðsla sem samt reynir alltof mikið á sig þegar að gríninu kemur, og eiginlega öllu. Til hamingju Ísland. Nú eigum við þetta til að vera stolt af.

Maður ætti einhvern veginn að taka því sem sjálfsögðum hlut að mynd sem er gerð af svona mörgu reyndu liði ætti að vera vel gerð. Hún er það ekki. Hún er ekki einu sinni sniðug og húmorinn er einhvern veginn svo gamall að mér finnst að við ættum að senda myndina aftur í tímann þegar Laddi var eini almennilega fjölbreytti grínistinn á landinu, hvernig sem farið er að því.

Það er greinilegt að þessi mynd er ætluð mjög mörgum, en samt er ég ekki svo viss um að hún viti sjálf hversu áttavillt hún er. Annaðhvort er þetta fjölskylduvæn draugamynd sem hefur undarlega mikinn áhuga á greddu og elskar að hlæja að alkahólistum (verst er að Þetta reddast og XL voru nýbúnar að ná því markmiði á undan á þessu ári) eða þetta er mjög barnaleg fullorðinsmynd. Svona blanda af vondu Spaugstofugríni og Sveppamyndunum.

Lógískt séð ætti Ófeigur að vera of mikil óreiða til að hitta í mark hjá stórum fjölda en þeir sem dýrka Laddann gera oft ekki háar kröfur ef vinsældir Jóhannesar eru marktækar. Annars ætti þetta virka vel á alla þá sem elskuðu Í takt við tímann (eða eins og undirritaður kallar hana: „Gamlir menn að reyna að vera fyndnir“). Báðar myndir eru gerðar af sama leikstjóranum, honum Ágústi Guðmundssyni, sem ávallt gerir tilraunir til þess að vera með hjartað á réttum stað og leika sér með dýrar græjur og hressu fólki. Ég efa ekki að það sé örugglega mikið stuð á settinu hjá þessum leikstjóra en hann veit ekkert hvað snýr upp eða niður þegar kemur að framvindu, svo mætti halda að hallærislegi húmorinn sé sérstaklega stílaður til þeirra sem stíga ekki oft út fyrir dyr.

Ég hló miklu meira þessari mynd heldur en með henni. Fyndnustu senurnar eru þessar sem eiga alls ekkert að vera fyndnar og pínlegastar eru þær sem taka sig alvarlega, á einn hátt eða annan. Nógu slæm væri þessi mynd ef eini tilgangur hennar væri að reyna að vera fyndin en það er aðeins byrjunin að þolrauninni. Þegar stærstu „vandamálin“ í sögunni hefjast er ótakmarkað hversu vitlaust og vandræðalegt eitt Íslenskt bíó getur orðið. Í fína stund er eins og myndin sé að byggja eitthvað upp, en í ljós kemur að hún tefur bara með stefnulausri hringekju, okkur til skemmtunar. Sagan lætur eins og hún ætli sér að hafa eitthvað merkilegt að segja eða í það minnsta gera eitthvað af viti við hverja (auka)persónu, en það myndi benda til þess að vönduð vinnubrögð og smámunasöm hugsun hafi farið í handritið. Sénsinn.

Það tók mig smátíma að átta mig á því hversu léleg myndin er. Fyrst hélt ég að Ágúst væri viljandi að sækjast í einhvern ýktan leikstíl með smá svona retró-kryddi (en samkvæmt merkum manni er orðið „retró“ hálfgert samheiti yfir „gamaldags en kúl,“ – og ekki er þetta nú kúl). Komst ég svo fljótlega að því að handritið er bara slæmt; kjánalega einfalt, samt óþarflega flækt, illa unnið og að auki eins og það sé skrifað af manneskju með mögulega of góðan og gamaldags orðaforða sem spreðast út í allar áttir. Þess vegna verða samræðurnar alltof tilgerðarlegar og virka stundum alltof æfðar. Alvarlegu atriðin eru samt af allt öðrum heimi en þessum. Ég er nokkuð viss um að Sveppamyndirnar höfðu meira að segja betra drama en þessi. Fullorðið fólk getur samt afsakað þær vegna þess að þær eru gerðar fyrir börn, ekki Ófeigur. Reynt er að apa eftir drunga og sjarma en handritið nær aldrei föstum tökum á tónaskiptum og leikstjórinn hefur eitthvað þ.a.l. mikið klikkað á því að vanda sig, eða nenna þessu.

