Scary Movie 5

Ég þoli ekki þegar barnaleg slapstick-misþyrming dulbýr sig sem „húmor“ eða spoof-grín öllu heldur, en ég býst við að þetta fylgi þessum ofnotaða bíógeira. Varla er nú hægt að gera vitsmunalegri kröfur til myndar þar sem Charlie Sheen og Lindsay Lohan halda að þau séu einu skrefi á undan áhorfendum í hroðalega vondri sjálfsparódíu. Sorglegast er að upphafsatriðið með þeim báðum er með því skásta sem er í boði í Scary Movie 5, sem tekur annars krúnuna sem alversta myndin í þegar slakri seríu.

Persónulega hef ég alltaf haft sterkara þol fyrir Zucker-myndunum heldur en þeim frá Wayans-bræðrum, en gæðalínan á milli þeirra allra er ekkert voðalega skýr. Líklegast er sú fjórða skást að mínu mati, skrautfuglinum Craig Bierko að þakka. En ef þér finnst ógeðslega fyndin tilhugsun að lítil stelpa troði íspinna upp í rassgatið á sér, þá skaltu sjá Scary Movie 5. Ef sífelldar endurtekningar eru í miklum metum hjá þér, sama saga. Ef þú færð einhverja ánægju út úr því að sjá eina skiptið þar sem Terry Crews nær ekki að vera smávegis fyndinn, þá er Scary Movie 5 hárrétta myndin, sömuleiðis ef þér finnst ekki vera löngu búið að myrða Benny Hill-lagið.

Þessi mynd kastar svoleiðis í mann hvern hræðilega brandarann á eftir öðrum, haldandi að allir áhorfendur séu með húmor á við 9 ára drengi, eða myndin er einfaldlega gerð fyrir þá sem léttilega hlæja að öllu ódýru. Markaðslega séð gengur þetta ekki alveg upp, því einhvern veginn efa ég að þeir krakkar sem í alvörunni fíla þennan húmor hafa séð megnið af því sem er verið að spoof-a. Það er eitt að gera grín að Mama, Paranormal Activity, Evil Dead og Sinister, sömuleiðis Rise of the Planet of the Apes (?) og Inception (??), en ég sé það ekki alveg gerast að markhópurinn tengi sig við Black Swan eins vel, eða meti hana til að byrja með. Myndin þykist vera svo sniðug að hafa hnoðað eitthvað bjánalegt plott úr þessari samsuðu, en hér (sem fyrr) snýst allt um sketsana og að sitja í gegnum marga þeirra er eins átakanlegt og það gerist að sitja í gegnum leiðinlega og þreytta grínmynd sem er/ætti að vera handa krökkum.

Scary Movie 5 hefur ekki eins vond áhrif á andlegu heilsuna og flest allt Friedberg-Seltzer hlandið, en á köflum ferlega nálægt því, og það er nóg! Þó þetta séu ekki meira en 80 mínútur er grimmt og glatað hversu mikið er verið að óhreinka mann með atriðum sem eru annaðhvort aulaleg, þroskaheft, eða hvort tveggja. Það er neyðarlegt fyrir myndina, alla leikaranna í henni og alla sem horfa á hana þegar geislar svona í gegn hvað tilraunirnar eru píndar og hatursverðar í versta falli. Ég skal samt viðurkenna það að ég brosti í fáein skipti, en með mjög löngu millibili (t.d. einu sinni yfir einhverju vangefnu bílaatriði og síðan þegar myndatökustíllinn úr Black Swan er kóperaður skemmtilega). Það var samt alveg óvart og ég held að mín bíði núna eitruð refsing fyrir þessi glott. Það að þrauka þessa mynd út án þess að standa upp, hlaupa út öskrandi og glápa í staðinn á eitthvað af ofannefndum myndum er nógu mikil refsing út af fyrir sig. Sjaldan hef ég þráð þess jafnmikið að horfa frekar á Nolan- eða Aronofsky-mynd. Meira að segja Scott Derrickson-mynd hefði dugað.

Það sem kemur í veg fyrir falleinkunnina eru þau fáeinu skipti þar sem heilinn á mér brást ekki við gríninu með orðunum: „fokk, hvað þetta er glatað!“ En bestu mómentin verða aldrei meira en „alltílæ“ og ef ég myndi giska á tölu myndi ég segja að þau hafi verið fjögur eða fimm að talsins. Þess vegna á ég erfitt með að hata Scary Movie 5, kýs frekar að vorkenna henni. Ég skil samt ekki hvernig er í alvörunni svona fáránlega erfitt að gera góða spoof-mynd.

tveir

Skásta senan:
Nei.

Sammála/ósammála?