The Iceman

Þó það hafi verið óhjákvæmilegt var eiginlega hálftilgangslaust að gera þessa mynd, eins fín og hún er. Erfitt er að toppa áhrifin sem maður fær út úr heimildarmyndinni Confessions of a Mafia Hitman (sem er skylduáhorf!), sér í lagi viðtölunum við sjálfan „Ísmanninn“ Richard Kuklinski, en The Iceman virðist hafa tekist nokkuð vel að segja söguna af lífi hans og starfi án þess að hvorki fegra hlutina of mikið né bragðbæta þá.

Margt er hægt að segja um þennan skemmda, óhuggulega mann en athyglisvert kvikindi var hann nú samt sem vel væri hægt að gera framúrskarandi, kuldahrollvekjandi karakterstúdíu um. Fyrir þá sem ekki vita er hér fjallað um snjallan launmorðingja í laumi sem hlaut gælunafn sitt fyrir að frysta líkin sín til að gera vinnu rannsóknarmanna erfiðari. Að auki speglast titillinn fullkomlega við hans eigin tilfinningar og samvisku, enda fór hann að aftökunum eins og þetta væri varla erfiðara verk en að hendast út með ruslið. Konan hans og dætur vissu aldrei neitt, en voru þetta einu aðilarnir í hans lífi sem honum var ekki skítsama um. Ekki það að heimalífið hafi verið til fyrirmyndar heldur.

sexmanMér til smávægilegra leiðinda er The Iceman nær því að vera týpískt glæpadrama í uppsetningu heldur en nokkurn tímann stúdering á lokuðum manni sem lifði tvöföldu lífi og var farinn að aflífa aðra löngu áður en hann fékk nokkurn tímann greitt fyrir það. Myndin sýnir efninu sínu áhuga en hefði mátt vanda betur til verka og valhoppa minna yfir söguna. Hún einfaldar hlutina helling og það kemur í rauninni á óvart að sjá hversu efnislega grunn og óspennandi handritið er. Hún sýnir samt manninn í sínu rétta ljósi, og varla var hægt að græða á betri manni í titilhlutverkinu heldur en Michael Shannon. Þetta er erfið og lágstemmd rulla sem erfitt er að byggja heila mynd í kringum án þess að veita aðeins meira sálfræðilegt innlit inn í huga þessa manns. Shannon nær samt alltaf að redda sér. Með mjög litlu tekst honum oftast að segja manni mjög mikið um, alveg eins og fyrirmyndin gerði í viðtölunum. Myndin er kannski ómerkilegri en hún ætti að vera en Shannon ber hana höfðingjalega á öxlum sér. Hann fer ansi létt með það að vera kaldrifjaður og óhuggulega rólegur, sem er akkúrat það sem krafist er af honum. Greinilega hefur hann verið duglegur að horfa á upptökurnar af Kuklinski.

Það er varla fyndið hversu áberandi er að enginn annar leikari skuli vera eins sokkinn í sitt hlutverk og Shannon. Flestir eru reyndar fjandi flottir en nota einungis það sem takmörkuð handritsdýpt og ört flæði leyfir þeim að gera. Sjálfur er ég löngu orðinn þreyttur á „tæpkastinu“ hjá Ray Liotta. Um leið og hann birtist veit maður strax hvernig týpa hann verður. Chris Evans bætir þó einhverju við myndina (ánægjulegt líka að sjá hann aftur í lítilli mynd) og James Franco stendur sig í einu senunni sem hann á, en hún er samt ein af þeim sterkari í myndinni. Maður hlær pínu þegar David Schwimmer poppar fyrst upp, þá bara því hann af öllum snýr mest út úr ímynd sinni, en þokkalega.Winona Ryder fær það erfiða djobb að leika áttavilltu og einmana eiginkonu Richards og kemur betur út en ég bjóst við, en handritið virðist hafa breytt henni í tvívíða persónu sem ætti í rauninni að ná best til áhorfandans.

Myndatakan er drullugóð og kemur með hentugt raunsæisandrúmsloft sem sýnir viðeigandi kulda. Aðeins meiri birta stígur inn þegar „mýkri“ hliðar Kuklinski eru sýndar þegar hann er í kringum sína nánustu, en aldrei of mikil. Kælingin skellur meira á því ofar sem ártölin ná og fjarlægðin á milli hans og fjölskyldunnar eykst meira og meira – sem of oftast óviljandi að hans hálfu. Allan tímann tekst leikstjóranum að halda sama svipnum á myndinni. Mér finnst samt eins og Shannon eigi beittari mynd skilið. Hún heldur dampi án þess að vera sérstaklega grípandi. Á milli koma nokkur dúndurgóð atriði en almennt er þetta svona á pari með fínni og áhugaverðri sjónvarpsmynd sem sýnir bara rétt svo toppinn á ísjakanum. Fínn toppur samt. Ógleymanlegur ísjaki.

thessiBesta senan:
Kuklinski tapar þræðinum undir stýri.

Sammála/ósammála?