On the Road

Ég held að eitthvað hafi farið pínulítið úrskeiðis í þessari aðlögun á hinni virtu „ævintýrabók“ Jacks Kerouac sem kemur í veg fyrir framúrskarandi afrakstur, en menn vilja víst meina að það hafi verið óttalega hugrakkt djobb að gera kvikmynd upp úr henni. Sagan kemur sér inn í hugarheim ungs fólks (eða Beat-kynslóðarinnar, nánar til tekið) í Bandaríkjunum eftir seinni heimsstyrjöld; kynlíf, eiturlyf, frelsi, hindranir, vinátta, sjálfsuppgötvun, meðlæti og skrifblæti.

Án þess að hafa lesið bókina (skamm!) get ég auðveldlega séð fyrir mér hvernig On the Road hefði getað orðið frábær ef ekki meira en ég sætti mig alveg við notalega góða mynd. Hún er engin Motorcycle Diaries en leikstjórinn Walter Salles og handritshöfundurinn José Rivera eiga annað þrusufínt samstarf samt sem áður. Það er enginn söguþráður, bara saga, saga um fólk (þar sem sóttur er innblástur í alvöru rithöfunda og skálda á borð við Allan Ginsberg, William S. Burroughs, Neal Cassady og Kerouac sjálfan) en hún er brotin upp í mjög kaflaskipt ferðalag og svoleiðis strúktúrar geta oft verið þreytandi í bíómyndum en galdurinn er vanalega í handritinu. On the Road er vel skrifuð mynd, byggð á eflaust stórfenglegri bók en mætti vera örlítið einbeittari og skipulagðari.

Mig grunar líka að mikil þjöppun hafi átt sér stað og ég er forvitinn að vita hvort auka 15 mínútur hefðu bætt eða skaðað heildina (Salles sýndi upphaflega lengri útgáfu af myndinni í Cannes en skar seinna fituna). Það leynir ekki á sér hversu mikill orkuskortur er í myndinni en þó að maður fjari gjarnan inn og út úr henni verður hún aldrei leiðinleg eða nokkuð annað en vönduð og hreinskilin mynd. Áhugaverð saga um (mis)athyglisvert fólk en hraðinn er afslappaður og flæðið líka. Kvikmyndataka og útlit er líka til fyrirmyndar og í gegnum þetta tvennt nær Salles hiklaust að koma manni inn í períóduna.

Þar sem On the Road snýst svona mikið um fólk er mikilvægt að líf og persónuleiki sé í liðinu á skjánum og samleikur á milli leikaranna er eins trúverðugur og hægt er að biðja um í þessari sögu. Þeir sem sögðu að Garrett Hedlund ætti enga framtíð fyrir sér eftir Tron: Legacy geta hámað í sig hnefana. Hann ber hiklaust af öllum leikurum í þessari mynd sem er miklu skemmtilegra hrós en maður heldur því þeir eru ansi margir og ólíkir hérna. En Hedlund hittir beint í mark sem Dean Moriarty (byggður í rauninni á Cassady), hvatvís karakter, heillandi en samt svo meingallaður. Hann er sá eini í hópnum sem gerir myndina á endanum þess virði að sjá og þegar hann er ekki á skjánum þá deyr pínulítið áhuginn á henni.

Garrett til stuðnings eru Sam Riley og Kristen „taktu-mig-alvarlega-í-indí-myndum“ Stewart. Þau eru fín, klárlega sannfærandi en útgeislunin er ekkert svakaleg. Riley er saklaus og kammó en ekki nógu eftirminnilegur miðað við það að hann á að vera aðalpersónan. Stewart gerir sitt besta til að sýna það að til sé villtari, ögn hressari og graðari hlið á henni sem aldrei fékk að njóta sín í glansfantasíunni sem var og hét Twilight. Ég fílaði hana samt og þetta hugrekki sem hún sýndi, jafnvel þótt einhver fjölbreyttari leikkona hefði hiklaust neglt þetta betur. Stewart hefur samt alltaf látið farið betur um sig í svona smærri myndum, þótt hún breyti sjaldan um svip. Hún allavega frýs ekki eins oft í andlitinu hér og annars staðar.

Það hlýtur að hafa eitthvað með orðspor bókarinnar að gera að svona margir frægir leikarar láti fara svona vel fyrir sér í bakgrunnshlutverkum. En sagan er hvort eð er svo greinilega kaflaskipt að flestir fá alveg sín tækifæri til að reyna að skilja eitthvað eftir sig. Það hefði mátt aðeins betur nýta stúlkurnar Amy Adams, Elisabeth Moss og Kirsten Dunst en þær sinna sínu af miklum áhuga. Allir eru rétt tjúnaðir inn, ekki síst Viggo Mortensen, Alice Braga, Tom Sturridge og Steve Buscemi, sem finnur bestu leiðina til þess að koma lítið fram en sjá til þess að allir muni eftir sér.

Eðlilega í svona „episodic“ myndum eru sumir kaflar miklu betri en aðrir. On the Road er almennt hæg og efnislega nokkuð mikil óreiða í henni en það þarf alls ekki að þýða að ekki sé hægt að mæla með henni og miðað við hvers konar sögu er um að ræða er það ekkert svo óhentugt að frásögnin sé pínulítið tætt. Andinn er líka alveg í takt við persónurnar. Væntanlega er umdeilt hversu mikið hún virðir bókina af dómum annarra að dæma. Þetta er samt ein af þessum myndum sem hægt er að dást mjög að og hún verður aldrei leiðinleg en heldur ekki eitthvað sem er líklegt til að rata oft í spilarann heima. Mér finnst myndin vera býsna vel heppnuð án þess að maður sé einhver betri manneskja eftir hana. Umfjöllunarefni hennar náði til mín og lúmskt falleg og áhrifarík er hún í þokkabót.

thessiBesta senan:
Stewart með fullar hendur.

Sammála/ósammála?