Man of Steel

Kominn var tími á breytingar með meira „kúli“ og ennfremur var löngu kominn tími á aðra frábæra eða í það minnsta massíft fullnægjandi Superman-mynd. Enn á það reyndar eftir að gerast (svekk!) en nú er þó búið að hvolfa öllu við sem Returns gerði og í staðinn kemur grimmari og svalari bíómynd. Ofurmennið af gamla skólanum datt út og kom þá Stálmennið inn í staðinn, með brækurnar réttu megin.

Ég er agalega hrifinn af sjálfsöruggu, „raunsæju“ nálguninni í þessari núllstillingu; hvernig klassíska hugmyndafræðin er mótuð frá grunni án þess að breyta of miklu, eins með vangavelturnar um það hvernig nútímaheimurinn myndi í fyrstu óttast geimveru/hetju í líkingu við Superman heldur en fagna. Beinagrind sögunnar er flott, stíllinn kemur ágætlega út og það er gjörsamlega ótakmarkað hvað þessi epík er hlaðin mörgum góðgætum sem ættu eiginlega heima í einhvers konar meistaraverki… í stað bara sjónrænu meistaraverki.

Maður sér alveg eitthvað af fingraförum Nolans en í voða dreifðum skömmtum því myndin er fyrst og fremst í eigu Zacks Snyder, sem hefur alltaf verið með grunnt efnisvit á ferlinum en réttu verkfærin í það að láta hvaða drasl sem er lúkka ótrúlega vel. Þetta segi ég jafnvel þótt hann eigi það til núorðið að láta manni líða eins og maður sé staddur í tölvuleik, en afskaplega flottum. Snyder höndlar þessa skepnu sem bíómyndin Man of Steel er, af sjúkum áhuga og fyrir metnaðinn og stærðina verðskuldar hann stórt, hetjulegt S-lagað merki á bringuna sína! Bara verst er að Kryptonite-ið hans þurfi endilega að vera handritshöfundurinn. Aldrei á að skilja David S. Goyer einan eftir með handrit. Hann getur á tíðum verið hræðilegur með samtöl.

Goyer má samt að eiga eitt: Hann virðist ‘fatta’ Superman. Handritið minnti mig nokkru sinnum á það af hverju ég elska þennan karakter og nýfundna kúlið sem og stílbreytingarnar gefa manni nokkrar ástæður til þess að tilbiðja hann meira. Snyder finnst mér ekki alveg skilja fígúruna eins mikið, eða hann gerir allavega ekki sýnilega tilraun til þess að halda utan um hlýjuna og vonargljáan. Tilfinningalega er myndin alltof köld og pínlega melódramatísk á sama tíma, svo mikið að maður límist aldrei við neinn karakter og horfir í staðinn bara á þá og yppir öxlum. Þetta skánar lítið þegar líður lengra líður á atburðarásina og meira verður í húfi. Svo eru plott- og exposition-reddingarnar oft alveg abstrakt asnalegar, annaðhvort of lítið eða mikið útskýrðar. Leikstjórinn hefur ætlað sér að gera umfangsmikla sögu sem gengur í gegnum sama tilfinningaskala og Dark Knight-þrennan en óvart endað uppi með óeinbeitta popp-og-kók mynd sem er ofureinföld en í senn fullpökkuð. Þessir kostir og gallar skoppa í endalausum þversögnum.

Snyder er kominn á þann stað í lífinu að hann vill bara ráðast á tölvubrelludeildina sína með stórum hasarhugmyndum. Seinast sást það strax á Sucker Punch að stílíseraða teiknimyndaofbeldið væri það helsta sem skipti hann máli, og „djúpa“ frásögnin í kringum það varð epískt fyrir barðinu. Hvað þetta varðar hefur leikstjórinn eiginlega ekkert batnað, því það sama á við um Man of Steel. Hins vegar hefur Nolan e.t.v. hjálpað honum að sleppa slow-mo skotum, finna íshjartað í sér og passa að klúðra ekki sögunni of mikið. Stökkpallurinn og millilendingarnar fyrir þennan hasar eru öflugri hjá honum en áður, og sömuleiðis hasarinn sjálfur. Það hefði samt verið skemmtilegra jafna áherslurnar aðeins meira út, og slípa þetta blessaða handrit.

Hver einasti leikari er hárrétt valinn en yfirborðskenndu efnistökin veita þeim mikil takmörk. Henry Cavill segir t.d. mjög lítið, en það gæti reyndar verið góður hlutur. Hann ber skikkjuna betur en flestir forverar sínir og býr yfir hörku, samkennd og léttu karisma sem rétt gluggar í. Töff gæi en með stífum díalog er lítið sem einn maður getur gert til að bjarga sér. Dúllan hún Amy Adams er ákveðin og örugg sem Lois Lane en þjónar furðulega litlum tilgangi. Einhverra hluta vegna hafa kvenpersónur aldrei verið sérlega vel skrifaðar í Snyder-myndum. Það er líka eitthvað við alvarlega, sjarmalausa tón leikstjórans og (enn og aftur!) samræðurnar sem slátrar öllum möguleika á góðri kemistríu á milli Adams og Cavill. Myndin er meira skildug til þess að para þau saman frekar en að sýna því áhuga.

