Iron Man 3

Það tók suma nokkra daga til að jafna sig eftir Avengers-vímuna í fyrra og þess vegna er það enginn djókur fyrir Marvel að fylgja henni eftir, hvað þá með „einstaklingsmynd.“

Tekin var sú skrýtna en stórkostlega ákvörðun að ráða Shane Black (pennann á bakvið Lethal Weapon, The Last Boy Scout og Kiss Kiss Bang Bang, sem hann leikstýrði einnig) til að fikta aðeins með seríuna og uppfæra hana um leið. Black, alveg eins og Joss Whedon, er einstaklega fær í snjöllum, hnyttnum samtölum, óvæntum uppákomum og meðlæti en aftur á móti miklu færari með „one-linera,“ töffarastæla, litapallettur og annað. Það er fínt að hafa Jon Favreau meira fyrir framan vélarnar að þessu sinni.

Black heldur í vissar kristilegar hátíðarhefðir og hefur enn einu sinni snúið sér að afar ójólalegri jólamynd, sem þýðir samt að ég muni hafa mörg árleg tækifæri til þess að kíkja á Iron Man 3 yfir hátíðirnar í framtíðinni, fyrst og fremst því hún er GEGGJUÐ afþreying og vafalaust sú besta af þrenningunni. Mér finnst það samt ekki mikið segja, en ef eitthvað í líkingu við þetta hefði látið sjá sig sumarið 2008 þá hefði ég fullkomlega skilið dýrkunina sem fyrsta myndin fékk og hefur haldið síðan. Þessi tekur báða forvera sína í nefið; skemmtilegri, fyndnari, ferskari og meira spennandi á alla vegu. Það segir sig líka sjálft að stærðin er margfalt meiri, vegna þess að þessi tekur við þræðinum af Avengers í staðinn fyrir seinustu Iron Man-mynd, sem er í dvergastærð í samanburði. Þetta Phase 2 dæmi hjá Marvel byrjar bara drulluvel og ætti að kitla myndasögunördana á hárréttum stöðum ef gæðin halda þessu róli.

Það sést (eða heyrist) undir eins þegar Marvel-lógóið kemur að Iron Man Three er mynd með mjög skemmtilegan persónuleika, enda ekkert ofsalega dæmigerð ofurhetjumynd. Reyndar hef ég sjaldan orðið vitni af svona undarlega sérvitri myndasögumynd sem er merkt Marvel-merkinu, ábyggilega ekki síðan Ang Lee tók sinn eigin snúning á Hulk-mynd og gerði abstrakt sálfræðidrama í bland við ofurhetjumynd. Í þessu tilfelli er subbulega stílíserað grip komið á Járnmanninn og myndin er í raun einstök blanda af myndasögusjói og harðsoðinni, kómískri ’90s hasarmynd, sem er nákvæmlega það sem allir ættu að búast við frá leikstjóranum.

Þetta er semsagt Shane Black-mynd í beinni merkingu, kannski ekki filterslaus sem slík (hmm… af hverju ætli það sé?) en „edgy“ og fjandi þægileg tilbreyting frá snyrtilega „raunsæislúkkinu“ sem Favreau notaði áður. Nú heldur fantasíuandinn hjá Marvel áfram og verður ekki aftur snúið. Black tekur fagnandi á móti hasarblaðastemningunni en gefur henni kaldara yfirbragð og merkir myndina svo sterkt með sínu nafni. Það er bókstaflega eins og leikstjórinn hafi tekið dökka en teiknimyndalega Iron Man-mynd, síðan Kiss Kiss Bang Bang og nuddað þeim saman. Bæði er þessi mynd alvarleg í múdi en þó flippuð allan tímann, skrípalega yfirdrifin en samt svo fullorðinsleg.