Myndin er leiðinlega tekin upp og hefur skringilega kalda og RÚV-lega áferð miðað við hversu léttir og sprækir leikararnir eru, og útlitið kemur verr út þegar svona þurrt andrúmsloft yfirtekur svona flippaðan draugafarsa. Ég hef séð vonda Íslenska gamanþætti sem áttu betri séns á hvíta tjaldinu heldur en Ófeigur. Kannski hefði þessi mynd átt að fara beint í sjónvarpið, því skortur á asnalegum dósahlátri gefur þessu mjög vandræðalegan fíling. Handritið byggist allt á þvinguðum aðstæðuhúmor og áhorfandinn getur gleymt því að líta á persónurnar sem eitthvað sem líkist alvöru fólki í hegðun. Mig grunar að aðstæðurnar voru fyrst skrifaðar og svo raðast allt í kringum það. Mér dettur ekki aðra útskýringu í hug vegna þess að persónurnar láta oft svo bjánalega að manni verður samstundis meira sama um allt vesenið sem kemur upp á. Ég þoli ekki þegar samansafn uppákoma klessist saman og þykist vera söguþráður.

Draugurinn Ófeigur er sjálfur orðinn að mínum nýja persónulega Satan. Óþolandi gamalmenni í of háum gír sem þráir áfengi og kvensur eins og vonlaust grey. Manni á að finnast hann hlægilegur en aldrei tengdi ég nein viðbrögð við gleði. Laddi er í sínum Laddalegasta gír og það veltur á einstaklingnum hversu gott eða slæmt það getur þýtt. Það að segja að Laddi leiki „Ladda“ hætti að mínu mati að vera hrós fyrir mörgum árum síðan. Það besta sem ég hef séð frá honum síðastliðin ár var í Roklandi, því þar kom hann með alvöru nýtt andlit, en það er annað mál. Hvað Ófeig varðar hef ég séð hann betri en það sama gildir um alla aðra leikara í myndinni. Varla er hægt að orða það meira pent.

Ef það er einhver sem á skilið eitthvað í líkingu við hrós þá er það án efa Gísli Örn Garðarsson, sem bjargar myndinni hetjulega frá glötun. Hann sleppur ekki undan stirðum setningum en hann er sá eini sem heldur andliti þegar efniviðurinn fer í vaskinn. Sem betur fer er hann í stærsta hlutverkinu, með viðkunnanlegustu nærveruna, og andlitið. Sömuleiðis er hann sá eini sem vakti upp úr mér einhvern óvæntan hlátur. Elva Ósk tekur hinn endann á listanum yfir þeim sem koma vel út úr þessari mynd. Ég er viss um að hún meinar vel, en jesús… Það er ekki skrítið að stiklurnar slepptu því að sýna hana. „Persóna“ Elvu er gott dæmi um fígúru sem lítur út í fyrstu fyrir að hafa merkilegri tilgang en hún gerir.

Út myndina sat ég frosinn með sama svip allan tímann, mitt á milli þess að gretta mig og gapa í einu lagi. Það er of mikið (af engu) í gangi í einu til að hægt sé að kalla myndina leiðinlega en löt, fljótfærnisleg, þreytandi, óheillandi og klúðursleg er hún. Síðan er nauðsynlegt að minnast á næstsíðasta skotið í myndinni fyrir kreditlistann og þessi eini, vægast sagt truflandi rammi á eftir að ásækja drauma mína framvegis. Þetta lætur þroskahefta skýjaskotið úr Van Helsing lítur út eins og bláendirinn á Inception í samanburði. Ojbara.

Það eina sem getur komið í veg fyrir meiri skömm er að það hvarfli aldrei að neinum að senda þessa mynd út sem framlag okkar til Óskarsins, eins og var gert með Í takt við tímann. Úfff…

thrirBesta senan:
Þegar Gísli og Ilmur tala um tíðablóð.

Sammála/ósammála?