Furious 6

Ég vænti þess ekki að það sé að biðja um of mikið að fá aðra mynd sem er álíka „góð“ og Fast Five, en varðandi Furious 6 er ég aðallega bara sáttur að hafa ekki fengið enn meira af sömu meðalmennskunni og einkenndi hinar fjórar. Blessunarlega er hún allt sem hún lofar: hröð, klikkuð og (oftast) þægilega meðvituð um eigin hallærisleika. Svo er líka skriðdreki í henni!

Með hverju innslagi hefur þessi sería gáfulega ákveðið að verða sífellt heimskari og heimskari, en Furious 6 sannar það að forveri sinn hafi ekki bara verið einhver stormur í bjórglasi. Hér höfum við minna drama (jei!), meira straightforward keyrslu ásamt söguþræði sem skiptir nákvæmlega engu máli. Myndin tekur faðmandi á móti absúrdleika sínum með skemmtilegum og mátulega kjánalegum hætti og þrepar sig upp á svo aulalegar hæðir til að toppa sig, sem olli því að ég komst ekki hjá því að festast í þessu fjúríus-fjöri. Hraðinn er stöðugur, hvíldartíminn styttri og er eiginlega séð grimmt til þess að sé meiri kraftur í kaótíkinni en í hinum myndunum. Lógík, hvað er það?


Leikstjórinn Justin Lin kemur er alltaf í betri æfingu með hverri lotu, og það að hann skuli hafa tekið að sér þrjár (hvað þá fjórar!) myndir í þessari seríu mun ég aldrei skilja. Hann fór ekkert sérlega vel af stað en viljinn til að halda áfram og gera betur hefur tvímælalaust bjargað þessu merki. Lin gæti léttilega gert sterkari hasarmyndir á eigin spýtum ef honum væri ekki alveg svona sama um innihald. Það hefur aldrei verið í boði í þessum Fast & Furious myndum vegna þess að fólkið sem elskar þær hefur engan áhuga á því sem gerir góða kvikmynd.

Stefnurnar eiga til að breytast en sömu reglur gilda; þetta snýst allt um sexí útlit og spyrnukagga,og hvaða plott eða tilheyrandi landslag sem fylgir með er yfirleitt aukaatriði. Allt annað meðlæti er eins konar bónus, eins og sápuóperudrama, sveitt „brómantík,“ stuttir fyrirlestrar um fjölskyldubönd og steruð skallakarlmennska. Enn er ég að melta hugsunina um hversu auðveldlega Dwayne Johnson tekst að láta Vin Diesel líta út eins og Paul Walker í samanburði við sig. Þessar æðar njóta sín best í háskerpu.

Lykilinn að afþreyingargildinu er að finna í gegnum þessa trylltu stigmögnun, og einhverra hluta vegna hafa helstu persónurnar þróast úr glæpamönnum með bíladellu í nokkurs konar ofurhetjur, m.a.s. núna komnar með það markmið að bjarga heiminum (!!). Þvælan er óumdeild, en það getur líka oft verið góður hlutur. Tónninn er eitthvað svo frábær og má bæði hlæja að og með honum. Ég hef líka einstaklega gaman af því að sjá hvað Johnson, Diesel og Walker taka sig alvarlega. Þetta er gott teymi, en Kletturinn stelur senunni án þess að hann þurfi nokkuð að reyna.

Mannskapurinn almennt heldur uppi mjög miklu lífi þegar vélarnar eru ekki í gangi. Þeir sem geta ekkert leikið bæta það yfirleitt upp með útliti sínu, kjafti eða húmor. Allir eru fljótir að henda sér aftur í gömlu skóna og samspil grúppunnar svínvirkar. Kannski er maður líka bara orðinn svona vanur þeim, en það er ekki verra. Luke Evans er samt voða dapur sem illmennið sem allir eru stöðugt að hæpa upp í myndinni, en í staðinn kemur þá Gina Carano, til sinna því sem hún gerir best á skjánum. Og þökk sé Michelle Rodriguez er loksins kominn alvöru stelpuslagur. Og var ég búinn að minnast á skriðdrekann? Ekki Dwayne, heldur hinn.

