Before Sunset

Hér er eitthvað sem ég kann alltaf að meta: litlar framhaldsmyndir sem gerðar eru af eldmóði til að segja nýja sögu og þróa góða karaktera. Framhaldsmyndir sem eru ekki gerðar af peningagræðgi heldur umhyggju aðstandenda.

Before Sunrise var ekki mynd sem beinlínis öskraði á framhald (og það bað enginn um svoleiðis heldur), þvert á móti fullkomin eins og hún var, en sjálfur Richard Linklater ákvað með stjörnum sínum, Ethan Hawke og Julie Delpy, að hægt væri kannski að bæta einhverju við hana, 9 árum síðar. Ekki kjarkalaus ákvörðun en þremenningarnir vissu hvað þeir voru að gera og allt blessaðist að lokum, kannski aðeins of vel því einhvern veginn tókst þeim að gera aðeins betra eintak. En sömu fyrirmæli gilda samt; þeir sem meikuðu ekki skjaldbökuhraðann á fyrri myndinni og fannst hún of viðburðarlítil eða leiðinleg bregðast pottþétt eins við Before Sunset. En ef maður er í hinum hópnum þá tekur ekki langan tíma að laðast beint að henni.

Þetta er fyrirmyndar framhaldsmynd að mínu mati. Hún er nógu svipuð forveranum til að gefa manni tilfinningu eins og hér sé kominn nýr kafli í „stærri sögu,“ en samt er hún eins ólík honum og hún þarf að vera til að forðast endurtekningar og þ.a.l. svíkja aðdáendur (og, nota bene, aðdáendur Before Sunrise er vanalega taldir vera með vit í kollinum). Fyrri myndin var meira samansafn af mómentum – á fullt af stöðum, stöku sinnum með „aukapersónum“ – á meðan þessi segir sögu sína í rauntíma – á miklu færri stöðum og með varla annað fólk í augsýn – og grípur mann þess vegna á allt öðruvísi máta en hin gerði. Báðar tvær eru samt svo gott sem gallalausar, ef maður lætur fríkuðu smámunasemina aðeins í friði og metur þetta undir þeim forsendum sem á að gera.

Myndin stendur alveg ein og sér, en sá sem hendir sér í þessa án þess að hafa séð Sunrise er að svíkja sjálfan sig undan áhorfi sem er tífalt meira gefandi. Helmingurinn af sjarmanum liggur í endurkynnunum við þau Jesse og Celine, sem í minni bók eru eitt gallaðasta, mannlegasta og elskulegasta bíópar kvikmyndasögunnar, væntanlega því það er ekkert voða bíómyndalegt við þetta par. Ég elska realismann í Linklater-myndum en það er bara eitthvað svo extra sérstakt við hann í Before-tvennunni. Sunset er mögnuð stúdering á lífi, tilfinningum, væntingum og eftirsjá eðlilegs fólks. Það er rómantískt bein í sögunni, en ekki eins mikið og síðast, en á móti því er komið aðeins meira raunsæi, meiri þroski (nokkuð gefið, ekki satt?) en hjartakætandi krúttleikinn er samt alltaf undirliggjandi.

Delpy og Hawke (sem eiga einnig þátt í handritinu að þessu sinni) hafa engu gleymt þegar kemur að þessum persónum, og það sést langar leiðir að þau gefa þessum hlutverkum heilmikið af sjálfum sér, sem er e.t.v. ein ástæðan af hverju myndirnar eru svona trúverðugar, einlægar og ánægjulegar. Engin tilgerð, bara pælingar sem maður kannast sjálfur við, tjáningar, samskipti og stórar, persónulegar spurningar. Að festa sannleikann svona vel á filmu með tilheyrandi sjarma er eitthvað sem ég tel vera einstaklega stórt afrek, og þá með svona lítilli mynd.

Mér finnst ekki ósanngjarnt að líkja Before Sunset við raunsæja, rómantíska útgáfu af lágstemmdri „spennumynd,“ en þar byggist umrædd spenna á sífelldri dýpkun samræða í gegnum léttar og alvarlegar umræður, þar sem persónurnar tvær verða stöðugt berskjaldaðri, og rauntímakeyrslan ýtir rosalega undir þennan fíling. Þetta er ekkert alltof ólíkt hinni vanmetnu Tape, sem Linklater gerði árið 2001, nema þessi mynd er bjartari og rennslið betra. Þessar 80 mínútur renna hjá eins og ekkert sé. Sem áhorfandi (eða réttara sagt, fluga á vegg/krípí njósnari) hékk ég á hverri einustu setningu hjá Celine og Jesse og dýrka hversu djúpt persónusköpunin ristir (sem er óhjákvæmilegt þegar persónur tala um sjálfa sig í einn og hálfan tíma) og hversu gallalaus samleikurinn er hjá Delpy og Hawke. Tengingin á milli þeirra er ekkert síður ómótstæðileg hér en í seinustu lotu, bara á öðruvísi hátt.

