Evil Dead (2013)

Það er ekki erfitt að skilja réttlætinguna við það endurgera/uppfæra The Evil Dead, þ.e.a.s. ef maður býr sér til þann ímyndaða heim þar sem þetta snýst ekki alfarið um gróða og nýtingu á þekktu költ-vörumerki. Að minnsta kosti hjálpar það til að feðurnir Sam Raimi og Bruce Campbell bakki verkefnið upp sem framleiðendur, eins og það sýni fram á að þeir vildu í alvörunni sjá þetta gerast og sjá til þess að það yrði gert vel.

Upprunalega myndin frá ’81 – sama hvað sumir halda – á ekki alveg skilið að vera kölluð eitthvað splatter-meistaraverk en er þó subbulega sígild engu að síður, algjört barn síns tíma þar sem sjúka hugmyndaflugið bætti upp fyrir peningaleysið. Eðlilega koma alltaf upp fleiri neikvæðar minningar heldur en góðar þegar endurgerðir eru til umræðu, en miðað við hversu trylltir forfallnir Evil Dead-unnendur geta verið sé ég ekki fram á það að endurgera/uppfæra gömlu myndina hafi beinlínis verið „win-win scenario.“ Annars er best að setja gæsalappir utan um orðið „endurgerð,“ því það er víst farið frjálst með það hvort þetta sé svoleiðis eða eintak sem á sér tengingu við gömlu seríuna. Ef eitthvað er til í þessu síðarnefnda hefði hiklaust mátt fara frumlegri leiðir í stað þess að herma svona eftir þeirri fyrstu.

uh ohHefði þessi „endurgerð“ verið of svipuð fyrirmyndinni væru aðdáendur logandi af reiði en ef hún hefði gjörbreytt formúlunni og verið hlaðin sínum eigin einkennum, þá hefði eflaust fjandinn algerlega orðið laus. Sýnist mér að aðstandendur (s.s. Raimi, Campbell og nýi leikstjórinn, Fede Alvarez) hafi reynt að ganga þarna einhvern milliveg, með því að gera sömu mynd, með talsverðum breytingum en samt fullt af gargandi tilvísunum í þá gömlu til að fara ekki of langt út fyrir dyr. Þetta gengur í sjálfu sér allt upp, að vísu ekki nema kröfur séu lágar, og myndin er viðbjóðslega vel gerð (takmarkað fjármagn er heldur ekki lengur vandamál), töff á mörgum stöðum og mergjað óþægileg á öðrum. Ég kemst samt ekki hjá því að bera Evil Dead saman við THE Evil Dead (kaldhæðnislega þykir mér það segja mjög margt um þessa „endurgerð“ að það vanti „The“ í titilinn og hversu heilög hin er) og einhvern veginn efa ég að ég sé þar einn af fáum.

Gamla myndin hafði vissan ógeðfelldan sjarma í ódýra fíling sínum, andrúmslofti og alvarlega flippinu. Hún fór algjörlega eftir sinni eigin „bók“ og í stað þess að koma með ferskari uppfærslu sem aðskilur sig frá nostalgíutengingum hefur hér verið tjösluð saman mynd sem gengur óbeint út á það að vera svipuð forvera sínum, og þarf hún reglulega minna fólk á það hvers vegna hún er klassík. Þetta er fan-service pakki út í eitt (og áður en ég gleymi því, tékkið á stuttu broti eftir kreditlistann) í stað þess að vera traust hryllingsmynd sem á sér eitthvað sjálfstætt líf framundan. Frummyndin, eins og margir vita, var alvarlegri heldur en restin af þríleiknum, en hún fann samt alltaf ákveðinn húmor í því að vera yfirdrifin. Nýju myndinni langar að geta gert það sama en þegar hún er ekki fullupptekin við það að reyna að fríka mann út (sem tekst alls ekki oft því tilraunirnar eru pínlega ágengar) þá reynir hún að kitla skemmdustu hláturtaugar. En í mínu tilfelli flissaði ég oftar yfir senunum sem áttu aldrei að vera fyndnar.

Burtséð frá þessu öllu er ég samt bara ekki nógu ánægður með þennan leikstjóra. Þessi Alvarez-gæi keyrir kvikindið á réttum hraða og kann að stilla upp flottum skotum, búa til „gervi-atmó“ (sem lítur vel út utan frá en nær samt ekki alveg að koma manni í rétta gírinn) en sjaldan tekst honum að gera þessa mynd spennandi eða almennilega hrollvekjandi. Ég festist aldrei við sætisbrúnina því mér fannst ég alltaf vera að fá sömu pirrandi skilaboðin framan í mig: „Sjáðu hvað þetta er ÞVÍLÍKT ógeðslegt!“ Myndin eiginlega skoppar á milli þess að vera þurr og óspennandi vibbaklisja og pyntingarklám. Eflaust væri málið annað ef persónurnar væru eftirminnilegri, því þær eru ekkert annað en kjötsekkir (og með gáfur á við slíka), leikararnir sömuleiðis eða efnið meira grípandi. Myndin er bara blóðug og nastí, þá í raun af engri ástæðu en bara til þess að vera ekkert nema það. Ég veit ekki alveg hvernig leikstjóranum tókst að týna öllu fjörinu en mig langaði innilega í það. Svo mikið.

Evil
Markmiðin eru í rauninni kolvitlaus, eða forgangsröðin á þeim allavega. Nýja Evil Dead heldur að hún sé að gera hlutina rétt en upplifunin verður svo máttlaus og þreytandi þegar aldrei nær að toga mann inn í brjálæðina. Skuggar forverans svífa einnig alltof mikið yfir þessu, sem er viljandi gert, einhverra hluta vegna! Í mínu tilfelli þýddi það bara að mig langaði miklu frekar til að horfa á betri mynd, sem ég hef séð hundrað sinnum áður.

Þakklátur er ég þó að þessi mynd skuli ekki vera metnaðarlaus eða geld að neinu leyti. Jákvæðasti punkturinn er að hún er ófyrirsjáanleg og villt en verst er hvað manni er sama út alla lengdina. Myndin hefði mátt opna sig meira fyrir nýjum hugmyndum og sleppa allri nostalgíunni. Betra er að vera með bæði stórar hreðjar og ímyndunarafl í staðinn fyrir annaðhvort. En fyrst að búið var að bíða svona lengi eftir að endurgera þessa hefðu aðstandendur alveg eins átt að geyma þetta í x langan tíma í viðbót. Það er pínu erfitt að taka svona mynd alvarlega svona stuttu eftir að The Cabin in the Woods girti niður um allan bíógeirann.

fimm
Besta senan:
Sveðjuatriðið var það eina sem gerði mig eitthvað spenntan, en tungukossinn er auðvitað alveg dásemd.

Sammála/ósammála?