The Incredible Burt Wonderstone

Það ætti að vera ólöglegt að láta svona æðislegan hóp (gaman)leikara þurfa að sætta sig við grínmynd sem er ekki óborganlega fyndin, heldur einungis meðalfyndin. The Incredible Burt Wonderstone er frekar bitlaus satíra en fínasta afþreying samt sem áður ef ætlunin er að drepa tímann með einhverju léttu. Ef Steve-arnir tveir, þ.e. Carell og Buscemi, geta ekki gert eitthvað gott úr því að leika skrautlega töframenn, með sprellfjörugan Jim Carrey í aukasætinu, þá er heimurinn ekki í lagi. En þeim tekst það. Myndin er fín. Er það samt nóg?

Þetta er eins og Will Ferrell-mynd en Ferrell er bara hvergi sjáanlegur. Áhorfendur eiga satt að segja aðeins betri mynd skilið heldur en þessa, sömuleiðis allir leikararnir í henni. Ég segi þetta vegna þess að allir sem hafa séð myndirnar Talladega Nights, Semi-Pro og Blades of Glory hafa í rauninni séð Burt Wonderstone, þ.e.a.s. ef kappaksturs-, körfubolta- og skautabransanum er skipt út fyrir töfraþema. Þetta eru bara fyrstu myndirnar sem koma upp í hugann og má alveg gramsa eftir fleirum ef manni leiðist.

Formúlan er kunnugleg, kannski fullmikið, og manni líður alltaf  eins og bestu atriðin mættu vera aðeins betri. Ég kenni handritshöfundinum um þetta. Saga sem tekur skot á töframenn (og götulistamenn í líkingu við Criss Angel og David Blaine) ætti að hafa nóg til að velja úr en í staðinn þarf hún að vera endurunnin og léttilega útreiknanleg. Það ætti kannski ekki að angra mann svo mikið en það gerir það samt og hefði alls ekki verið leiðinlegt að fá einhverja milda snilld úr þessum hráefnum. „Galdurinn“ við afþreyinguna er samt tvímælalaust að finna í flippaða leikhópnum. Carell, Buscemi, Carrey og þar að auki Alan Arkin, Olivia Wilde og James Gandolfini ættu augljóslega öll að manna betri mynd en þau gera meira en gott úr því sem er í boði – og það er alls ekki mikið.

Carell leikur ó-svo-dæmigerðan aula sem er að farast úr sjálfselsku og finnur egóið fyrir hörðum skell þegar keppinautur (leikinn af Carrey í þessu tilfelli) slær hann úr toppsætinu sínu. Það telst ekki til spillis að segja að hann lærir síðan að verða góður á ný. Þetta er örugg, hér um bil árleg uppskrift sem allir þekkja en það er reyndar extra stórt vandamál við þessa mynd hvað snöggri breytingu titilpersónunnar er óskaplega flýtt og ósannfærandi, en það er svosem aukaatriði. Myndin gengur út á það að vera fyndin en til þess að geta notið alls þess besta er betra að sleppa alfarið að sjá trailerinn (þetta er allt í honum! ALLT). Myndin verður samt aldrei sprenghlægileg þó að hún gæli við sprenghlægilegar hugsanir. Kómísk tímasetning leikaranna er í lagi en ferskleikann vantar í handritið til að þetta gangi betur upp. Teygt er heldur mikið á góðum bröndurum, sérstaklega í lokin. Gegn því er a.m.k. músíkin fjörug og enn hefur mér ekki tekist að hrista þetta Abracadabra-lag úr kollinum.

Buscemi hefur aldrei verið mesta augnakonfekt og hér súrnar sjónin þegar hann er kominn í töframannagallann. Það er samt alltaf jafnerfitt að hafa ekki gaman af þessum manni og hann er drulluskemmtilegur á móti Carell með þetta Siegfried & Roy mótíf. Mér tekst líka alltaf að dýrka Wilde smátt og smátt meira og hér er hún alveg með á nótunum en í fyrirsjáanlegu og klisjukenndu aukahlutverki sem hún átti engan veginn skilið að fá. Arkin er líka fjörugur að vanda og Gandolfini leikur alltaf sjálfan sig best en Carrey stelur eðlilega hverri einustu senu. Hann einn stýrir myndinni lengra frá því að vera tímasóun.

En já, þegar leikararnir eru svona skemmtilegir og með mikla reynslu af gríni er erfiðara að sætta sig við mynd sem heldur ekki 100% dampi og skilur heldur ekkert eftir sig. Efniviðurinn er hress en klárt er að framleiðendur hugsuðu meira um gróða frekar en að ganga alla leið með möguleikana. Þetta bitnar allt á handritinu á endanum og ég sjálfur er ekki einu sinni viss um hvort myndin sé að gera grín að töfrabransanum með ádeilunálgun eða faðma hann að sér með „fílgúdd“ markmiði. Oft er eins og hún átti sig ekki alveg á því hvora leiðina á að fara. Væntingar skulu allavega vera hlutlausar. Horfið bara, njótið og gleymið.

sex

PS. Einhver borðaði Jay Mohr!

Besta senan:
Allt það góða sem trailerinn sýnir með Jim Carrey.

Sammála/ósammála?