Pain and Gain

Seint bjóst ég við því að geta sett orðin „sönn saga“ og „Michael Bay-mynd“ í sömu setningu. Eftir Pearl Harbor hefði ég haldið að maðurinn myndi aldrei snerta neitt í líkingu við alvöru atburði en fjarstæðukennda sagan sem Pain & Gain hefur að segja er að mínu mati ekkert síður ómerkilegri heldur en t.d. Argo, nema Argo ýkti sína örugglega meira.

Bay hefur aldrei hemlað svona mikið á sér varðandi eyðileggingar og eltingarleiki en efnið býður heldur ekki upp á það. Eftir þrjár háværar Transformers-myndir í röð hefði verið óeðlilegt að taka sér ekki smáhvíld, og sérstaklega til að skipta aðeins um gír og gera loksins mynd sem er ekki bara með skemmtanagildi í huga, heldur eitthvað góð. Leikstjórinn hafði sýnt þessu Pain & Gain handriti áhuga í einhver 12 ár áður en hann kom því loksins í framleiðslu. Ef maður eins og Bay er farinn að sækjast sjálfur í handrit með innbyggðri sögu, og fyrir margfalt minni pening heldur en vanalega, þá sé ég ekki betur en að hann sé farinn að batna helling með aldrinum. Hann er enn sami, fyrirsjáanlegi Bay og hans taktar koma niður á myndinni, en að minnsta kosti reyndi hann eitthvað aðeins öðruvísi án þess að stíga algerlega út fyrir sitt þægindasvið.

Í mínum augum er þessi mynd fyrir Bay það sem Domino var fyrir Tony Scott, og það meina ég alls ekki sem móðgun (ef eitthvað þá er Domino frekar vanmetin). Báðar myndir eru óhefðbundnari en margt annað frá þeim, einnig sannsögulegar, grimmar, villtar og séðar sem fullkomnar afsakanir til að leyfa stílrúnkinu að ná allra hámarki. Domino sýndi Scott í sínu Tony Scott-legasta, í eitruðum skömmtum að mati margra, en leikstjórinn hafði hráa, dópaða glæpa(gaman)mynd í höndum sér og gekk alla leið með það.

Bay tekur svipaða nálgun og Scott með Pain & Gain. Hasarinn er að megnu til farinn út – og ég taldi hér einungis TVÆR alvöru sprengingar – en allt annað af því sem maður sér í myndunum hans kemur í mössuðu magni; útlitsdýrkun, heitar litapallettur, klósett- og hommabrandarar, kvenfyrirlitning, slow-mo skot, gróft ofbeldi og gjafmildur sýningartími. Maður hlær enn að því hvað Bay er grunnhygginn, reiður og unglingalegur bastarður, en það eina sem í rauninni skaðar þessa mynd er lengdin hennar. Annars væri hún kannski frábær! Og hugsa sér, 130 mínútur telst til styttri lengdar hjá þessum gæja.

Bay-andinn smellpassar við sögusviðið (alveg frá sumarlega Flórída-lúkkinu til dökku senanna og ’90s músíkinnar) og hún heldur hinum fínasta dampi án þess að áhuginn fjari mikið út eða of langt líði á milli kostulegra atvika eða húmors almennt. Flæðið mætti samt vera þéttara. Pain & Gain er sko vel 20 mínútum of löng, miðað við mynd sem gengur aðallega út á grimmdarsjokk og óhugsandi fávitaskap í einfaldri endursögn. Restin er bara uppfylling tengd við áhuga leikstjórans fyrir því að leyfa leikurunum að njóta sín meira. Ekkert að því, en það er ofaukið að gera rúmlega tveggja tíma mynd um idjóta sem endalaust á að hlæja að og hneysklast yfir. Það að hún geri líka svona mikið grín að alvöru ljótleika er eitthvað sem er bókað til að angra mjög marga, en sjálfur sé ég ekki hvernig öðruvísi nálgun hefði verið í boði.

Þetta er svolítið eins og að horfa á Bad Boys II án flottustu atriðanna, en bara með betra handriti, meiri vöðvum og skemmtilegri leikurum. Og fyrir hvert drepfyndna atriði sem hittir í mark (og gullkornin eru óvenju mörg hérna – og betri grillsenu hef ég ekki fundið lengi!) þá er venjulega stutt í eitt ófyndnara og sjálfumglaðara. Ég get alveg séð fyrir mér leikstjórann setja upp hrossaglott yfir kúk- og pissbröndurum sínum. Þetta passar heldur illa við mynd sem þykist í rauninni hafa eitthvað að segja undir yfirborðinu („sumir vita ekki hversu gott þeir hafa það,“ eins og sagt er í lokin). Heildin tapar stigum á barnaskapnum en hlýtur fleiri í svarta húmornum.

Leikstjórinn hefur margoft látið leikara sína gera hina einkennilegustu hluti þegar þeir eru ekki á fullum hlaupum. Fyrir utan ónefndu hörmungina sem Bay gerði rétt eftir aldamótin er óhætt að segja að þetta sé fyrsta myndin hans sem er að mestu leyti drifin af leikurunum. Á þessum punkti er mér það einnig óskiljanlegt í mínum augum hvernig Dwayne Johnson getur ekki verið dýrkaður úr öllum áttum. Hann og hans ónýti, vitgranni en samviskusamlegi kristilegi karakter hentar kannski ekki öllum að þessu sinni, en mér finnst hann eiga ótvíræðan leiksigur í Pain & Gain. Líklega gæti þetta verið ein besta frammistaðan sem hann hefur átt hingað til. „Persóna“ hans er stöðugt kostuleg, aumkunarverð, klikkuð og sympatísk. Grjótið rúllar þessu öllu upp.

Mark Wahlberg (böffaður í hel) er sjálfur nokkuð frábær en Jötuninn skyggir á hann. Sem kjötskrokkar og kálhausar eru þeir báðir hér um bil fullkomnir en þreytulega lengdin gefur manni stundum of mikið af hinu góða, eins og leikstjórinn oft gerir. Anthony Mackie er annars stórfyndinn sem þriðji meðlimurinn. Tony Shaloub brillerar sem óviðkunnanlegasta fórnarlamb í heimi og Ed Harris kemur vel út sem eini aðilinn í allri sögunni með heilbrigt skynsemisvit. Ég held að það sé enginn aukaleikari sem ég get talið upp sem ekki passaði þar sem hann var, eða hún. Bay er greinilega í allt öðrum gír þegar helmingurinn af djobbinu hans fer ekki í yfirsýn á brellum.

Persónulega hef ég oft fílað Michael Bay sem pjúra bíóleikstjóra (enda sjúkur aðdáandi Dark of the Moon!) en smærri myndir væru hiklaust vel þegnar frá honum í framtíðinni. Stóru brellumyndirnar eru eitt en Pain & Gain er að mörgu leyti hans stærsta og merkasta skref í áttina að betri „kvikmyndagerð,“ þar sem frásögn skiptir loks einhverju máli. Þessi steraði farsi hefði kannski mátt skera af sér hellingsfitu, en skemmtilegast er að sjá hvernig Bay, sem sjaldan gerir myndir fyrir hugsandi manneskjur, hlær sjálfur að hlær að miklu heimskara fólki. Og ætlunin er að við gerum það líka. Er nokkuð eitthvað að því?

thessiBesta senan:
Grillað með Dwayne.

Sammála/ósammála?