Hryðjuverkamaður úr stáli

Þetta er pínu ósanngjarnt. Því meira sem maður eldist, því meira gefandi þykir það að horfa á flestar myndir sem hafa eitthvað vitsmunalegt að segja manni. Mótvægið er aftur á móti það að kröfurnar aukast og þolið þynnist þegar kemur að stóra afþreyingarbíóinu, einna helst ofurhetjumyndum, nema sé að ræða almennileg efnistök.

Alltof oft vildi ég að ég gæti bara kveikt á einhverjum ósýnilegum rofa sem leiðir beint inn í heilann og yngir hann upp um svona 10-15 ár (…sjálfur er ég 26 ára en engu að síður sannfærður um að hafa staðnað í þroska fyrir löngu síðan), til þess að sleppa við ákveðnar hugsanir og einfaldlega bara að fá að njóta minnar Superman-myndar í friði! En nei, lógík og hversdagslegar vangaveltur banka alltaf upp og án þess að vera að opna hundgamla, margnotaða umræðu, þá Man of Steel býður ekki upp á annað.

Einhvern veginn er ég alveg sannfærður um að þessi mynd væri auðveldlega ein af mínum uppáhalds ef ég væri fimmtán árum yngri. Ég ætla þ.a.l. að ímynda mér það að þetta fjall af göllum sem myndin hefur væri ekkert áberandi ef ég væri krakki og einblína aðeins á það sem mest lamdi mig sem (umdeilanlega) fullorðinn maður: Dauðatalan!

Þá koma spillarnir…

Ég er að vísu þokkalega sáttur með að tilheyra vissum tilgangslausum minnihlutahóp. Flestir gagnrýnendur virðast vera á þeirri skoðun að seinni helmingur Man of Steel er miklu þreyttari heldur en sá fyrri. Þarna er ég ósammála, því seinni hlutinn er sá sem bjargar henni að mínu mati enda loksins fær maður að sjá Ofurmennið með hnefana á lofti (og í lofti!) á bíótjaldinu sem það á best heima á. Hefði handritið verið sterkara og persónur (og aðstandendur!) myndarinnar borið meiri ábyrgð á öllum skrattans dauðsföllunum þá hefði ég stafað út S-merki með munnvatni, af þá pjúra nördaánægju yfir hasarveislunni (og nota bene, Superman hófst upphaflega í teiknimyndablaði sem bar nafnið „ACTION Comics,“ sem þýðir að rökin að sé „of mikill“ hasar í henni eru eiginlega ógild – þó teygði lopinn sé skiljanlegur miðað við hversu sama manni er um allt). Í The Avengers er örstutt kommentað á látin líf, en í Man of Steel breytist hálf stórborg í grjót og ryk, og titilhetjan gerir fáar sýnilegar tilraunir til þess að sýna þessu einhverjar áhyggjur, frekar en myndin. Ekki neinustu.

Viljinn fyrir dómsdagsdauða mannkynsins hjá óvinum Ofurmennisins er eitt, en það er eitthvað allt annað þegar hann er óvirkur þátttakandi í kaótík sem er lífshættuleg fyrir alla nema hann sjálfan. Hann hjólar bara í byggingar og brýtur að auki eina af grundvallarreglur Leðurblökumannsins í bardögum („gættu að umhverfinu!!“). Til dæmis inniheldur þessi mynd eina af ó-Superman-legustu senum sem ég hef á ævi minni séð, þegar Kal-El ákveður að fljúga í Zod til þess að hann hætti að ógna móður sinni – og endar í kjölfarið á því að lúberja hershöfðingjann í miðju flugi. FRÁBÆR hugmynd, og þetta kemur frá einhverjum sem dýrkar fátt meira í Superman-sögu en þegar hetjan verður bandbrjálaðslega reið.

Gallinn við senuna kemur hins vegar út frá því að Kal-El, hvort sem hann er meðvitaður um það eða ekki, er að gera ástandið hundrað sinnum verra með þessu stönti. Í stað þess að fljúga lengra inn í Kent-býlið er það í rauninni Súpermann sjálfur sem dregur bardagann lengst inn í Smallville og splúndrar bensínstöð með meiru í miðjunni á þessu öllu. Ekki bara tókst aðalhetjunni að færa slaginn frá dreifbýli inn í þéttbýli (sem seinna leiðir til þess að herinn og óvinirnir gera málin miklu verri, á staðnum sem hann valdi), heldur skildi hann einnig óvart móður sína eftir með tveimur undirmönnum Zods!
Úps?

supey

Fyrir utan þetta staka atriði er dauðatalan í lok myndarinnar ábyggilega komin vel yfir hundrað þúsund og í stað þess að Kal-El axli sér ábyrgð sem ofurmenni og haldi almennilega utan um dulúðarfullu en markvissu orð feðra sinna, þá lætur hann frekar bara eins og ekkert hafi skorist. Meira að segja starfsfólk Daily Planet heldur til vinnu stuttu seinna, þó svo að byggingin hafi augljóslega verið í göngufjarlægð frá stærsta skaðanum. Kannski hefur Kal-El sýnt fórnarlömbunum svona lítinn áhuga vitandi það að einhver þeirra gætu verið fyrrum blaðamenn. Hentugt að það sé laust starf…

Enn og aftur að æskuárunum… krakkinn í mér hefði aldrei spáð í þessu, eða hvað? Engu að síður finnst mér frábært vitandi það að ég kann að spennast upp eins og nördamongó þegar ég sé eitthvað vibbalega gaman sem áhugamannaheilinn minn fílar en ég efa að ég fái nokkurn tímann aftur þessa tilfinningu þegar sjónarspilið dugði eitt og sér. En að minnsta kosti fíla ég ennþá Battleship í ræmur, þannig að ég þakka guði fyrir að vera ekki of þroskaður. Það dóu líka svo fáir í henni. Aðallega bara geimverur, japanir og fiskar.

Sammála/ósammála?