After Earth

Það væri frábært tvist ef „gamli“ M. Night Shyamalan myndi einn daginn snúa aftur, eins og allt fallið hefði verið planað, því ég neita að trúa því að einn maður – sem þykist elska atvinnu sína svona mikið – getur ofmetið sjálfan sig svona þvílíkt og gert svona margar feilaðar myndir óviljandi. Ekki nema honum hafi þá frekar tekist að gera fínu myndirnar fyrir slysni.

Í dag hlær maður bara af því en í kringum aldamótin voru sumir orðnir svo fljótfærir að kalla manninn „nýja Hitchcock.“ Egóið hans magnaðist síðan með tímanum og að þessu sinni sameinast það við annað, jafnvel stærra egó. Í fljótu bragði er erfitt að ímynda sér vandræðalegra kombó: M. Night og frægir feðgar sem vilja baða sig í sjálfsdýrkun í sci-fi mynd vinnur lítið úr því sem hún hefur. Rosalega þarf líka orðið að ýta ofan í veröldina að Jaden Smith sé víst kominn til að vera. Ég var akkúrat að vonast til þess að Pursuit of Happyness hafi bara verið svona einstakt, dúllulegt dæmi hjá honum og pabba sínum. Nú er þetta komið gott. Þetta gekk þar, ekki hér.

After Earth hefur fínan grunn en metnaðurinn er í ruglinu. Í samanburði við The Last Airbender skömmina er þessi mynd reyndar aðeins Shyamalan-legri en það hætti að vera góð lýsing fyrir meira en áratugi síðan. Flestir gallar sem hafa hrjáð hægustu myndir leikstjórans (þessar sem voru óspennandi og með svæfandi drama) fylgja með þessari, og líka eitthvað af því sem drap Airbender. Jákvæðir punktar eru til staðar en prumpulyktin er ekki enn farin af mannfýlunni á bakvið hana.

Myndin er leiðinleg, illa skrifuð (almáttugur, þessi framvinda!), sóðalega einföld og áhugalaus miðað við hugmyndaflugið í kringum hana, sem þýðir að „ónefndur“ kvikmyndagerðarmaður hefur enn einu sinni sóað flottu tækifæri til að reyna á þolinmæði smekksfólks. Myndin nær einnig því óskiljanlega markmiði að vera bæði köld og væmin á sama tíma, og það gerir hana enn kjánalegri. Handritið var hálfbakað fyrir en áttavillta leikstjórnin tekur allt sem er slakt og gerir það verra. Það er enginn betri í því að gera Shyamalan-paródíur heldur en hann sjálfur. Ég er næstum því sannfærður um það að eini maðurinn sem hefði getað gert eitthvað sæmilegt úr þessu væri Spielberg, sem étur upp svona feðgasögur meira en nokkur annar.

Will Smith hefur mér alltaf þótt skemmtilegur en sjálfumglaður maður með vafasamt vit á gæðum. Þetta er nú sami maður og sagði pass við Django því honum fannst hann ekki vera í nægilega stóru aðalhlutverki, og varla þarf að ræða hverju hann hafnaði til að gera Wild Wild West í staðinn. Hann á nóg af aðdáendum og nú vill hann sanna sig sem bestasti pabbi í heimi með því að skipuleggja heila bíómynd fyrir og í kringum son sinn. Þetta er Smith-vara út í gegn. Hann framleiðir með konunni sinni, leikur og samdi söguna. Krúttleg tilhugsun, þannig séð, en óneitanlega stuðandi hégómi engu að síður. Hér er einmitt eitthvað sem heimurinn þarf ekki á að halda: latar, dýrar tilfinningafroður sem urðu fyrst og fremst til sem (afmælis?)gjafir handa dekruðu celeb-barni.

Will reynir að fela það en ég man varla eftir honum hégómafyllri, ótrúlegt en satt. Í sögunni er hann gerður að tilbeðinni hetju með svalan stórgalla – og reyndar útreiknanlega örk og fáránlegt nafn (Cypher… Raige??). En til þess að sjá sérstaklega til þess að skyggja ekki á „kúlið“ hjá syni sínum – því það er hann sem við eigum öll að elska í þetta sinn frekar en hann – þá heldur hann sig frá hasarnum (svona eins og Denzel í Bone Collector). Jaden fær sviðsljósið út af fyrir sig, en það hljómar aldrei ásættanlega nema Jackie Chan fylgi með. Drengurinn er margt, en stór burðarhlutverk gæti tekið hann tíma til að ná tökum á.

