Now You See Me

„Galdur er blekking, sérstaklega ætluð til þess að heilla, skemmta og veita innblástur.“ Þannig hljóma fleygu orð einnar persónunnar í Now You See Me. Það hefði að sjálfsögðu verið óskandi ef allar þrjár lýsingar myndu eiga við um áhorfið á myndinni sjálfri en á endanum sætti ég mig við að hafa fengið aðeins eina þeirra. Eins mikið og myndin á það til að taka sveiflur, þá hættir hún nefnilega aldrei að skemmta.

Fljótlega eftir að hún er komin í gang hefst þessi vangavelta um hvort handritshöfundarnir hafi ekki öruglega verið nýbúnir að horfa á The Prestige á undan, og ákveðið síðan að búa til Hróa Hattar-sögu í anda Ocean’s Eleven. Eða frekar Thirteen, hún er ýktari og á margt meira sameiginlegt sem ég ætla ekki að spilla. Skemmtileg er þessi blanda samt sem áður, þrátt fyrir að vera bitlaus og manni er afskaplega sama um allt og alla í henni, en myndin rúllar þægilega í gegn og það er vont að segja nei við þennan leikarahóp.

Myndin er lítið meira en langt, flókið og glansandi töfrabragð en það er nokkurn veginn tilgangurinn með henni! Hún vill endilega rugla í þér eins og ruglað er oft í persónunum á skjánum, og það virkar bara helvíti vel. Fyrirsjáanlega fer söguþráðurinn í nokkuð bjánalegar og ófullnægjandi áttir í seinni helmingnum. Lokasvörin eru svona mitt á milli þess að vera tómt svindl og bjánalega ásættanleg þegar hugsað er í stærra samhengi, en ég játa mig samt sigraðan með það að stærsta blekking myndarinnar hafi náð mér. Hún kom mér í alvörunni á óvart, einmitt þegar ég hélt að ég taldi mig hafa séð í gegnum hana. Restina má betur reikna út, nema maður slökkvi kannski bara á heilanum, en ég er ekki alveg svo viss um að eigi að gera það.

Myndin ætlar sér hiklaust að vera gáfaðri en áhorfandinn (en þá kemur spurningin: hversu gáfaðir eru handritshöfundarnir?) og flippar svo mikið í yfirdrifinni sýndarmennsku og misleiðingum að heilinn snýst alveg í hringi, viðeigandi mikið. Í rauninni er þetta dásamlega heimsk mynd um rosalega snjallt fólk. Fjarstæðukenndu stefnurnar lofa mjög góðu og stigmagnandi steypan heldur áhuganum en myndin væri samt algerlega gleymd og hér um bil grafin ef ekki hefði tekist að smala saman þessu dúndurfína leikarapakki. Líflegi stíllinn gerir einnig talsvert mikið fyrir hana, og leikaranna.

Það er skemmtileg dýnamík á milli fólksins á skjánum, en galdurinn liggur mest hjá Jesse EisenbergWoody HarrelsonIslu Fisher og Dave Franco (sem er langt á eftir bróður sínum en hefur mikið skánað engu að síður). Eisenberg er sérstaklega frábær og gerir ábyggilega mest við minnst hvað prófíl varðar. Harrelson er næstbestur og gaman er að fá gamla Zombieland „væbinn“ á milli þeirra, nema að þessu sinni með Zuckerberg-legu stælana að vopni. Aldrei bjóst ég við því að Jesse yrði nokkurn tímann svona töff, síst af öllu þegar hann er umkringdur reyndari, svalari mönnum. Mikil synd er samt hversu takmarkaður fókusinn er á þessum fjórmenningum, sem er eiginlega strúktúrnum að kenna í gölluðu handriti. Það og áhugaleysi leikstjórans, á þessu sviði að minnsta kosti.

Áður en hálftími er liðinn ákveður myndin allt í einu að Mark Ruffalo eigi að vera aðalkarakterinn í henni, en ekki „hetjurnar“ sem voru fyrst kynntar. Þær detta svolítið út úr og lemur það persónusköpun þeirra alveg niður. Ruffalo er reyndar í góðum gír, en senurnar á milli hans og Mélanie Laurent eru býsna daufar. Skuldinni er þarna skellt á handritið og leikstjórann. Þau eru svo sem þokkaleg í sameiningu en verða aldrei eins athyglisverð til áhorfs og hin fjögur.Morgan Freeman og Michael Caine fá síðan gott pláss, og þeir eru höfðingjar að vanda, en gera samt ógurlega lítið og hafa örugglega fengið mikið borgað fyrir tímann. Það býr samt skemmtileg mystería yfir persónum þeirra, en ekki endilega bara þeim tveimur. Merkilegt er samt að Common hafi einhvern veginn tekist að smygla sér inn í myndina. Hvílíkur galdramaður, ég tók nánast ekkert eftir honum. Myndin vippar hann aldrei upp nema plottið þurfi nauðsynlega á honum að halda.

Þrátt fyrir götóttan feril hef ég alltaf séð ýmislegt gott í leikstjóranum Louis Leterrier og það að hann sé núna farinn að nýta spretthraðann sinn í mynd sem er ekki hasar- eða brelludrifin er ánægjuleg breyting. Now You See Me er besta skrefið hans til þessa á eftir Danny the Dog og það er margt sem hann hefur lært nýtt ásamt því að hafa þróað stílaugað sitt prýðilega. Honum liggur samt stundum aðeins of mikið á og nær þess vegna aldrei að fullmóta neinn karakter. Þessi saga gengur varla upp á þessum hraða ef stoppin eru ekki notuð til þess að hlaða einhverjum örlitlum tilfinningum í þetta, sem mér sýnist hafa verið mikil þörf á. Þetta ætti eiginlega að vera afþreyingarmynd með meiru en Leterrier tæklar hana aðallega sem beina sumarmynd og gengur ekki alltaf vel að taka hana alvarlega.

Meðmælin eru gjafmild þó og myndin skilur ekkert mikið meira eftir sig heldur en fyrri 2013-myndin sem fjallaði um sjónhverfingamenn (hint: hún stóð ekki undir nafninu „Incredible„). Ókei, jú, kannski aðeins meira. Annars fínn afþreyingargaldur hjá leikurum sem alltaf er gaman að horfa á.

thessi

PS. Núna vantar bara Eric Bana í Hulk-safnið hjá leikstjóranum.

Besta senan:
Sýning #2

Sammála/ósammála?