The Hangover Part III

Ég þoli ekki þegar glæpsamleg græðgi bíóframleiðenda hefur áhrif á sakleysingja, þó rök megi alveg færa fyrir því að áhorfendur sem borga til þess að sjá The Hangover Part III geti varla verið annað en samsekir upp úr þessu. Freistingin er alveg skiljanleg þar sem myndin lofar að gera eitthvað nýtt í þetta skiptið, en þeir sem brenndu sig á seinustu mynd geta alveg eins bara horft á trailerinn fyrir þessa þriðju og svo bara kallað það gott.

Það er orðið nokkuð ljóst núna að hugmyndasafinn kláraðist allur eftir fyrstu lotuna. Skyndifrægð fyrstu Hangover-myndarinnar og orðsporið fyrir að vera ein alfyndnasta gamanmynd síðustu ára (fullyrðing sem ég hef aldrei náð að taka undir) hefur greinilega haft spillandi áhrif á aðstandendur og gefið þeim alltof hátt egó.

Þó svo að fyrri myndin verði að mínu mati ofmetnari með hverju ári þá er a.m.k. hægt að horfa á hana með glotti og sjá að menn höfðu áhuga að gera eitthvað sniðugt og fyndið. Upp að þessum degi skil ég ekki ennþá hvernig The Hangover Part II gat verið gefin út í sinni núverandi mynd, og ennþá síður hversu margir létu blekkja sig á hana. Enn gretti ég mig furðulega þegar ég hitti manneskju sem fannst hún vera í alvörunni góð, eða lét það a.m.k. ekki bögga sig neitt að formúlan hennar hafi byggst á CTRL+C og CTRL+V. Við áttum öll betra skilið, og það sama gildir um þessa.

Maður vill geta hlegið án þess að skammast sín, oft og mikið, yfir Hangover-framhaldi, þótt það sé að biðja um mikið, en í staðinn er það skjárinn sem hlær að manni allan tímann. Þriðja myndin er lítið skárri en sú seinasta. Strúktúrinn og framvindan í henni er ekki eins móðgandi, en brandaramagnið virðist vera minna, hugmyndaleysi er áfram ríkjandi og söguþráðurinn þykist stefna eitthvað en í rauninni er eins og myndin hafi ekki hugmynd um hvert hún ætlar.

Myndin sóar verðmætum tíma í óeftirminnilegan ærslagang, vannýtta aukaleikara og brandara sem eru m.a. illa tímasettir, þreyttir, glataðir, týndir eða bara leiðinlegir. Það er of mikið að gerast í annars röskri atburðarás til að ég geti kallað myndina sjálfa leiðinlega (líklegast því maður bíður alltaf og vonast eftir góðum brandara!). Óhjákvæmilega eru nokkrir sprettir sem hitta í mark (kredit-bónusinn og atriðin í Vegas standa mest upp úr), en alls ekki nógu sterkir til að skemmtanagildinu sé reddað. Engan veginn. Heildarpakkinn er merkilega heiladauður, sjálfumglaður og laus við allan metnað eða áhuga. Jú reyndar, áhuginn fyrir sjálfsögðum gróða er gegnsærri en þykktin á plottinu sem á ekki að skipta máli, en gerir það samt.

The Hangover Part III þykist vera ótrúlega fyndin, en kemur samt út eins og hún sé ekkert að sækjast í það að varpa hláturssprengjum yfir á áhorfandann – sem ég hélt einmitt að svona sería ætti akkúrat að snúast um. Yfirleitt á maður að taka vel í stefnubreytingar en það er svolítið annað þegar markhópurinn býst við sveittri og sukkandi gamanmynd og fær í staðinn kómíska glæpamynd, með undarlega alvarlegum tón, sem setur einhæfustu persónu seríunnar (alltof mikið) í sviðsljósið, meira svo heldur en áður.

Zach Galifinakis sér næstum því alfarið um húmorinn í þessari mynd, ásamt Ken JeongBradley Cooper og Ed Helms eru áfram góðir en fastir í endurtekningum og Justin Bartha lætur enn og aftur plata sig í það að fá ekkert til að gera. Það að Galifinakis og Jeong fái mestu athyglina eru alls ekki góð tíðindi þegar handritið er svona aumt. Báðir mennirnir eru skemmtilegir þegar þeir eru með eitthvað fyndið í höndunum, en þegar svo er ekki, þá eru þeir ofsalega pirrandi. Jeong virkaði rétt svo sem aukapersóna hér áður en sem drifkraftur plottsins er hann ónýt uppfinning. Aldrei leit ég heldur á karakterinn Alan sem einhvern snilling hér áður, aðallega vegna þess að hann er endalaust ofnotaður á skjánum. Stundum á hann sín augnablik en í Part III var ég orðinn ansi hreint leiður á honum. Um leið og myndin byrjar að koma fram við þennan trúð eins og ekta, sympatíska persónu þá líkar mér enn verr við hana. Lágpunktarnir eru fullmargir fyrir einn mann sem ég á að halda með, og upp á!

Þroskastig brandaranna nær rétt svo yfir táningaaldurinn og góðu djókarnir koma aðallega frá viðbrögðum leikaranna frekar en handritinu, sem var dauðadæmt strax frá byrjun, eða um leið og Craig Mazin var ráðinn aftur til að „penna“ þessi þunnildi með leikstjóranum. Saman (ásamt einum öðrum) skrifuðu þeir Part II, og eins og það sé ekki nógu erfitt að þrífa þann blett úr ferilskránni þá er hún þegar orðin svo flekkótt og þ.a.l. óviðbjargandi. Mazin er t.d. að hluta til ábyrgur fyrir „grínmyndir“ á borð við RocketmanSenseless,Scary Movie 3-4Superhero Movie og nýlega Identity Thief. Hann er sumsé atvinnumaður í því að semja brandara fyrir hálfvita. Djobbinu er vel sinnt. Þeir sem eru hrifnir af þessum titlum geta gleymt því að taka mark á mínum orðum. Þetta gæti vel verið ein besta mynd ársins að þeirra mati.

Það verður erfitt að líta aftur á fyrstu myndina í framtíðinni vegna þess að 2/3 hlutar í þessum letilega „þríleik“ eru búnir að sverta fína nafn hennar. The Hangover Part III er enginn horbjóður en hún og allir sem standa á bakvið hana eiga að vita betur. Leikstjórinn heldur í þá hefð að nota fína músík og leikur sér endalaust með uppsetningar og liti í myndatökunni. Myndin lítur svakalega vel út en að eyða peningum í ófyndna Hangover-mynd til að dást að skotum er álíka gagnlegt og að horfa Fast & Furious mynd til þess að skima eftir feitu fólki. Það eru til betri og fyndnari hlutir í þessum heimi. Þriðja þynnkan er meira óþolandi heldur en óbærileg. Þeir sem hlæja mest að henni eru annaðhvort þeir sem eru ekki nógu gamlir til að mega upplifa einhverja tröllaþynnku sjálfir eða þeir sem upplifa hana kannski aðeins of oft.

fjarki

Besta senan:
Af þaki yfir í hótelherbergi.

Sammála/ósammála?