Side Effects

Maður þekkir einhvern veginn alltaf Steven Soderbergh-myndir úr langri fjarlægð. Þetta er gott, ef eitthvað, því það segir að maðurinn kann að merkja sín spor, t.d. með einkennilegri lýsingu og töff litum. Það er margt sem gerir góða Soderbergh-mynd en kvikmyndatakan kemur vanalega fyrst upp í hugann, og mættu alveg fleiri leikstjórar þarna úti prufa það að skjóta sínar myndir sjálfir. Ég veit samt ekki endilega hversu gott það er að karlinn sé svona ofboðslega afkastamikill. Myndirnar hans prufa allar eitthvað nýtt og oftast skemmtilegt en virka á sama tíma svo kaldar og oft fljótfærnislegar. Side Effects er fjórða kvikmyndin hans á cirka tveimur árum og best myndi ég lýsa henni sem faglega unnum dramatískum lyfjatrylli með mikla möguleika en hrapandi gáfum. Hún er áhugaverð… en samt svo óáhugaverð, eins og þær eru nú flestar frá Steve að mínu mati.

Soderbergh-stíllinn getur oft verið gott krydd en hann gerir lítið til þess að bragðbæta þetta efni fyrir utan það að gera myndarammanna aðeins fallegri. Handritið sem leikstjórinn notar að þessu sinni er lúmskt grípandi en lágstemmdi tónninn er ekkert voða mikið að hjálpa til með að halda spennunni í svona „potboiler“ mynd. Í betri höndum hefði verið settur aðeins meiri púls í þetta, en í verri gæti þetta auðveldlega komið út eins og langur sjónvarpsþáttur. Soderbergh fer þarna einhvern milliveg.

Söguþráðurinn hélt áhuga mínum án þess að toga mig alveg inn í skjáinn en síðan þegar helstu spurningunum er svarað verða flækjurnar svo langsóttar og bjánalegar að myndin hefði allt eins getað breytt alfarið um stíl í seinni helmingnum. Þetta gæti eitthvað tengst því að áherslan er í sífelldri breytingu. Myndin er t.a.m. óvenjulega lengi að ákveða hver á að vera aðalpersóna sögunnar, en það er rétt svo byrjunin á taktleysinu. Þetta er dramatískur tryllir á yfirborðinu en svo er þetta brotið upp í ýmsa undirgeira, sem mætti koma betur út. Áferðin er sú sama allan tímann en hér höfum við þurrt melódrama, síðan fullorðinslega karakterstúdíu sem hefur eitthvað móralskt að segja, ádeilu á lyfjaiðnaðinn, réttardrama og þriller sem vekur upp margar Hitchcock minningar. Væri ég kvikmyndasálfræðingur myndi ég segja að Side Effects væri með heldur klofinn persónuleika.

Góðar fléttur eiga að styrkja heildina og fella þægilega inn en hér er eins og nokkuð frumlegu plotti sé tekið í mest óspennandi áttir sem það gat farið í, og þróunin er á tíðum bara hreint asnaleg að því utanskildu að vera ófullnægjandi. Sumt kom reyndar á óvart (og fólk sem hefur lítið lesið sig til um myndina mun sérstaklega finna fyrir léttu höggi í einni senu – vona ég) og ég get ekki sagt að hún sé í fyrirsjáanleg í heildina, en almáttugur hvað mér var hálfsama um þetta allt. Mig langaði svolítið til að verða háður þessu þegar ég sá hversu vel þetta stefndi fyrst. Allur sálfræðiþátturinn í handritinu er athyglisverðastur, enda beittur og fullorðinslegur, en svo hættir það allt saman að skipta máli því sagan hefur allt annað í huga, miklu meira rútínubundið.


Með þetta að baki er fínt að ræða aðeins betur um bjartari hliðarnar, eins og góða kameruvinnu, ljúfa tónlist og ýmsa trausta kafla. Leikararnir eru almennt sannfærandi en efnistökin draga suma niður. Það þjónar Jude Law nokkuð vel hérna hversu viðkunnanlegur leikari hann er/getur verið. Rooney Mara er einnig trúverðug í nokkuð erfiðu hlutverki en mjög margir gallar í handritinu koma persónu hennar við, hvernig hún hegðar sér, hvernig hún kemur á endanum út og allt slíkt. Það vinnur ekkert gegn frammistöðunni, eða jú, kannski smá ef maður hugsar aðeins út í það. Catherine Zeta-Jones er voða bragðdauf og fær minna til að hnoða úr heldur en hin tvö. Channing Tatum er sá sem hefur minnst á milli handa. Þetta er mikilvægt en lítið hlutverk sem hann hefði örugglega getað reddað í svefngöngu. Greinilega hefur hann verið að gera leikstjóranum mikinn greiða. Þeir eru miklir félagar.

Ójæja, Side Effects hefur bit í byrjun, eitthvað af heilasellum en leysist síðan upp og skilur eiginlega ekkert eftir sig því myndin verður ómerkilegri með hverri einustu fléttu. Sögusagnir segja að þetta sé síðasta kvikmynd Soderberghs en hans vegna vona ég að þetta verði ekki meira en bara löng (en vonandi ekki of löng) pása á meðan hann lærir að skipuleggja sig betur.

fimm
Besta senan:
Öflugt atriði á neðanjarðarlestarstöð.

Sammála/ósammála?