G.I. Joe: Retaliation

Það sem er bilað er best að laga. Það var ekki beinlínis grenjandi eftirspurn eftir annarri G.I. Joe-mynd. Eðlilega virtist flestum í heiminum vera nokk sama um The Rise of Cobra sem Stephen Sommers gerði. Sumir skemmtu sér, aðrir ypptu öxlum og geispuðu, ég þar á meðal. Það er annað mál með Retaliation og svona miklar framfarir eru að mínu mati sjaldséðar á meðal rándýrra framhaldsmynda. Ósanngjarnt er að segja að þessi sé endilega „betri“ myndin af tvennunni en hún er allavega helmingi skemmtilegri sem pjúra afþreying.

Ég giska að Sommers sé eitthvað vonsvikinn vegna þess að hér er búið að gefa skít í teinana sem hann lagði. Á prakkaralegan hátt er ýtt á reboot-hnappinn á meðan ræmunni er stillt upp eins og beinu framhaldi. Af óútskýranlegum ástæðum er búið að umturna heilmiklu. Ofurbúningarnir eru farnir, megnið af (pirrandi) aukapersónum er farið, Dennis Quaid líka (fúlt) og Dwayne Johnson er sérstaklega fenginn inn til að sýna Channing Tatum (sem var front-maðurinn í fyrstu) hversu mikið písl hann er í samanburði við sig, af engri spes ástæðu en bara til að taka yfir.

Það sakar ekki að kalla á „Klettinn“ í hvert skipti sem franchise er í vafa og nú hefur Johnson þrisvar sinnum verið boðinn inn til að sýna byssurnar í framhaldsmynd sem fáir voru spenntir fyrir (bjartsýnin blómstraði heldur ekki þegar bíóútgáfa Retaliation færðist um 9 mánuði, en af skiljanlegri panikk-ástæðu). Tatum-aðdáendur eru kannski ekkert alltof ánægðir og án þess að mótmæla nærveru Klettarins þykir mér frekar ódýrt og ósanngjarnt að rífa alla framhaldsmyndina frá Tatum (hans karakter á líka miklu persónulegri tengsl við skúrkinn, ef ég man rétt), en ef þetta er fórnin sem þurfti til þess að fá betur heppnaða og almennt skemmtilegri mynd, þá er mér alveg sama.

Retaliation er aulalega skrifuð, ólógísk og tiltölulega óeftirminnileg í heildina en hún veit nokkurn veginn hvað hún er að gera og er góð í því sem hún gerir. Allt sem misheppnaðist í seinustu lotu kemur betur út hér, þ.á.m. tónninn, dótahasarinn og tölvuvinnan, einnig mikilvægir karakterar eins og Snake Eyes og Cobra Commander. Það er allt annað að sjá þá núna. Illmennið fær sígildari grímuhönnun og Snake Eyes lítur ekki lengur út eins og svartur bróðir Silver Surfer. Þessar breytingar skipta miklu máli.

Nýja reboot-stefnan gæti lagst illa í þá sem elska fyrri myndina, eða öllu heldur hvernig er rekið miðfingrinum í boruna á hinni. En fyrir þá sem gera eðlilegri kröfur til poppkornsmynda er hún gott meðal við því sem fylgdi á undan. Sommers tók margar hugmyndir úr Joe og notaði þær til að kortleggja sína eigin heilaheftu leiknu tölvuleikja-teiknimynd, sem ruglaði saman töffaraskap og hallærisleika, rústaði ágætis hasarhugmyndum með hræðilegum brellum (þetta á við um ALLAR Sommers-myndir) og fór þreytandi mikið eftir beinum formúlum (aftur, eins og ALLAR Sommers-myndir). Retaliation er meira samsuða af týpískri, sveittri Hollywood-ræmu – segjum eins konar dietMichael Bay – og teiknimyndalegu hasarævintýri, sem kemur prýðilega út.

Ég veit ekki alveg hverjum datt það í hug að treysta nokkrum John M. Chu fyrir leikstjóradjobbinu, en áhættan á valinu skilaði sér ósköp vel. Þetta er, fyrir þá sem ekki vita, maðurinn á bakvið Step Up 2 & 3 og Bieber heimildarmyndina Never Say Never. Chu er flinkur með slagsmálin, eflaust því slík atriði myndast oft eins og vel æfður dans. Sprengjur og stönt koma einnig vel út en það er svakaleg Bay-lykt af skreytingunni, á mörkum þess að kallast stuldur, sem er mínus en engu að síður ávísun á ágætis útlítandi hasar. Chu er samt nógu skynsamur að klippa aldrei óþægilega hratt á milli skota sem hristast of mikið og tekst þ.a.l. að halda fínu flæði.

Skiljanlega er Chu frekar slakur með mannlegu móment myndarinnar, en sem betur fer eru þau ekki mörg og hann höndlar þau meira eins og hann sé skyldugur til þess í stað þess að mjólka of mikið gervidrama úr efninu. Myndin hefði samt alveg mátt skera niður úr poppkúltúr-vísunum. Þegar ég horfi á G.I. Joe-mynd vil ég helst slíta mig eins mikið frá raunheiminum og hægt er, og tengingar við Angry Birds, Call of Duty, Miley Cyrus og Jay-Z (svo eitthvað sé nefnt) voru ekki að hjálpa þar.

Mér sýnist leikararnir allir vita hvernig best er að vera en af öllum þykir mér Bruce Willis hafa minnst til að bæta við myndina í sínu uppstækkaða cameo-hlutverki. Alveg eins og t.d. í Expendables 2 er hann eingöngu á svæðinu til að skjóta upp kollinum – með byssu – svo það sé hægt að setja hann á plakatið. Burtséð frá því að fá þurrar línur og enn verri brandara virðist hann frekar áhugalaus, og það dregur meiri athygli á því hversu asnalega honum er troðið inn í myndina. Sjálfur hefði ég viljað haldið Quaid áfram. Hann sem fílaði sig svo vel seinast.


Hasarinn er einmitt það sem hann á að vera; yfirdrifinn og kjánalegur, gáfur eru týndar og er ekki skortur á vandræðalegum innskotum sem eiga að styrkja persónusköpunina en koma bara heimskulega út. Það er alveg í lagi. Þessi mynd veit hvað hún er og hvað hún er ekki. Væri ég í kringum 9-12 ára myndi ég missa munnvatn úr ánægju. Þessar 100 mínútur eru ákaflega fljótar að líða og skemmtanagildið nær tvímælalaust hámarki í grípandi atriði þar sem góðar og vondar ninjur sveifla sér í Himalaya-fjöllunum. Það toppaði fljótt hápunkt fyrstu myndarinnar í París, eða bara alla fyrstu myndina. G.I. Joe sem vörumerki hefur alltaf verið grunnur og krakkalegur hernaðaráróður, þannig að afþreyingin verður að vera metin sem skyndibiti frá Kananum. Því verður maður að teljast heppinn að fá eitthvað álíka „gott“ og þetta. Ég myndi alls ekki grenja það að fá annan skammt af þessu ef fílingurinn er sá sami.

thessiBesta senan:
Ninjur og fjallahopp.

Sammála/ósammála?