Útlit, hljóð, músík og tæknibrellur skila sér fyrir allan peninginn. Ekki eru öll stafrænu atriðin sannfærandi en það er enginn að fara að kvarta undan slíku þegar allt er komið í gang og dýrustu skotin njóta sín á stórum skjá. Þrjú stór atriði standa upp úr (húsið, flugvélin og höfnin) en hasarinn traðkar auðveldlega á báðum fyrri myndunum en ræður vissulega ekki alveg við stærðina og hápunktamagnið í Avengers, en Black veit hversu ágengur hann kemst upp með að vera og þaðan kemur eitt öflugasta gildið í hasarsenunum. Favreau á ekki séns í kaótíkina sem Black baðar sig hérna í og nýtist kameran (stafræn eða ekki) óaðfinnanlega í stærstu senum þar sem áhorfandinn er hér um bil fluttur á staðinn. Hasarinn er stór og dýnamískur í ofurhetjuatriðunum en hrár og persónulegur í þeim smærri. Hann er heldur ekkert að missa sig í geldum aumingjaskap, heldur er hann myrkur og endalaust umkringdur lífshættu, sem líklega handritinu að þakka. Ég festist líka mikið við grunnhugmyndina að söguþráðurinn leyfir titilpersónunni að strípa sig niður, andlega og líkamlega, og láta reyna á hugvitið ásamt eigin styrk. Hvor er hetjan í raun, Tony Stark eða búningurinn?

Robert Downey Jr. hefur alltaf, út allar fjórar loturnar sínar, verið fullkominn – hér um bil goðsagnarkenndur – sem Stark (þótt persónan sé í raun bara beint módeluð eftir þekktustu einkennum leikarans) og ávallt í rétta stuðinu. Hann einn kom í veg fyrir það að síðasta myndin var of leiðinleg og sú fyrsta fullmikil uppskrift. Persónan hefur samt aldrei verið skemmdari, óöruggari eða augljóslega berskjaldaðri en hér og það gerir hana miklu athyglisverðari en áður og örkina miklu betri, þrátt fyrir að maðurinn hafi aldrei verið fyndnari heldur.  Tony er enn sami Tony en attitjúdið hefur aðeins breyst og innri djöflum fjölgað, og þökk sé leikstjóranum kemur Downey meira út eins og hann sé nýstiginn út úr Kiss Kiss Bang Bang, en bara tífalt gáfaðri og miklu meiri taugahrúga.

Sem fyrr má alltaf njóta þess að horfa á leikaranna í svona myndum mjaka sér upp úr svona líflegum týpum. Fastafólkið skilar sínu, þ.e.a.s. Gwyneth Paltrow, Don Cheadle og líka rödd Pauls Bettany og Favreau sjálfur, allavega þangað til hann situr hjá út megnið af sögunni. Hann bætir í rauninni litlu við myndina en að sleppa honum hefði skilið eftir ör. Nýju leikararnir eru mjög skrautleg og bætandi viðbót. Rebecca Hall er bæði sjálfsörugg og viðkvæm, Guy Pearce nýtur sín alla leið og seint verður hægt að segja annað en að Ben Kingsley steli senunni sem einn allra minnisstæðasti karakterinn. Drungalegur eina stundina, vægast sagt óvæntur þá næstu. Ty Simpkins (úr Insidious) tekur heldur ekki á taugarnar eins og krakkaleikarar oft gera og á bara hinn fínasta samleik við Downey. Eðlilega býst maður við því að Stark myndi einhvers konar Disney-tengsl við þennan krakka, en samband þeirra var aldrei mjólkað eða mýkt og gerði meira fyrir myndina frekar en að taka frá henni.

Persónusköpunin er til staðar en gölluð í tilfelli nokkurra andstæðingana. Handritið byggist líka rosalega (eiginlega óþolandi mikið) á tilviljunum en kryddaði húmorinn lætur mann pæla minna í því. Umfram allt dáist ég svakalega að þessum vinnubrögðum frá leikstjóranum, svo ég tali nú ekki um leiðina sem hann hefur fundið til að pirra hörðustu myndasöguunnendur (þeir sem hafa séð myndina hljóta að fatta) en samt gleðja þá svona grimmt á sama tíma á stöðunum sem skipta máli. Black tekur áhættuna og stýrir Iron Man 3 yndislega í áttina frá klisjukenndri formúlu. Niðurstaðan er vitanlega ófullkomin en stórskemmtileg tveggja tíma gleðisprengja sem hleður sig á spennu, húmor og rýmir aðeins til fyrir drama. Skörp í útliti og eykur púlsinn með nokkrum klikkuðum hasaratriðum. Í kaupbæti er greinilega líka komin ný „jólamynd“ í uppáhald.

atta

PS. Downton Abbey er djöfull ávanabindandi.

Besta senan:
Húsinu rústað. Það er fullt af góðum atriðum en stærsta „vó-ið“ er þar.

Sammála/ósammála?