Star Trek Into Darkness

Ofsahraði, brelludýrð, sexý leikarar og linsuglampar. Þetta er ekki alveg það sem Gene Roddenberry hafði fyrst í huga en tilbreytingin að fá tvær vel heppnaðar Star Trek myndir í röð þykir mér afar kærkomin, sama hvernig áferðin er eða stíllinn.

J.J. Abrams hefur alltaf verið minni trekkari og meira fyrir geislasverðin. Hann er því í góðri æfingu til að leikstýra sinni eigin Star Wars-mynd þar sem hann er þegar búinn að gera tvær þannig núna, eiginlega óviljandi, bara á kostnað þess að hrista til í sci-fi heimi sem fullt, fullt af fólki er meira annt um heldur en honum. En mikið ósköp er maðurinn flottur í sínu starfi. Ef hann er að gera eitthvað rangt með þetta merki, þá sko gerir hann það með réttum hætti.

Trekkararnir af gamla skólanum eru margir ekkert of æstir í adrenalín-fantasíusprautuna sem Abrams hefur dúndrað í þessa „reboot“ seríu – þar sem reglur gömlu tímalínunnar hafa breyst og gerðar eru áberandi tilraunir til þess að veiða nýja mainstream-aðdáendur sem og kitla þeim gömlu. Ef einhver er neikvæður gagnvart þessu, þá skil ég það vel, án þess að vera endilega sammála því. Mér finnst einmitt ómögulegt að taka ekki hlýlega á móti hasarævintýri með svona geggjaðri íkonógrafíu, eins og einhver hafi sett Star Wars-heila í Star Trek-líkama. Ég skora samt á einhvern Trekkara-leikstjóra seinna meir til að gera ótrúlega hæga Star Wars-mynd um útópíska hugmyndafræði og móralskar deilur. Myndi það ekki jafna hlutina aðeins meira út?

2009-myndin frá Abrams var eitthvað sem þurfti að gerast fyrir þetta merki. Ekki fullkomin en framúrskarandi ef metin sem eingöngu fantasíu-rússíbani með nördakryddinu stráðu yfir. Fyrir utan það að vera með aðeins meiri fortíðarþrá heldur en hin (eitthvað sem getur stuðað suma aðdáendur alveg tryllt mikið) myndi ég kalla Star Trek Into Darkness skólabókadæmi um framhald sem er svipað forvera sínum, samt nógu öðruvísi en á endanum hvorki betra né verra.

Þessi hefur marga kosti sem hin myndin hafði ekki (m.a. meiri söguþráð, meira kaos, meira „myrkur“ (en samt meiri húmor…), betri skúrk o.fl.) og má alveg eins víxla lýsingunni á völdum svæðum. „Trekkið“ er reyndar aðeins meira en hasarinn er sömuleiðis stærri, lífshættan komin á allt annað stig og er séð meira til þess núna en síðast að áhorfandinn sé nægilega oft laminn af klikkaðri fantasíugleði. Væntanlega er það gert til að launa þolinmæðina fyrir „rólegu“ kaflana á meðan hasarinn hleður í sig rafmagn.

Það er samt skrýtið hvað myndin nær að pumpa miklu adrenalíni í mann í en síðan á lokametrunum ákveður hún bara allt í einu að hætta, í miðjum hágír, eins og hún hafi verið á þrotum með tíma. Maður er svo trekktur upp af aksjóni, tilbúinn fyrir allan fjanda, og svo kemur þessi einkennilega anti-climax tilfinning, sem er dálítið stökk niður frá hér um bil gallalausu keyrslu fyrri myndarinnar. Um þessar mundir eru annars fáir betri en Abrams í því að skína ljósum framan í mann og rampa upp hraðann í hvert sinn sem handritsgallar verða of augljósir eða hausinn byrjar að púsla lógíkina of mikið saman. Þess vegna líður mér stundum eins og ketti að elta laser-bendil þegar ég horfi á þessa(r) mynd(ir). Það er góður hlutur.

Eins og seinast er það handritið sem rígheldur ekki alveg (en kemur það á óvart þegar Damon Lindelof setur puttana í eitthvað?) og þeir sem grandskoða plottið eru ekki lengi að finna holur því. Það er samt orðið voða týpískt núna að þegar Alex Kurtzman & Bob Orci skrifa handrit þá reiða þeir heilmikið á tilviljanakenndar reddingar eða Deus Ex Machina-lausnir, eins og þeir haldi í alvörunni að enginn taki eftir því. Þetta endurtekur sig stundum en lukkulega ekki nógu oft til að verða of stórt vandamál. En Star Trek Into Darkness hefur sem betur fer allan áhuga á (aðal)persónum sínum og dramanu, eða eins mikinn áhuga og tímaramminn hefur pláss fyrir.

