Mama

Mig langaði rosalega til að líka betur við Mama, á tímapunkti barðist ég fyrir því (segjum það bara), en það sem ég fékk út úr henni eftir að hún kláraðist var ákveðinn pirringur; þessi sem maður fær þegar pínu frumleg og stílísk bíómynd tekst einhvern veginn að missa marks á sviðunum skipta mestu máli og misstíga sig enn meira með gölluðu handriti. Og varla eru það skárri fréttir þegar um hrollvekju er að ræða.

Það er margt til að meta við Mama, sem er nokkuð sjálfsagt, annars væri enginn tilgangur fyrir Guillermo del Toro að merkja hana með nafni sínu sem framleiðandi. Aðdáendur hans, sem sækjast ekki í þessa mynd af neinni annarri ástæðu en vegna þátttöku hans, eiga samt eitthvað betra – eða í það minnsta óhuggulegra – skilið. Þetta gæti samt verið umdeild skoðun, og þeir sem horfa ekki mikið á hrollvekjur fá örugglega talsvert meira út úr henni en vanari menn.

Í burðarhlutverki myndarinnar er andrúmsloftið, sem del Toro hefur klárlega verið með puttana aðeins í. Kvikmyndataka og lýsing er nánast til fyrirmyndar, sem augljóslega sýnir að metnaðinn vantar ekki, og aðstandendum er mjög greinilega annt um þessa sögu. Það sem aftur á móti hræðir þá, og sérstaklega leikstjórann, virðist ekki vera það sama og hræðir mig. Ég sat bara með þreytulegan svip út lengdina – án þess að vera þreyttur – og geispaði inn á milli, bíðandi eftir almennilegum drunga (sem og spennu eða tilfinningalegri tengingu). Ég fékk bara hugmyndalausar bregður, sem betur fer ekki í ofnotuðu magni, og titildraugurinn í myndinni er þar að auki eyðilagður með ljótum tölvubrellum. Það er þvílíkt truflandi og þ.a.l. virkar maníska mamman aldrei eins og hún á að gera.

Myndin notar reyndar eitthvað af praktískum brellum og titilfígúran er í rauninni leikin af viðbjóðslega mjóum, spænskum karlmanni að nafni Javier Botet (þeim sama og lék ógeðið Medeiros í Rec-myndunum). Reyndar skil ég ekki af hverju leikstjórinn gat ekki bara gert meira úr leikaranum og förðuninni í stað þess að mála ofan í hann asnalegt CG-brellulúkk, sem oft gefur upp þá röngu mynd að kvikindið hafi verið alfarið búið til úr pixlum. Hönnunin kemur samt ágætlega út og baksagan er nægilega grimm til að gera þetta ekki að algjörum feil, en með betri meðhöndlun hefði þetta getað orðið virkilega öflug og áhrifarík sköpun. Ég kenni líka þessum leikstjóra um að skemma dulúðina alveg með því að leyfa þessum ógeðfellda anda að éta upp alltof mikinn skjátíma. Ýkta dýrahegðun barnanna truflaði mig meira en þessi „Mama.“

Ef ég læt umræðuna um brellurnar aðeins í friði get ég algjörlega sagt að myndin byrji ferlega vel. Upphafsatriðið grípur í smátíma en ekki löngu eftir það byrjar myndin að reyna svolítið á trúverðugleikann, sjaldan en samt einum of oft. Þetta er algjörlega óskylt yfirnáttúrulega þættinum, því hann er alls ekki neitt vandamál (myndin byrjar líka með orðunum „Once upon a time…“ – stórt merki um að þetta eigi að vera dimmt fantasíuævintýri). Öllu heldur er það hvernig t.d. ýmsar ljótar aðstæður hafa óvenjulega mild áhrif á líkama eða geðheilsu persónanna. Del Toro hefði líka hiklaust átt að senda þetta handrit í aðra fínpússun.

Fyrir utan nokkrar heimskar ákvarðanir (klassískt!) koma persónurnar þokkalega út og leikararnir eru mun betri heldur en þykir algengt í svona myndum. Ég hef ekkert út á hina ávallt áhugasömu Jessicu Chastain að setja, né Kingslayerinn Nicolaj Coster-Waldau og heldur ekki litlu stelpurnar tvær. Eðlilega vonast maður eftir því að þurfa ekki að gnísta tönnum þegar börn eru í lykilhlutverkum og hér gerðist það aldrei, langt í frá. Það hversu góðir leikararnir eru gerir það heildarniðurstöðuna þeim mun meira frústrerandi þegar klisjum fer fjölgandi í handriti sem lofaði fyrst svo góðu.

Fyrir utan ánægjulegar undantekningar er voða lítið í þessari atburðarás sem fer ekki eftir númerum eða klisjum (þurfti geðlæknirinn endilega að vera svona svakalegur formúlukarakter??), og seinustu kaflarnir þótti mér einstaklega slakir og bjánalegir. Það er reyndar eðlilegt að manni líði þannig þegar hrollurinn (ekki kjánahrollur, heldur alvöru…) myndast í svona takmörkuðum skammti á mikilvægum stundum (annað en hinn hrollurinn). Ekkert of ólíkt því að horfa á söngleiki með hljóðið stillt á Mute; þó þeir gætu verið flottir er áhorfið er sama og gagnslaust ef maður fær ekki það sem var borgað fyrir.

Það er of margt jákvætt við Mama til að afskrifa hana sem einhverja ómerkilega hrollvekju. Fyrir hvert skref áfram tekur hún eitt skref aftur, og þess vegna er hún hvorki góð né slæm á endanum. Segjum þetta í sameiningu: Meh!

fimm

Besta senan:
Byrjunin.

Sammála/ósammála?