Olympus Has Fallen

Olympus Has Fallen er ein af þessum myndum sem lætur manni líða miklu, miklu heimskari. Það er í fínu lagi samt, eða ætti að minnsta kosti að vera það, því þetta er ekki bara hasarmynd heldur þokkalega velkomin ofbeldisveisla í líkingu við þær ’90s-myndir sem sáust í tonnatali hér einu sinni. Það var þegar alvöru, harðkjarna og heilaheft „aksjón“ þótti meira spennandi heldur en fantasía og hvað þá ofurhetjumyndir.

Hér er komin mynd sem mætti mistúlka sem einhvern óð til ófrumlegra, einfaldra en markvissra hasarmynda frá þessum áratugi en það myndi engan veginn útskýra nógu vel hvers vegna þetta virkar allt svona úrelt og óspennandi. Efniviðurinn er heiladauðari en tússpenni, fánadýrkunin einstaklega fráhrindandi (og þetta kemur frá manni sem er bandarískur að hluta til) og frumlegheit á sama pari og megnið af þessum asnalegu Die Hard-afritum sem maður sá fyrir alltof löngu síðan og var glaður að duttu úr tísku. Allur listinn var dekkaður á tímapunkti; Die Hard á skipi (Under Siege), Die Hard í rútu (Speed), Die Hard með öpum (Home Alone), Die Hard í forsetaflugvél (Air Force One, hvað annað?) og núna er röðin, ótímanlega, komin að Die Hard í Hvíta húsinu. Með öðrum orðum, svona hálfvitaleg blanda af fyrstu og fjórðu myndinni í þeirri seríu.

Staðalímyndir eru á sínum stað, hasarinn er kaótískur en rútínubundinn, „one-linerarnir“ eru voða upp og niður og fullt af fínum leikurum gera ósköp lítið á meðan Gerard Butler er látinn svitna talsvert sem ósigrandi öryggisvörður sem hleypur í skarðið fyrir John McClane. Persónulega hefði ég alveg sætt mig við það að skipta Butler út fyrir Bruce Willis og kalla þetta fimmtu Die Hard-myndina. Þó Olympus sé ekkert sérstök og í rauninni alveg merkilega (og hlægilega) slæm á köflum, þá er hún samt skömminni skárri heldur en draslið sem John Moore skóflaði ofan í McClane-unnendur fyrr á þessu ári.

Það er margt virkilega slæmt hægt að segja um þessa mynd. Handritið er fyrirsjáanlega fyrirsjáanlegt, ruddalega formúlukennt, bjánalegt og gerir hneykslandi tilraunir til þess að vekja upp örfáar minningar í tengslum við 11. september á meðan hún lætur eins og það hafi aldrei neitt gerst á þeim degi. Það er nokkuð mikið hér í boði sem mætti kalla óviðeigandi eða einfaldlega bara asnaskap. Myndin tekur sig svo alvarlega eina stundina en reynir að depla öðru auganu til áhorfandans þá næstu. Þetta kemur allt mjög skringilega út að ógleymdu því hvað leikararnir eru sofandi í gegnum þessi hlutverk sín, eins mikið og þeir reyna að fela það.

Butler er svosem í réttum gír, en það er sjálfsagður hlutur þegar um aðalmanninn er að ræða. Hann er skemmtilegur og hress en dregst niður því hlutverkið er illa skrifað. Maður heldur með honum en er slétt sama um hann á sama tíma. Frægustu nöfn myndarinnar eru ágætlega frontuð (t.a.m. Aaron Eckhart, Morgan Freeman, Rick Yune, Dylan McDermott og Melissa Leo, sem telur sig vera að leika í miklu betri mynd en hún er í) en flestir gera ekkert svakalega mikið og aðrir hverfa inn í bakgrunninn. Þær Radha Mitchell og Ashley Judd (hvar hefur þú verið??!) töpuðu greinilega einhverju vondu veðmáli.

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að Antoine Fuqua eigi aldrei að búa til bíómyndir. Hans tími er allavega runninn upp því hann hefur aldrei gert góða mynd (fyrir utan kannski The Replacement Killers, en það er umdeilt val) og ég mótmæli harðlega þegar fólk nefnir myndina Training Day. Að minnsta kosti er Olympus ekki eins móðgandi fyrir skilningarvitin og t.d. Tears of the Sun eða King Arthur. Þvert á móti getur hún verið bara nokkuð skemmtileg þegar hún dettur í ákafan gír og þangað til að hasarinn lemur úr manni allar heilasellur, sem gerist smátt og smátt með tímanum. Verst er myndin alveg í byrjun og nálægt endanum, þökk sé tilgerðarlegu „drama“ og vandvirknislegri leikstjórn. Mest sjokkerandi hluturinn við Olympus er samt hvernig Fuqua tókst í alvörunni að samþykkja/sætta sig við öll þessi brelluskot sem myndin býður upp á. Tæknibrellurnar, í allri sinni dýrð, eru býsna hræðilegar og ég held að heilu hasarsenurnar í þessari mynd hefðu getað komið helmingi betur út fyrir einum og hálfum áratugi síðan, eða með öðrum leikstjóra. Almáttugur.

Olympus Has Fallen ætti samt að vera (næstum því …) gagnrýnendavarin og allir sem hendast fyrir framan hana eru að öllum líkindum í leit að einfaldri afþreyingu, sem ætti að skila sér ef væntingar eru sama og engar (ekki nema viðkomandi dýrkar fyrri myndir leikstjórans, sem og World Trade Center eftir Stone). Það besta við hana er keyrslan og skortur á aumingjaskap í ofbeldinu. Lægstu punktarnir skaða samt þá góðu mjög mikið yfir heildina og þess vegna orgar myndin af „beisik“ meðalmennsku. En að lokum vil ég sérstaklega þakka ameríska flagginu fyrir dásamlega frammistöðu.

White House Down, nú átt þú leik.

fimm

Besta senan:
Butler gerir eitthvað töff.

Sammála/ósammála?