Tölvuvinnan og tilheyrandi ljósasýning er algerlega frábær, sem segir sig svolítið sjálft. Orka myndarinnar heldur henni allan tímann uppi. Hér er aðeins lengra bil á milli hasarsins almennt en í staðinn kemur lítið plott sem fær betur að anda í gegnum meira grípandi illmenni. Leikstjórinn er annars með allan huga að því sem hann gerir en hann fær einnig mikla hjálp frá leikurum sínum, sem væru alveg nógu góðir til að lýsa upp skjáinn ef leikstjórinn gerði það ekki fyrir þá.

Benedict Cumberbatch (köllum hann bara „Cumby“) er soddan gull af manni, með þetta stingandi augnaráð sitt og barítónrödd sem lætur mann næstum því hanga á hverju orði hans. Dóminerandi nærvera hans er óumdeild og eitraða hefndarvíman (sem er alltaf jafn vinsæl) kemur manni beint inn í hausinn á honum. Túlkun hans er einföld en tjáningar leikrænar en líka svo lágstemmdar. Það er eðlilegt að þegar Cumby er ráðinn í eitthvað – sérstaklega sem illmenni – er þá nokkuð bókað að allir aðrir leikarar hverfa í skuggann á honum. Augljóslega eru leikararnir hér talsvert margir, flest allir hrikalega góðir, en Cumby jarðar þá, eða svo gott sem.

Zachary Quinto og Chris Pine smellpassa áfram, saman og í sitthvoru lagi. Einkenni þeirra eru þau sömu og síðast en á hærra þrepi og báðir bætt á sig tilfinningalega þyngd. Aukaleikararnir nýtast misvel og er meira komið fram við þá eins og aksjón-persónur heldur en þrívíða áhöfn. Flestir fá sín litlu móment en aðilar eins og Karl Urban, John Cho og Anton Yelchin eru því miður lítið nema stuðningsmenn á bekk. Zoe Saldana er fögur og fín að vanda en glaðlega hefði ég skipt henni út fyrir Urban, sem er miklu skemmtilegri karakter. Simon Pegg fær töluvert meira að gera núna en síðast (kannski aðeins of mikið…) og var ég nokkuð sáttur með að fá Peter Weller inn í þennan hóp til að gera heilmikið úr litlu, óspennandi hlutverki. Hin dúndurfallega Alice Eve er sömuleiðis hin prýðilegasta viðbót, án þess að það komi því við að hún hendi sér aðeins úr fötunum, af engri ástæðu, í mjög einkennilegu – og reyndar frekar vandræðalegu – innskoti. Leikkonan hækkar samt alltaf aðeins meira í áliti. Ég er óhuggulega skotinn í henni.

Sama hvernig nýtingin er á mannskapnum er ótrúlega gaman að vera í kringum þessa „nýju“ karaktera aftur, og flestir eru áfram í takt við fyrirmyndir sínar. Kunnuglegi bragurinn úr fyrstu myndinni gerir það auðvelt fyrir mann að detta aftur inn í heiminn þótt andinn sé breyttur örlítið, eins og sést best á titlinum. Búningar og sviðshönnun er til fyrirmyndar, sem fyrr. Michael Giacchino-músíkin hjálpar líka senunum alveg að fljúga og stækkar epíkina. Yndislegt er líka að heyra kunnuglegu tónanna aftur og í kjölfarið byrjar heilinn byrjar strax að raula með orkestrunni, trúlega því ég hef oft glápt á fyrri myndina á þessu fjögurra ára bili. Kannski gerist það sama með þessa.

Star Trek Into Darkness ætlast til þess að áhorfendur spenni beltin sín og taki þotureið inn í kraftmikinn geimhasar, með reglulegum plott-pásum og örlitlu drama til þess að lætin séu öll þess virði. Þeir sem eru lítið inni í Trekkinu eru alveg jafnlíklegir til þess að njóta sín í botn og þeir aðdáendur með opinn huga. Eins og allir í vetrabrautinni er ég forvitnilega spenntur að sjá hvað Abrams gerir með Star Wars. Hann skilur samt við Trek-heiminn á sterkum nótum og hlakka ég sömuleiðis til að sjá hvert þessi nýja sería stefnir héðan í frá…

atta

Besta senan:
Alice Eve öskrar. Giskið af hverju.

Sammála/ósammála?