Ég skal samt gefa feðgunum það að þeir eru alls ekki lélegir. Jaden er ekkert voðalega heillandi þó. Hann gerir sitt besta og er langt frá því að vera vonlaus, en þegar maður skynjar stoltið og alvöru bönd ríku feðganna dettur maður smávegis út úr. Krakkinn er ágætur en óverðskuldaða bústið sem hann fékk frá foreldrunum mun alltaf svífa yfir honum. Aðeins einu sinni hefur hann leikið í „alvöru“ bíómynd sem var ekki framleidd að hluta til af Will. Sú mynd var endurgerð á ómetanlegri klassík og getur enginn sagt annað en að Jaden hafi verið óþolandi í henni. Vonandi sannar hann sig í framtíðinni á meðan við erum ekki laus við hann.

Will er auðvitað eftirsóttur bransaþursi af ástæðu, hann getur leikið og kastað af sér sjarma. Í After Earth er samt lítið rými fyrir sjarma og leikstíll leikstjórans er leiðinlegur og vandræðalegur eins og vanalega. Mér þykir alltaf svo athyglisvert að sjá hvernig maðurinn reynir svo oft að vekja einhver dramatísk áhrif þegar hann sogar sjálfur allar tilfinningar úr þessum atriðum sínum. Eftir stendur bara kjánahrollur og listræn leiðindi. Undirtónar Vísindakirkjunnar eru sömuleiðis áberandi. Skynja ég smá áróður þarna líka?

After Earth á ýmislegt sameiginlegt með hinni nýlegu Oblivion, að því leyti að vera báðar vísindaskáldsögur unnar af færibandi og egótrippi frekar en umhyggju fyrir grípandi efnistökum. Báðir Tom Cruise og Will hafa sumsé reynt að prufa eitthvað „ferskt“ til að bæta við geirann á þessu ári en endað uppi með tóm útlitsílát, sundurtættar hugmyndir og lata handritsgerð. After Earth er samt talsvert slappari og þegar horft er á hana skín það beint í gegn að Shyamalan hefur ekki haft einbeitta hugmynd um hvernig mynd hann var að gera (ókei, það bjóst enginn við vandaðri vinnu, en samt!). Það eina sem er markvisst eru skilaboðin sem hún hefur að segja um viljastyrk og ótta, en þau eru líka álíka lágstemmd og kaffibolli í andlitið. Það eina sem þarf að óttast er óttinn sjálfur, og það er eins og þessi mynd haldi í raun og veru að hún sé að segja okkur eitthvað nýtt þarna.

Shyamalan og Smith vissu líklega ekki hvort þeir ætluðu að gera þroskaða, ævintýralega og „áhrifaríka“ fjölskyldumynd eða kalda, spennandi sci-fi mynd fyrir breiða nördahópa. Augljóslega gengur hún upp sem hvorugt. Hún er óvenjulega brútal, hæg og langdregin fyrir krakka en fullbarnaleg, ómerkileg, heimsk og fyrirsjáanleg fyrir þá sem eru eldri. Útlitið er ágætt en hasarinn tekur sjaldan flug, og þegar svo gerist, þá hættir hann strax um leið eða rústast með vondri byggingu og ljótum brellum. Handritið velur líka oft mjög ódýrar leiðir til að binda enda á hættulegar aðstæður, og skapa þær. Tónlistin er ekkert spes heldur. Það er mjög lítið eftir til að hrósa.

Shyamalan kann greinilega vel við sig á botninum og ég vona satt að segja að allir sem komu að After Earth lærðu eitthvað af henni. Lady in the Water er algjört listaverk í samanburði en mest er ég feginn að hafa fengið eitthvað örlítið skárra heldur en Airbender. Hræðileg mynd samt. Það verður ekki tekið af henni.

thrir

PS. Trivia-síða myndarinnar á IMDb er merkilegri og athyglisverðari heldur en allt sem sést á skjánum út þessar 100 mínútur.

Besta senan:
Nei.

Sammála/ósammála?