Before Midnight

Sennilega hefði tekið sinn tíma að fyrirgefa Richard Linklater og dúóinu hans ef tekist hefði að klúðra þessu framhaldi sem engin þörf voru á. Reyndar voru heldur ekki þörf á seinustu mynd þangað til maður sá hvernig hún kom út og sú saga endurtekur sig tvímælalaust með þeirri þriðju.

Þessar myndir virðast bara verða betri með aldrinum, og greinilega númerum. Þær eru allar nokkuð ólíkar en haldast samt meira eða minna eins, sem er í rauninni ekkert langt frá því sem Before Midnight hefur að segja um manneskjur yfirhöfuð. Við breytumst með aldrinum en verðum alltaf þau sömu undir yfirborðinu sama hvað. Eðlilega er þetta allra þroskaðasta myndin í þríleiknum en nálgunin á efninu er aðeins „dekkri,“ e.t.v. andlega sársaukafyllri en einnig meira gefandi í sjarmanum á móti.

Á þessum 18 árum hafa Linklater, Ethan Hawke og Julie Delpy mótað eitthvað óendanlega sérstakt og lífsbætandi en vissulega fylgir það líka með að segja fólki að varast þessa mynd ef það þolir illa bíó sem byggist eingöngu á samtölum. Það horfa ekki allir á kvikmyndir til þess að lifa sig inn í hversdagsleikann.

Before-Midnight-2

Sem fyrr skolast yfir mann þessi æðislegi fílingur þar sem manni líður ekki eins og maður sé að horfa á hefðbundna kvikmynd, öllu heldur áhugavert, orðheppið, krúttlegt, gallað en eðlilegt par sem stendur á tímamótum í sambandi sínu, og þar af leiðandi lífinu. Þau Jesse (Hawke) og Celine (Delpy) renna í sameiningu yfir fortíðina, nútíðina og huga að því sem koma skal á meðan stóru spurningarnar brenna á vörum þeirra. Eru bestu dagar þeirra að baki? Er þrasið komið á eitthvað tímabært stig? Fylgja einhver eftirsjá? kannski einhver leyndarmál? Sigrar ævintýralega rómantíkin á endanum eða er aðskilnaður óhjákvæmilegur? Allt mjög normal og kuldalega raunsæjar pælingar en ástarsagan í heild sinni tapar aldrei markmiðinu, þrátt fyrir brútal hraðahindranir. „Honeymoon“ stigið endist aldrei að eilífu, fórnir og málamiðlanir álíka sjálfsagðar og neikvæðu sveiflurnar. Og í þessu er ekki snefill af gervilegri bíódramatík til staðar. Aldrei.

Strúktúrinn á Midnight er hálfpartinn eins og sameining á kaflaskiptingunni í Sunrise og rauntímaflæðinu í Sunset. Öll myndin er þó ekki nema fjórar langar senur (sem oft innihalda mjög langar tökur) sem brotnar eru upp í mjög auðgreinanlega „kafla“ sem hafa allir nóg að segja. Þeir eru allir grípandi en atriðin í bílnum og á hótelinu bera hiklaust af auk þýðingarmiklum samræðum margra persóna við eitt matarborð. Hvorugir aðalleikararnir hafa þó staðið sig betur áður á sínum ferli .

Samtölin eru áfram djúp, náin, fyndin, náttúruleg en taka að þessu sinni alvarlegri snúning. Þessi „fluga-á-vegg“ tilfinning verður smátt og smátt óþægilegri því meira sem rifrildin skella á, og í fyrri myndunum urðu samræðurnar aldrei svona hitaðar. Hér um bil allar hliðar eru stúderaðar án þess að nokkur hafi meira rétt fyrir sér heldur en annar, málefnin eru öll eitthvað sem margir geta tengt sig við og magahöggin koma frá raunveruleikanum í þessu öllu.

maxresdefaultAllt sem þau Delpy og Hawke hafa lagt af sjálfum sér fyrir hlutverkin áður hefur þrefaldast núna, burtséð frá því að vera eldri og þekkja persónur sínar betur en nokkurn tímann áhorfandinn. Delpy hefur aldrei verið berskjaldaðri (í bókstaflegri merkingu) og Hawke hefur hvorki verið næmari eða afslappaðri. Þau bera hrukkur sínar hetjulega og hafa engu tapað í kemistríu, þvert á móti jafnvel. Tengingin sem maður hefur myndað við þessa karaktera er alveg ómetanleg. Þetta par er undirstaða þess að myndirnar ná að ganga svona brjálæðislega vel upp.

Ég hef bara sjaldan eða aldrei séð eins hreinskilna og eftirminnilega sambandskrufningu hjá fólki sem er nýdottið inn á fimmtugsaldurinn. Svona ánægjulega djörf, bítandi og einlæg ástarsaga sem er hreinlega bara með þeim sterkari sem ég hef séð. Öll þessi Before-þrenning er ógleymanleg í heildina og hefur hvergi neitt sést í líkingu við hana, og álíka gefandi á sálina, fyrir utan hina einstöku Up-heimildarseríu frá Michael Apted. Fyrir utan gerólíkt umfjöllunarefni heilt yfir er stærsti munurinn þar á að hér er allt leikið, en bónusinn er að maður tekur varla eftir því.

Þegar ég sá fyrstu myndina (nú fyrir tæplega 15 árum síðan) elskaði ég opna endinn. Síðustu mómentin í Sunset komu síðan enn betur út. Midnight heldur í þessa yndislegu hefð og lokar þessum nýja kafla í lífi þessa pars með réttum hætti og hefur verið ljúft og fræðandi að eldast með þeim. Skyldi það gerast að Linklater, Delpy og Hawke myndu finna eitthvað nýtt til að segja, þá myndi ég ekki segja nei við öðrum hittingi… þá, árið 2022? En alveg eins og ég sagði seinast er kannski best að ljúka þessu svona.

Augljóslega talar Midnight hvað mest til þeirra sem hafa gengið í gegnum langtímasambönd og barneignir (ætli fyrrverandi spúsur séu þá ekki innifaldar líka?), en það breytir því ekki að hún ætti að hitta beint í mark hjá öllum sem kunna að meta vandaðar, sannleiksbundnar litlar myndir með gallalausum leiktilþrifum – og enn betra er fyrir þá sem falla í báða flokka. Þessi mynd er allt sem hún þarf að vera. Fullkominn endir á magnaðan örþríleik.

ficht

Einkunnina má örugglega samt lækka niður um einn (kannski tvo) ef viðkomandi hefur gert sér þann ógreiða að sjá ekki hinar tvær fyrst.

Besta senan:
Hótelkaflinn og eftirmálinn.

Sammála/ósammála?