The Perks of Being a Wallflower

Hér er ágætis dæmi um mynd sem mig langar miklu meira til að halda upp á en ég geri. Það er svo margt ótrúlega skemmtilegt við hana, fyrir utan það að ég er sjálfur algjör sökker fyrir góðum unglingamyndum (eða öllu heldur: myndum sem ganga út á það að vera unglingur – já, það er pínu munur!). Það er samt eitthvað svo einkennilega dæmigert við The Perks of Being a Wallflower, eins og helstu þróanirnar í þessari þroskasögu geti verið reiknaðar út. Ekki er allt fyrirsjáanlegt en persónulega fannst mér myndin í heild sinni aldrei ná til mín á tilfinningalega stiginu sem ég hefði viljað. Fyrir utan það er alveg óhætt að undirstrika það að þessi fínasta mynd er vandaðri, elskulegri og skemmtilegri heldur en margar af sömu ætt, a.m.k. nýlega.


Á efnislegu stigi finnst mér þessi mynd bæði segja sannleikann og líka vera svolítið gervileg þegar kemur að mannlega þættinum. Oftast eru samskipti unglinganna trúverðug og raunsæ en í öðrum tilfellum finn ég vel fyrir því að maður sem er ekki unglingur er að reyna að skrifa samtöl í stíl við unglinga. Sérvitringarnir eru yndislegir þrátt fyrir það (þótt ég geti ómögulega skilið hvernig svona miklir músíkunnendur þessa tímabils vissu ekkert um lagið Heroes með Bowie – en hér er farið með það eins og það sé óttalega „obscure“ lag). Ég held rosalega upp á tríóið í myndinni, sem þau Logan Lerman, Emma Watson og Ezra Miller sjá um að túlka. Watson þótti mér síst af þeim en svona yfir heildina er það vinátta þeirra þriggja sem hélt öllu klabbinu gangandi. Það segir líka mikið þegar maður er staddur með Percy Jackson, Hermione Granger og Kevin (þennan sem við þurfum að ræða um), af öllum djöflum, án þess að maður tengi andlitin við þessa karaktera, sérstaklega frú Granger! Leikararnir móta sympatíska, þrívíða og huggulega karaktera sem gaman er að hanga með. Miller stelur samt allri myndinni. Alveg æðislegur þessi drengur!


Wallflower gengur út á hæðir og lægðir gelgjunnar en myndin gætir þess aldrei að vera of hress, sem býr mann betur undir alvarlegu, dekkri hliðarnar sem hún sýnir í kringum lokin. Ég hefði kannski viljað meiri fókus á lokakaflanna, því myndin kemur fram við mjög mikilvæga söguþróun eins og örstutta framlengingu á eftirmála, frekar en að vera bitastæður og dramatískur kafli út af fyrir sig. Þetta flæðir ofsalega skringilega en burtséð frá því er leikstjórnin ansi sterk*. Kemistría leikaranna geislar alveg en síðan er myndin kvikmynduð á svo fallegan – nánast ljúfsáran – máta, án þess að maður dirfist til að gleyma skotheldu vali á tónlist sem gefur sögunni heilmikinn persónuleika. Ánægður er ég með Rocky Horror-dýrkunina líka, alls ekki bara vegna þess að Watson sást í þeim kynþokkafulla klæðnaði sem vanalega fylgir því fyrirbæri. Hermione hefur þá loksins breyst úr stelpu í konu.

Ungmennin eru flest öll til fyrirmyndar en það er sérkennilegt hversu lítið er fundið fyrir eldra fólkið til að gera. Paul Rudd er bráðskemmtilegur, að venju, en furðu vannýttur. Hann hefur það samt betra heldur en nokkur annar á hans aldri eða eldri. Leikarar eins og Dylan McDermott, Tom Savini og Joan Cusack eru bara fengin til að… vera þarna. Þau gera algjörlega ekki neitt, sem væri kannski í lagi ef manni liði ekki eins og þetta séu leikarar sem ættu örlítið betra skilið, án þess að ég sé einhver aðdáandi tveggja þeirra.

The Perks of Being a Wallflower er pínulítið eins og Dead Poets Society fyrir nýja kynslóð, en bara ekki eins eftirminnileg. Kemst ég heldur ekki hjá því að velta mér upp úr ókláraða sub-plottinu með systur Lermans og kærasta hennar. Það missir alveg sinn tilgang eftir hálftíma og leysist beint upp. Myndin hitti kannski ekki alveg í hjartastað hjá mér persónulega, en það er svo margt gott í henni og finnst mér sömuleiðis líklegt að hún eigi eftir að verða uppgötvuð af mörgum á næstu árum. Jafnvel gæti hún orðið að einhvers konar sleeper-klassík, þó ég sé kannski ekki endilega sannfærður um að hún eigi það skilið. En þó meira svo heldur en ýmsar aðrar af svipaðri gerð.

thessi
*Staðreynd dagsins: leikstjórinn er sami maður og skrifaði samnefndu bókina, og sá einnig sjálfur um handritsaðlögunina – hversu kúl er það??
Smá aðstoð hefði alveg mátt vera þegin þó.

Besta senan:
Percy Jackson kemur Kevin til bjargar!

Sammála/ósammála?