Jesse og Celine eru allt aðrar manneskjur núna en fyrir 9 árum síðan (og nei, atriði þeirra í Waking Life telst varla með), en ekki bara vegna þess að þau eru tæpum áratugi eldri. Nú eru þau bæði komin á fertugsaldurinn og lifa enn talsvert í fortíðinni, í huganum allavega. Á kostnað hvers var þessi eina magnaða nótt? eða sambandsleysið eftirá?

Eftir óaðfinnanlegu stundirnar saman tókst parinu ekki að mæla sér mót aftur eins og það ætlaði sér. Til að viðhalda ákveðnum örlagartöfrum skildu hvorki Celine né Jesse eftir símanúmer, fullt nafn eða heimilisfang (jebb, svona voru tímarnir erfiðir á undan Facebook!). Árin liðu hjá og ekkert gerðist.

Þessi saga tekur upp þráðinn eftir að Jesse ákveður að skrifa „skáldsögu“ byggða á þessari kæru nótt í Vínarborg, með sterkri áherslu á tengingu tveggja ókunnugra. Celine kannast að sjálfsögðu við plottlýsinguna og nær að hitta á hann í miðri bókakynningu í París, stuttu áður en hann þarf að ná fluginu sínu heim. Skyndilega eru þau mætt aftur, með tonn af ósvöruðum spurningum og flæktum, földum tilfinningum á bakvið brosin. Þetta hefst sem kurteis og krúttlegur kunningjahittingur en fer fljótlega að því að verða að einhverju nánara og þýðingarmeira. Nú fá þau loksins ákveðið niðurlag en hvernig hlutirnir enda nú er stærri og e.t.v. flóknari spurning eins og staðan er á lífi þeirra í dag.

Samtölin virðast aldrei vera of æfð og leikstjórinn lætur allt bíókrydd í friði, svo sem músík í miðjum samræðum eða stílföndur. Leikararnir tveir labba bara, spjalla, daðra og rífast – sem fyrr, nú í huggulegu Parísarumhverfi, eins og hvorugt þeirra sé vart við vélina, eða ósýnilega áhorfandann sem er staddur beint fyrir framan þá. Leikararnir ná samt líka svo yndislega vel saman og mest í gegnum lúmska takta, t.d. með líkamstjáningum eða földum undirtónum sem selja kemistríuna best, líka hvernig þau horfa á hvort annað (og sérstaklega hvernig þau horfa stundum ekki á hvort annað). Báðar myndirnar eru svolítið duglegar að kanna það hvort áhorfandinn sé svartsýnn eða rómantískur í sér. En þeir/þær sem eru með eðlilegar hjartarætur geta varla komist í gegnum Sunset án þess að vonast til að parið drattist til að læsa saman vörum, en veruleikinn er alltaf góður í að hindra aðeins fyrir. Þess vegna er myndin svo fáránlega spennandi!

Umræðurnar á milli Jesse og Celine eru allar áhugaverðar, stöku sinnum djúpar en almennt verulega… tja… svona „fullorðins.“ Óneitanlega er þessi svartsýnni en fyrri myndin, sem endurspeglar persónuleika parsins og hvernig fjarveran og ómetanlega minning þeirra saman litaði skoðanir þeirra á nánd með öðrum einstaklingum. En fókusinn er alltaf beinn og magnast þetta ágæta rölt að dásamlegum litlum endi sem ég get ekki annað en kallað andstyggilega fullnægjandi.

Before-myndirnar eru náttúrulega eins anti-Hollywood og hægt er að afgreiða ástarsögur (eða sögu um ástir… sem og lífið, tilveruna, sambönd, heiminn, samskipti kynjanna – ALLT!), með svona mikilli bangsahlýju að auki. Mér finnst frekar erfitt að lýsa nákvæmlega þeirri tilfinningu sem ég hef fengið eftir þessar myndir, en hún er eins og besta meðal í sálina. Hugmyndin að nýta árin og hlaða meiri reynsludýpt í persónurnar er það sem gerir þennan hitting töluvert bragðmeiri. Áhorfandinn fylgist ítarlega með Jesse og Celine hægt og rólega afhjúpa stöðu lífs síns í dag og nokkrar staðreyndir, sem bíta mann stöku sinnum með köldum veruleika.

Einföld uppsetning, flókið handrit undir yfirborðinu en ofsalega náin og frábærlega hreinskilin mynd yfir heildina. Hefði Sunset mistekist hjá Linklater og dúóinu hefði þá verið auðvelt að skemma fyrri myndina (endi hennar og töfra) talsvert fyrir manni, en þau greinilega gerðu hana á hárréttum stað í lífinu, með hárréttu hugarfari. Báðar myndirnar eru dýrindislegar á sinn hátt en ég er aðeins hrifnari af flæðinu í þessari, tilfinningasveiflunum og sérstaklega endinum, sem gæti ekki passað betur. Linklater hefur alltaf verið afskaplega góður leikstjóri að mínu mati en þessum myndum má hann alltaf vera stoltastur af. Þetta eru of stórir æði-bitar fyrir einn munn…

meistaraverkBesta senan:
Ég veit…

Sammála/ósammála?