Oblivion

Útlitsséníið Joseph Kosinski á eflaust langa framtíð fyrir sér en þyrfti bara að venja sig á það að setjast oftar yfir efnið til að kreista út betra drama, slípa frásögnina og hugsa betur út strúktúrinn.

Oblivion er bæði stórt skref upp fyrir hann sem kvikmyndagerðarmann en líka mikið skref afturábak ef þetta á að snúast um fullnægjandi afþreyingu með ásættanlegum efnistökum. Það er kannski ekki það erfiðasta í heimi að toppa mynd eins og Tron: Legacy á handritsstigi en samt sem áður hækkaði Kosinski staðalinn ósköp mikið fyrir sjálfan sig eftir þessa frumraun sína. Tron er að minnsta kosti mynd sem helst saman, ef ekki bara vegna útlits, áferðar og músík. Þessi hefur svipaða kosti en kemst einhvern veginn aldrei almennilega á flug þó hún meini vel með metnaðinum.

Það er notalegt að sjá frumsamda sci-fi sögu (sem í þessu tilfelli er eigin sköpun leikstjórans) og sömuleiðis svona einfalda og semí-afslappaða. Oblivion er ekkert að hlaða í sig miklum hasaratriðum og uppskriftum bara til að réttlæta tilvíst sína sem stór brellumynd, heldur kýs í staðinn að (reyna að) stýrast af andrúmslofti, persónum og dulúð í frásögninni. Hugarfarið er rétt, þannig séð, en afraksturinn utan skreytingarinnar er ósköp aumur. Og þótt sagan sé frumsamin get ég ekki fyrir mitt litla líf sagt að hún sé frumleg. Þvert á móti er hún öll að springa úr hugmyndum sem áður hafa sést og þá í helmingi betri myndum.

Sumir gætu kallað þetta kóperingu, aðrir sem vilja afsaka þjófnaðinn myndu lýsa þessu sem einhvers konar virðingarvotti. Ég veit varla hvar á að byrja en „áhrifin“ virðast m.a. koma frá Silent Running, Moon, Blade Runner, Star Wars, Independence Day, Space Odyssey (sem er ein uppáhaldsmynd leikstjórans – og það sést!) og Wall-E! Ef út í það er farið eru fáir partar hér sem koma ekki einhvers staðar annars staðar frá. Kosinski á skilið að fá köku fyrir að vera með 110% áhuga á því sem hann gerir en myndin er miklu meira sjónarspil heldur en innihald, sem þýðir að það er vart hægt að kalla þetta alvöru sci-fi, eitthvað sem hana dauðlangar til að vera.

Sagan daðrar við athyglisverðar hugmyndir (og þemun líka) en þær eru allar svo vanþróaðar og þess vegna sýndi ég ofsalega takmarkaðan áhuga fyrir öllu sem var í gangi út þessa tvo klukkutíma. Andlega er lítið sem ekkert til að grípa í, þess vegna verður myndin aldrei spennandi og dramatíkin er vonlaus þar að auki. Að hluta til er þetta lafþunnu handriti að kenna, tilfinningadauðri leikstjórn og gallaðri söguuppbyggingu. Ég kann að meta takmarkaða persónufjöldann og hraðann sem Kosinski keyrir söguna á en hún er öll byggð á fléttum í stað þess að kortleggja betur hugmyndirnar og týnir stundum alveg mannlega þættinum, sem hefði getað nýst til að setja meira í persónurnar. Svörin eru ekki öll fyrirsjáanleg, en flest voða máttlaus. Aldrei var mér annað en sama þegar e-ð nýtt kom í ljós. Aðeins eitt í myndinni, nálægt endanum, kom mér í alvörunni á óvart en samt hugsaði ég: „Ókei, þetta er töff, en allt og sumt?“

Oblivion-1Tom Cruise lifir sig krúttlega inn í rulluna sína, eins og hann gerir nú yfirleitt, en fær ekki margt til þess að vinna með. Hægt er samt að færa rök fyrir því að nærvera hans setji of mikinn Hollywood-keim á myndina, vegna þess að þegar Cruise vinnur ekki með frábærum leikstjórum að svona stórmyndum líður manni sjaldan eins og maður sé að horfa á persónu í stað stórstjörnu. Þetta er galli hér. Cruise reynir að gefa sig allan fram eða a.m.k. eins mikið og leikstjórnin hefur leyft honum, og það segir varla neitt.

Leikhópurinn í heild sinni er traustur en að megninu til er honum sóað. Í stað þess að bræða augun og skjáinn með líkama sínum er Olga Kurylenko bara úti á þekju sem tilfinningalega sía myndarinnar. Samleikur hennar við Cruise er þvingaður í dramasenum með vondum díalóg og kemistría er ekki nein. Sú sem átti myndina (og eiginlega bestu senuna) að mínu mati var Andrea Riseborough. Hún er falleg, köld, dularfull og tvímælalaust sú eina sem ég keypti tilfinningarnar hjá. Melissa Leo gerir allt sem hún á að gera í litlu gestahlutverki og ég myndi segja það sama um Morgan Freeman ef sagan kæmi ekki fram við hann eins og hann sé stærri og mikilvægari persóna en hann er. Freeman aðdáendur mega búa sig undir mikil vonbrigði varðandi hans skjátíma, semsagt ALLIR. Meira að segja hefði meira mátt gera við Nikolaj Coster-Waldau (úr Game of Thrones og Headhunters) en að láta hann sýna bara andlit sitt annað slagið.

Útlitslega er þetta ein af mest spennandi myndum ársins, en ekkert meira en það. Arkitektúrrætur leikstjórans sjást langar leiðir og ég gjörsamlega elska hversu aðlaðandi auga hann hefur fyrir hönnun, uppsetningu og stíl. Sjálfsagða klakastoltið er á sínum stað, sennilega því Ísland nýtist hér eins og heil aukapersóna út fyrir sig með hjálp stafrænna framlenginga. Kannski ekki í hinu jákvæðasta ljósi en hreina, auða umhverfið selur heimsendafílinginn og eymdina en kætir augun á sama tíma. Kosinski leyfir fegurð myndarammanna að skolast reglulega yfir mann í stórum og æpandi skotum. Jafnvel þó megnið af tæknigræjunum líti út fyrir að vera sponsaðar af framtíðar-Apple er beitingin á kamerunni svo sterk að myndin er almennt ófær um það að vera of leiðinleg, bara misáhugaverð.

Kosinski hefur bæði langað til að gera straightforward, meiriháttar flotta afþreyingu í líkingu við seinustu mynd sína og líka dýpri, lágstemmdari mynd þar sem tenging áhorfandans við persónurnar á að hafa forgang. Niðurstaðan verður voða sóðaleg í hálfkláruðu framkvæmdinni og þess vegna rennur myndin eins og hugmyndalega endurunnin stílistasýning sem vill vera miklu meira en nennir ekki að leggja höfuðið of mikið í bleyti. Tónlistin frá Anthony Gonzalez og M83 pakkar reyndar sci-fi andrúmsloftinu stórfenglega inn og gerir gott mun betra þegar kemur að skrautinu, þó hún komist ekki alveg nálægt Tron-scorinu. En ef þetta snérist allt um lúkkið og hljóminn fengi Oblivion pottþétt heimskulega háa einkunn. Vonandi verður Kosinski búinn að gera eitthvað í sínum málum næst.

fimm

Besta senan:
Sundlaugin. Pínu kjánó en samt flott.

Sammála/ósammála?