Spring Breakers

Það verður að segjast að markaðssetningin á Spring Breakers hafi verið hrein, satanísk snilld, en að hluta til vegna þátttöku tveggja Disney-pía í myndinni, einni stelpunni úr Pretty Little Liars ásamt hinum ávallt viðkunnanlega James Franco. Af sumum plakötunum að dæma var léttri bikiní-veislu lofað og titillinn hjálpaði til að skipa alls kyns gerðum af unglingagelgjum í bíósætin.

Það að myndin hafi komið í sterkum plús verður að segjast vera stórsigur, því allir sem hafa séð eða lesið sig eitthvað til um hana vita að þetta er alls ekki eitthvað fyrir hvern sem er. Þeir sem þekkja til leikstjórans og handritshöfundarins (sem er karlmaður með eitt kvenlegasta nafnið í bransanum) gera sér að vísu strax grein fyrir því fyrirfram að þetta gæti ómögulega orðið eitthvað „venjulegt.“ Þetta gæti nú varla verið meiri andstæða við dæmigerða bíómynd.

Þetta er abstrakt, grafalvarleg og vægðarlaus „skilaboðamynd“ sem annað hvort heldur athygli þinni eða triggerar mjög hættulegar reiðitilfinningar. Hún sýnir svokölluðu Spring Break-menninguna alveg filterslausa, sem þýðir að hún er ein versta martröð í heimi fyrir mjög marga foreldra. Myndin er samt ekki einu sinni klædd upp sem eðlileg mynd; hún flæðir ekki eins og „eðlileg“ mynd og spilast út eins og blindfull blanda af þungu unglingadrama, múdí glæpasögu, heimildarmynd og djammvídeói. Fyrir mig var ákveðin dáleiðsla í flæðinu en leikstjórinn nær hiklaust að koma manni á staðinn, og út þessar 90 mínútur er eins og maður sé sjálfur graður, klikkaður, hormónafullur og undir massífum áhrifum.

Lengi hafði ég áður sama og fyrirlitið þennan kvikmyndagerðarmann, þ.e. Harmony Korine. Hann má alltaf vera stoltur af Kids-handritinu sínu (og þar voru hlutirnir heldur ekki fegraðir hjá unglingum) en restin á ferilskránni hefur lítið náð til mín. Ég sat t.d. fjúríus eftir að ég sá Gummo, svo gerðist nákvæmlega það sama eftir Trash Humpers og akkúrat þegar ég var smeykur að brenna mig enn eitt skiptið kemur hann svakalega á óvart. Margur maðurinn á þó eftir að brenna sig á Spring Breakers, alveg eins og fullt af liði á eftir að lesa of djúpt í hana eins og þetta sé einhver snilld. En að mínu mati er hún bæði sorp og snilld (köllum hana bara „rusl-meistaraverk!„); frásögnin er svo tóm að það bergmálar bókstaflega í henni og stílnum hennar en samt er myndin troðin alls konar undirtónum, falinni dýpt á völdum stöðum og skemmdum sannleika. Leikstjórinn endurtekur sig aðeins of oft og er heldur langt frá því að vera listamaðurinn sem hann heldur, en hann heldur tempóinu faglega. Hann var heppinn í þetta sinn og ég vona að framfarirnar haldi áfram.

Myndin snýst aðallega í kringum fjórar stelpur (sem eru Selena Gomez, Vanessa Hudgens, Ashley Benson og Rachel Korine, eiginkona leikstjórans) og það tekur ágætis tíma að kynnast þeim, en prófílarnir eru viljandi flatir og gengur þetta meira út á það að afhjúpa hvern persónuleika hægt og rólega í gegnum ákvarðanir, gjörðir og sífellt magnandi aðstæður frekar en að móta heilsteypta karaktera fyrir söguna, enda er nánast engin saga. Þróanirnar sem sumar persónurnar taka eru gríðarlega áhugaverðar, og þótt endir myndarinnar virki máttlaus og ófullnægjandi þá er hann ótrúlega kaldur og passlegur. Þegar þetta kláraðist leið mér vægast sagt skringilega. Það tók mig tíma að prósessa myndina en ég vissi að mig langaði til að kíkja á hana aftur. Ég fékk aldrei þessa tilfinningu eftir Gummo eða Trash Humpers.

„Less is more“ á skrambi vel við um þessa mynd, þ.e.a.s. efnislega. Í þokkabót eru leikkonurnar trúverðugar allan tímann og aldrei úr takti við skuggalegu stemmningu myndarinnar. Áður fóru Hudgens og Gomez rosalega í mig, og þótt það breytist ekkert endilega eftir þessa mynd, þá tókst mér að gleyma því að ég væri að horfa á þær. Allir eru grafnir inn í verkið, augljóslega enginn meira heldur en Franco sem yfirborðskenndur rapparakrimmi. Þetta er allt annar Franco en ég hef áður séð og það er vanvirðing að segja að hann hafi eingöngu breytt sér; hann er öllu heldur andsettur einhverri týpu sem fáir vissu að hann hefði í sér. Djöfulsins snillingur. Ég held að ég muni aldrei aftur geta horft á hann eðilegum augum í Spider-Man myndunum.

Tónlistarvalið samanstendur ekki af miklu sem ég sækist í að hlusta á sjálfur en lögin eru fáránlega vel nýtt og í stíl. Tæknilegu hliðarnar eru nánast eins abstrakt og uppsetning sögunnar en í heildina gengur þetta allt upp, en slíkir þættir eru varla að fara að heilla nema þá sem eru þegar orðnir límdir. Spring Breakers er annaðhvort geðveik mynd í mjög jákvæðri merkingu eða snargeðveik draslmynd sem óvart mætti mistúlka sem frábæra mynd. Mér er sama hvort hún er, því ég gapti yfir pervertíska bikiníblætinu og fílaði þetta tripp alla leið. Þetta er e.t.v. villtasta og einkennilegasta kroppasýning sem sést hefur í svolítinn tíma, og ein athyglisverðasta mynd ársins í senn. Annað tek ég ekki í mál. Fólk þarf að gefa henni séns og athuga í hvorum hópnum það lendir. Það er annaðhvort eða.

atta
Besta senan:
Franco tekur Britney.

Sammála/ósammála?