Það er enginn að fara að neita því að Fast & Furious serían er ekki beinlínis gerð fyrir skarpasta markhópinn. Annars væri ekki verið að brýna svona stíft fyrir áhorfendum í lokin að vinsamlegast apa ekki eftir lífshættulegu áhættuatriðunum. Hugsunin um töluna á öllu „fullorðna“ fólkinu með ökuskírteini, sem er líklegast til að hundsa þessi skilaboð, er mjög hræðandi. Eflaust er þetta sami hópur og sagði að Drive væri ótrúlega leiðinleg. Ekki sá ég neina disclaimer-a þar.

Þessi sería má samt eiga eitt: hún er svakalega hlynnt aðdáendum sínum, og á sama tíma mjög gefandi fyrir þá því ofar sem talan nær. Furious 6 vísar mikið í fyrri myndirnar, sem unnendur fá mikið kikk út úr. Sjálfur er ég hrifinn af hugmyndinni að linka allar þessar myndir meira saman, burtséð frá gæðasveiflunum. Vandamálið er að handritshöfundurinn hefur augljóslega ekki hugsað hlutina betur út fyrirfram, og það sést að hann er að reyna að hnýta alla hnúta eins og allt sé eðlilegt. Hins vegar gef ég myndunum plússtig fyrir að reyna í það minnsta að halda utan um continuity-ið, sem er meira en margar aðrar hasarseríur geta sagt.

Ég diggaði sömuleiðis kredit-intróið í byrjuninni, sem er samsett úr alls konar bútum og peningaskotum úr hinum myndunum. Pínu, jú, kjánalegt en þetta sýnir frábærlega hversu langt þessi sería er komin (og aukasenan alveg í lokin gefur ánægjulegt merki um hvert hún stefnir næst). Enginn bjóst við því þegar þetta byrjaði árið 2001 að þetta merki myndi nokkurn tímann klifra svona hátt, svona ánægjulega.

Hasar- og áhættuatriðin eru bandbrjálæðislega vel sett saman, fyrir utan nokkur ósannfærandi brelluskot, og fjölbreytni er nógu mikil til að senurnar klessist ekki í eina minningu að sýningu lokinni. Ég set að vísu spurningarmerki við það hvort hasarinn gangi ekki aðeins of kæruleysislega yfir heilaheftu línuna í lokaatriðunum (hversu stór var þessi helvítis flugbraut eiginlega??). Ég er einhvers staðar mitt á milli þess að hafa notið mín eins og smástelpa og ranghvolft augunum yfir megninu. Túrbógírinn er kominn þarna í botn en það er munur að gefa skít í eðlisfræðilögmál með bros á vör og snúa síðan að einhverju sem kemur út eins og sjálfs-paródía. Það getur verið pínu vont að fá hausverk eftir að maður er búinn að skilja heilann eftir við dyrnar.

Myndin hefur nokkur einföld markmið í huga en að gefa fólkinu nákvæmlega það sem það vill hefur greinilega allan forgang, sama hversu fötluð hún er. Þetta er samt komið á þann stað að menn eru að rífa kjaft við vegg ef þeir setja út á allt þetta heilalausa, eins viðbjóðslega freistandi og það er. En í þessu tilfelli gildir sú staðreynd að því heimskari sem ræman er, því meira eldsneyti fær hún.

Fast Five skarar enn fram úr, en Furious 6 er ekki langt á eftir henni. Það segir sig kannski sjálft en þessa mynd á að sjá stóra og með miklum hávaða.

thessi

Besta senan:
Ömm. Skriðdrekinn. Verst hversu asnalega atriðið endar.

Sammála/ósammála?