Russell Crowe og Kevin Costner eru þvílíkt góðir sem Jor-El og Jonathan Kent, mennirnir sem sjá um að móta hetjuna. Að vísu eru þeir á sitthvorum endanum með skjátíma sinn. Costner er hryllilega vannýttur sem eitt stærsta hjarta og sál myndarinnar. Diane Lane er svipuð og er þarna eiginlega bara… til að vera þarna. Hins vegar tekst görpum eins og Laurence Fishburne, Christopher Meloni, Harry Lennix og Richard Schiff að gera gott úr nánast engu, sömuleiðis hin naglharða Antje Traue. Síðan kemur að Michael Shannon, sem þegar hefur alltaf verið einhvers konar geimvera í mínum huga. Vanalega er hann stórsnillingur og sem Kryptóníski hershöfðinginn Zod öskrar hann og leikur með klikk-augun galopinn en nær aldrei neinni tengingu við áhorfandann, sem er leitt þar sem frábær dýpt er í karakternum en Goyer og Snyder koma honum furðulega til skila. Shannon getur svo margt betra en að garga bara og garga.

zod

Strúktúr myndarinnar fylgir bæði yndislegur kostur og einkennilegur galli. Ákvörðunin að sleppa línulegu formúlu origin-sögunnar og sýna hana í endurlitum er þægilega fersk, en eitthvað er það við hvernig Snyder og Goyer höndla þessa uppbyggingu sem fær hana ekki alveg til að smella rétt saman. Samræðurnar eiga þátt í þessu, jú, en Snyder nær bara ekki öruggum tökum á flæðinu fyrr en í seinni helmingnum, þegar myndin breytist í títanískan hasar- og brellugraut. Skilningarvitin eru svoleiðis barin með hörðu, hröðu ofurhetju-aksjóni og fer ekki á milli mála að framleiðendur vildu bæta upp fyrir ofbeldisskortinn í Returns. Og aldeilis tókst þessum djöflum það.

Seinustu 45 mínúturnar í Man of Steel láta lokahálftímann á The Avengers eðaTransformers 3 líta í samanburði út eins og dótaauglýsingar. Það er að vísu ekki mannsbarn með smekk yfir 14 ára sem myndi ekki mótmæla því að þetta dregst pínu á langinn, en Superman-unnandinn í mér skaust með þessum hasar alla leið. Eyðileggingin og dauðsföllin (sem aldrei er minnst á! Og þetta er fjöldi sem þarf að ræða…) í þessum lokahluta hlýtur að gera Michael Bay og Roland Emmerich eitthvað öfundsjúka.

Ef farið er út í aðra kvikmyndagerðarmenn er býsna sérstakt hvað myndin minnir útlitslega oft á púsluspil annarra leikstjóra/bíóeinkenna. Skalinn dekkast frá Avatar til Abrams, Bay og jafnvel Wachowski-systkyna, ásamt auðvitað þessum innbyggða Nolan-alvarleika. Snyder er þó minna að stela og meira að velja hvað virkaði hjá áhrifavöldum sínum. Þegar þessi texti er ritaðaður er ég viss um að Man of Steel sé trúlega einhver flottasta epík sem ég hef á ævi minni séð. Það eru hins vegar bara ákveðið margar nördafullnægingar sem maður meikar þegar vantar svona mikið upp á rest. Jesú-líkingunni er sömuleiðis klesst meira upp við andlitið á áhorfandanum heldur en í síðustu mynd, sem er mikið sagt. Skrítið er það alltaf þegar ein mynd getur gefið manni aulahroll og epíska gæsahúð með svona föstu millibili. Hans Zimmer-tónlistin gefur myndinni reyndar hiklaust meira flug, en dalar í smærri senunum (ofnotaða píanóstefið hans gerði mig hér um bil geðveikan í vælu-dramanu).

Vissulega markar Man of Steel spennandi grunn sem lofar vægast sagt góðu, bæði fyrir framhaldið og DC-heiminn, en myndin er steríl, sjaldan spennandi þó hún haldi manni kannski uppteknum og ég trúi varla að Nolan sjálfur hafi sett framleiðendanafn sitt á þetta handrit. Súper-vonbrigði en samt mögnuð brellusýning með aðeins meiru.

fin

Besta senan: Nokkurra sekúndna skot þar sem Supes dúndrar höggum í Zod… í miðju flugi!

PS. Kræst hvað tækniþróunin hjá Krypton sökkar. Snemma í sögunni finnur Kal-El frosið, tuttugu þúsund ára gamalt könnunarskip frá sinni plánetu sem hefur nákvæmlega sömu græjur og í „nútímanum.“ Öh…

Sammála/ósammála?