G.I. Joe: The Rise of Cobra

Ef nægilegt skemmtanagildi er til staðar þá finnst mér yfirleitt furðulega gaman að horfa á bíómyndir sem matreiða hasar, húmor og vitleysu í trylltum skammti. Flest öll lykilhráefnin þurfa að ganga upp, því ef svo er, þá er maður tilbúinn til að fyrirgefa vondum söguþræði, einhliða persónusköpun svo ekki sé minnst á týnda lógík. G.I. Joe: The Rise of Cobra hefði getað orðið aulalega skemmtileg hefði Stephen Sommers m.a. rennt aðeins betur yfir handritið áður en hann kvikmyndaði það og farið öðruvísi að tóninum. En jafnvel þá hefði myndin samt verið útötuð í ókostum. Í stað þess að vera ánægjuleg afþreying er hún dæmigerð brellusteypa sem hefur þá kvikindislegu bölvun að vera sprenghlægileg, þá óviljandi, margoft.

Handritið er alls ekki eini gallinn, en samt mest áberandi gallinn. Það angar af þreyttum klisjum ásamt framvindu sem við öll þekkjum eins og handarbakið á okkur. Söguþráðurinn er fyrirsjáanlegur og meira að segja þegar myndin ætlast til að koma áhorfandanum á óvart, þá er maður þegar fimm skrefum á undan henni. Til að bæta gráu ofan á svart er öll aburðarásin svo fjandi óspennandi og persónurnar nánast allar staðlaðar og leiðinlegar (karakterinn Snake Eyes stóð þar sérstaklega upp úr, enda jafnmikill feill og búningurinn hans – til hvers að hafa varir á grímunni?!?). Frásögnin drullar samt hvað mest upp á bak með alveg hreint glötuðum (og hallærislega staðsettum) flashback-senum sem eiga að gefa myndinni meiri… (á ég að þora að segja það?) dýpt, þegar þetta eru meira bara sóðaleg handritsskrif. Myndin tekur sig og persónur sínar alltof alvarlega miðað við hversu skrípaleg hún er. Betur hefði hún bara átt að láta allt gervikjötið vera og einblína á það að skemmta sér.

Öllum er samt sama um handritið í G.I. Joe-mynd, þess vegna er það svo pirrandi hversu misheppnaður tónninn er hjá leikstjóranum. Hann setur allt í of háan gír, þannig að þetta verður minna eins og skemmtileg þvæla og meira eins og eitthvað sem krakkar ímynda sér þegar þeir leika sér með hasardúkkur, og handritsvinnan er einmitt í takt við þannig þroskastig. Eins og það sé ekki nógu slæmt líka er brelluvinnan hreint út sagt hlægileg á köflum. Atriðin sem eiga að vera stærst og flottust koma bara út eins og blanda af teiknimynd (sem ég sogaðist aldrei inn í) og tölvuleik (sem ég fékk aldrei að spila). Kannski hefði þessi efniviður komið betur út ef þetta væri eingöngu teiknimynd eða leikur (tek það fram að ég spilaði aldrei leikinn sem kom út sama ár, en þar sem manni er leyft þar að stýra fígúrunum efa ég ekki að hann gæti verið betri en myndin). Ég sé heldur ekki margt sameiginlegt við gömlu ’80s þættina, sem er kröftugasta sparkið í klofið fyrir þá sem vilja halda utan um nostalgíuna.

Leikurinn er samt því miður ekki mikið skárri en innihaldið. Ég missti þó ekkert álit á leikurunum enda vantar öllum einhvern tímann pening og maður finnur auðveldlega fyrir því að þeir höfðu sorglega lítið til þess að vinna úr. Reyndar mætti saka hvern og einn leikara um annaðhvort leti eða ofleik, en þar fær Sommers á sig alla skömmina.

Ég man þegar þessi leikstjóri gerði meira við myndirnar sínar en að punga út brelluskotum sem auglýsa sig og vefjast utan um grautþunna og oftast leiðinlega sögu þar sem hlupið er frá punkti A til B. Það var oftast meira til staðar, svosem gott samspil leikara eða fílingur sem hélt manni í réttum gír. Allavega væri ég til í að sjá meira sem er efnislega í líkingu við The Jungle Book eða jafnvel hina ofvirku – og alltof vanmetnu – skrímslamynd, Deep Rising. Frá og með The Mummy Returns breyttist markmiðið í að troða eins mörgum brelluskotum og væri hægt í tveggja tíma mynd, sem er slæmt því brellurnar í myndum hans hafa aldrei verið neitt sérlega góðar. Skotin eru yfirleitt mjög dýnamísk en eiga lítið erindi í læv-aksjón mynd.

Af þeim mörgu hefðbundnu hasarsenum sem myndin inniheldur var reyndar ein sem mér fannst nokkuð skemmtileg: eltingarleikurinn í París. Þar poppaði upp vottur af adrenalíni, þótt kjánahrollurinn gerði það líka. Mér finnst líka reyndar drepfyndið hvernig sumir bílarnir í myndinni springa í loft upp við minnsta árekstur. Klassískt.

G.I. Joe: The Rise of Cobra er við það að vera móðgun gagnvart sínum eigin geira. Hún er heiladauð afþreyingarmynd án afþreyingargildisins, nema nokkrar stuttar períódur teljast með. Ég hefði gjarnan viljað svipaða upplifun úr þessari mynd og Transformers-myndunum. Ójá, fólk getur skitið yfir þær myndir að vild, en þær að minnsta kosti böðuðu sig í meira þroskaheftu hugmyndaflugi heldur en þessi nokkurn tímann gerir. Í versta falli dáist maður að brellusýningunni þar. Hérna líður manni eins og maður hafi séð þetta allt áður. Hugmyndirnar vantaði ekki svosem, en það vantaði almennilegt fagfólk til að vinna betur úr þeim.

fjarki
Einkunnin fer í það skraut sem leikararnir voru (sérstaklega Sienna Miller og Rachel Nichols – mmmmm), dásamlega lúðalegt illmenni (sem talar eins og Justin Long úr Zack & Miri) og eitt gott hasaratriði.

Besta senan:
París.

Uppáhalds:
Þegar Cobra rís. Jeminn hvað þetta atriði er mikið rusl.

Sammála/ósammála?