The Internship

Á innan við viku sá ég tvö stórmerkileg, gerólík kvikmyndaslys. Enn er ég að hugsa um hvor tilhugsunin sé verri: Shyamalan-bíómynd sem var sett í framleiðlsu sem dekurgjöf handa afkvæmi stórleikara (After Earth, kannski?) eða tveggja klukkustunda Google-kynning sem hefur verið borin fram sem klisjugamanmynd… frá Shawn Levy, sem gerir eingöngu myndir til þess að selja þær. Mér finnst að andlitið á honum eigi að koma upp þegar maður gúglar orðið „sellout.“ Shyamalan a.m.k. þykist búa til alvöru myndir. Levy eltir bara peningalyktina.

Auglýsingar í bíómyndum eru eitt, en það sem Levy gerir hér er að hysja niður brækurnar á Google og með fullri samvinnu fyrirtækisins ákveðið að totta það í engu flýti (og enn veit ég ekki hvort það hafi verið gert til þess að fá mig til að hlæja eða óska þess að skipta um vinnustað). Söguþráðurinn gengur út á tvo óvenju tæknihefta „gamlingja“ sem læra á þjónustulundina, öppin og gallalausu starfssemina hjá Google, og hversu mikið ÆÐI er að vinna þarna. Ég vissi annars ekki einu sinni að væri þörf á öllu plögginu. Að vita ekki hvað Google er er eins og að horfa á kött með enga þekkingu um hvers konar kvikindi það er.

Ég man alltaf eftir því áður en The Social Network kom út hvað margir voru svartsýnir fyrir henni. Yfirleitt var þetta lið sem kannaðist ekkert við nöfn Finchers og Sorkins, en tilhugsunin um einhverja „Facebook-mynd!“ þótti einstaklega bjánaleg. Þau höfðu öll rangt fyrir sér, en það er vegna þess að ég held að margir bjuggust við mynd eins og The Internship.

Auglýsingarnálgunin er ekki eitthvað sem fer í taugarnar á öllum, en það fer í mínar allra fínustu þegar þóst er eins og kompaníið sé aukaatriði innan um myndina sjálfa, en mér finnst það vera akkúrat öfugt. Ef þú tækir Google út úr myndinni (t.d. með því að setja inn feik-merki eða eitthvað annað), þá væri varla nein mynd eftir! Aðstandendur AltaVista og Bing hljóta að vera hágrenjandi núna, sennilega ekki í fyrsta sinn.

Eflaust væri minna mál að taka kynningarvinkilinn í sátt ef The Internship væri virkilega góð eða fyndin – og hvorugt er hún. Formúlan er gömul, fyrirsjáanleg og tilgangslausar uppfyllingar eru alltof margar. Það er heilt rómantískt aukaplott sem fer t.d. algjörlega í vaskinn og karakterfjöldi er of mikill þegar flestar persónur eru einhliða, leiðinlegar eða pirrandi.Owen Wilson og Vince Vaughn sleppa ekki undan eitthvað af þessum lýsingum, en samspilið þeirra er yfir heildina ágætt. Þeir mynda gott dúó en geta lítið bjargað vondu, úreltu efni. Þeir hefðu frekar átt að gera Wedding Crashers fyrir fimm árum síðan, þegar fólk hafði enn áhuga á því að sjá þá tvo leika saman. Þeir eru ekkert breyttir hérna, og það er ekki endilega gott merki. Owen verður alltaf… Owen, og voru ekki flestir búnir að fá nóg af Vince eftir Four Christmases?

The Internship rústar titlum eins og Mac & MeThe Wizard og I, Robot í ofkeyrðum frontuðum auglýsingum, þannig að hún er satt að segja býsna merkileg sköpun. Lengi verður hægt að vitna í hana á komandi árum (dæmi: „a.m.k. var auglýsingin ekki jafnslæm og í Internship!“) og ranghvolfa augunum yfir tilhugsuninni um hana. Kannski hefði verið hægt að gera eitthvað skárra úr þessu ef bandaríski aldursstimpillinn væri einu sæti ofar. Wilson og Vaughn hefðu púllað sig þar en leikstjórinn hefur alltaf verið of mikil skræfa til þess að skíta út puttana sína með grófum húmor. Í staðinn kemur bara flatur, kjánalegur, gelgjulegur, fyrirsjáanlegur og teygður lúðahúmor. Þessi sem veit ekki alltaf hvort hann eigi að vera ætlaður unglingum eða fullorðnum. Ef stefnt var á bæði en eitthvað fóru höfundarnir vitlaust að, og Vince er víst annar þeirra.

Myndin er að vísu ágætlega skotin og reynir í það minnsta að sýna persónunum réttu umhyggjuna, sem er alltaf jákvætt, en handritið er of illa skrifað til þess að „fílgúdd“ takturinn virki. Það langar heldur engum til þess að faðma mynd að sér sem er gerð af svona fúlu metnaðarleysi. Ég kann svolítið við skilaboðin sem hún daðrar við en hún fer mjög asnalega að þeim, en það segir sig auðvitað sjálft þegar handritið sýgur (alveg eins og Levy, gleymum því ekki). Boðskapurinn er í rauninni sá að eldri viska trompar oftast yngri metnað og kynslóðarrýgurinn er einstaka sinnum skemmtilega meðhöndlaður, oftast þangað til einhver lélegur brandari skemmir fyrir. Ég meikaði samt ekki þetta pínkulitla „plott-tvist“ í lokin. Svo slappt að það er móðgandi og nóg til að droppa niður þremur heilasellum án þess einstaklingurinn taki eftir því.

The Internship er of langdregin og ófyndin til þess að hægt sé að mæla með henni, og tröllríðandi Google-fullnægingin gerir vont enn verra og hallærislegra á sama tíma. Hvolpaaugun í henni eru samt of stór til þess að sé hægt að hata hana. Of sykruð blanda fyrir minn smekk af saklausu miðjumoði, epískri staffakynningu og vondri auglýsingu.

fjarkiBesta senan:
Hmmm…

Sammála/ósammála?