I Give it a Year

I Give it a Year væri betri mynd ef allir væru ekki svona rosalega heimskir í henni, en þá þyrfti hún auðvitað líka að vera allt öðruvísi mynd. Hér er (ó)rómantísk deit-gamanmynd á ferðinni um par sem giftir sig í fullmiklu flýti. Skötuhjúin fjarlægjast fljótt og gæla í sitthvoru lagi við framhjáhald. Í kringum þessi viðhöld snýst sitthvort plottið, þar sem áhorfandinn á að *vilja* að parið sem gifti sig í byrjuninni sundrist og sækist í annan paka, í gegnum kómíska atburðarás. Ekki datt mér í hug að deit-markhópnum þætti framhjáhöld vera svona ógeðslega fyndin.

Burtséð frá móralska akkerinu er ekkert að þessum söguþræði og hann er í rauninni bara nokkuð djarfur miðað við rómantíska gamanmynd. Hann hljómar eins og eitthvað úr Woody Allen mynd en ætlunin er meira að vera bresk útgáfa af Judd Apatow afkvæmi, mínus allt dramað. I Give it a Year ætlar sér að vera mjög fyndin, eða krefst þess eiginlega. Stundum er hún það. Að meðaltali myndi ég samt segja að hverjum góðum brandara fylgir a.m.k. einn vandræðalegur, síðan tveir litlir og leim. Heildin verður þess vegna eins og flatt kók í kjölfarið, sem er leiðinlegt því leikstjórinn Dan Mazer hefur í fjölmörg ár unnið með Sacha Baron Cohen, og ég hefði haldið að húmor hans væri meira smitandi en þetta.

Myndin verður líka svolítið týnd í seinni hlutanum, eins og hún ætli í pínustund að stýra söguna í allt aðra (mögulega aðeins „fullorðinslegri“) átt, en hættir síðan við skiptinguna. Það er ansi fatlað að koma með svoleiðis ‘múv’ í mynd sem ætlar sér ekkert að vera annað en einfalt fílgúdd-fjör. Ég er viss um að sálin sé þarna einhvers staðar en mér bara tókst ekki alveg að finna hana. Myndinni tekst að vísu ágætlega að vera gróf án þess að vera endalaust ódýr. Það er allavega eitthvað.

Þetta snýst annars allt um að leyfa húmor og sjarma leikaranna að skína, en eitthvað skilaði það sér illa. Mér líkar reyndar alltaf rosalega vel við Rafe Spall, sama þótt hann leiki oft erkiaula (og þ.á.m. manninn sem laðaðist að typpapíku-slöngunni í Prometheus), og í þessari mynd er hann kætandi lúser, nokkuð skemmtilegur bara. Ég tel einnig fræðilega ómögulegt að líka ekki við Stephen Merchant, en hér hefði reyndar alveg mátt dreifa honum meira út myndina í stað þess að troða honum í pínlegar períódur þar sem hann gengur aðeins of mikið yfir „plís, haltu núna kjafti“ línuna. Myndin hefði samt orðið verri án hans.

Simon Baker er nokkuð góður sem herra Fullkominn (engin ýkja, þannig er ímyndin hans, og hún er reyndar pínu fyndin). Rose Byrne er gullfalleg út alla myndina en fær leiðinlegasta og verst skrifaða karakterinn, svona „highstrung“ gellu í þriðja veldi. Hún reynir líka hvað mest á sig til að vera fyndin. Það var alls ekki svona vandræðalegt að horfa á hana í Bridesmaids eða Get Him to the Greek. Ég skil samt ekki hvernig Anna Faris lét blekkja sig í þessa mynd (og hún á að hafa einhverja góða reynslu af grínmyndum). Hún leikur rosa óaðlaðandi og leiðinlega „krútttýpu“ og handritið leyfir henni hvorki að vera nógu sjarmerandi eða fyndna.

Ef húmorinn hefði oftar hitt í mark eða persónurnar væru áhugaverðari hefði þetta getað heppnast allt. Myndin liggur þess vegna pikkföst í meðalmennskunni, heldur skömmustulega. Og persónurnar eru annaðhvort heimskar stereótýpur eða einhliða fávitar. Sem deitmynd (þar sem kynlífsdjókar eru vel frontaðir) gæti hún orðið svolítið vandræðaleg (enn og aftur, þetta orð) eða bara fínasta kvöldafþreying ef kröfur eru ekki of háar. Það ætti samt ekki að vera ósanngjarnt að vera með einhverjar væntingar, miðað við fólkið sem kom að þessu.

fimm

Besta senan:
Digital myndaramminn sýnir sannleikann.

Sammála/ósammála?