White House Down

Fyrr á árinu, eins og flestir vita, mætti leikstjórinn Antoine Fuqua með sitt eigið ástarbréf til bandaríkjanna og ’90s hasarmynda. Hann gerði sér ekki alveg grein fyrir því að stundum er betra að virkja heilabúið og vanda aðeins til verka ef spennuþemað á að vera „Die Hard í hvíta húsinu.“ Það er enginn að biðja um raunsæi en þó kannski aðeins meira til að bíta í á meðan efnistökin hlaupa í gegnum helstu rútínur bókarinnar. Fuqua hefði átt að vita betur en að ganga frá forsetasetrinu þegar Roland Emmerich var með hallærislega svipaða mynd í pípunum, og varla er hægt að ímynda sér reyndari mann á því sviði, sem er farið að valda mér dálitlum áhyggjum.

omg

Fyrir mitt leyti stend ég frammi fyrir nokkuð erfiðu vali ef þetta spurning um að velja betri afþreyinguna. Í Olympus Has Fallen er erfitt að segja nei við t.d. Morgan Freeman og hörkuhasarinn sem gefur skít í hvað fermingarbörnin mega sjá, en á móti kemur magnandi asnaskapur og óásættanlegar brellur miðað við magn. Hvorug myndin skilur nokkuð eftir sig þegar upp er staðið. Þær eru sem betur fer nógu ólíkar til að sjóðast ekki algerlega saman í eina minningu, þó það gerist pottþétt á endanum.

White House Down hefur tvímælalaust yfirhöndina í útlitinu (en ekki hvað? Roland fékk helmingi meira fjármagn!), skárra illmenni, betri forseta og lykilfígúrum en hún skiptir hörkunni út fyrir bjartari tón. Í sjálfu sér er ég ekkert mótfallinn því að eiga við hendi sitthvora gerðina af sömu aulamyndinni; eina fyrir þá sem fíla það hart og svo aðra sykraðri, en þá er ég að gera ráð fyrir því að ég sé nógu bjartsýnn til þess að nenna að vera lúbarinn aftur af ameríska fánanum. Það er sérstaklega átakanleg lífsreynsla þegar bíómyndirnar vilja síðan að maður faðmi hann á móti eftirá.

Sama hversu mikið ég reyni að velta því fyrir mér þá mun ég aldrei skilja hvers vegna Emmerich – reiði, væmni þjóðverjinn sem hann er – hefur svona ofsalega gaman af því að gera “amerískustu” stórmyndir í heimi, og sér í lagi rústa hvíta húsinu og þykjast síðan geta hulið kanahatur sitt með því að troða fimmföldum lögum af yfirborðskenndri kanadýrkun og dramatík. Hann minnir mig alltaf á snyrtilegri, „fullorðinslegri“ týpuna af Michael Bay, fyrir utan það að Bay hefur aðeins lært af sínum stórmistökum og þykist ekki vera mikið annað en hann er. Emmerich er ekki alveg þannig, og sjálfsblekking hans er alvarlegri vandi heldur en þessi útrásargeðveiki hans og fælni gegn vel skrifuðum kvenhlutverkum. Maðurinn veit hvað hann er að gera og sinnir sínu fagi hetjulega. Hann kann allavega að nýta aurinn og mynda flottan (en afar óspennandi) hasar.

Það er varla hægt að biðja um dæmigerðari formúlumynd heldur en þetta (fyrir utan kannski pólitíkina – og gegnsæju afstöðu hennar). Hún er þvinguð, vandræðalega skrifuð og fyrir minn smekk alltof hugmyndasnauð til að sé hægt að rúlla með henni með eðlilegan svip.Ef það myndi bjalla hringja í hvert sinn sem handritið sporar í gegnum hverja klisjuna á eftir annarri þá myndi hausinn á mér springa. Með hverjum spretti detta úr henni stöðugt fleiri heilasellur, sem er ávallt merkilegt þegar sést áberandi í fyrstu atriðunum hvað hún hefur fáar.

whitey

Ég hef fyrirgefið leikstjóranum allan fjanda (og þrátt fyrir að 10,000 B.C. sé eitt það versta sem ég hef séð í bíósal, þá hef ég ávallt varið heimsendasorpið 2012, bara örlítið). Ég var svo að vonast til að hann hefði sprengt út allan þjóðrembinginn í fortíðinni en greinilega hleðst hann upp með föstu millibili og þekur yfir White House Down með klígjulegum hætti. Þeir sem telja sig trú um að þessi mynd eigi ekkert voðalega margt sameiginlegt með Olympus þurfa ekki að spá í öðru en fánadýrkuninni. Reyndar er flaggið ekki alveg eins mikið að troða sér inn á rammann eins og í henni, en nærveran er í andrúmsloftinu, músíkinni að megnu til.

Myndin drollar aldrei en hún hlussast í þreytandi lengd. Reynt er að fylla upp í rólegu períódurnar með predikun, drama og eitthvað af persónusköpun en leggur alltof mikinn fókus á hálfbakaða spýtukalla í bakgrunninum. Ég skal gefa myndinni það að gefa persónunum semi-minnisstæð einkenni (eða a.m.k. nógu mikil til að maður gleymi engum strax eða ruglar einhverjum saman – algengur vandi í svona ræmum). Leikararnir koma aldrei illa út en gera sig stundum að hálfgerðum fíflum undir þessari leikstjórn, og sérstaklega með svona klisjulyktandi handriti.

Channing Tatum er óvenjulega góður miðað við hvað hann hefur en hefði eflaust tapað áhuga manns fyrr ef hann ætti ekki svona hressan samleik með Jamie Foxx (sem að sjálfsögðu fer með hlutverk „svalasta“ forseta heims, eldflaugabyssa og allt!). Ég tók eftir hvað Olympus minnti mig oft á furðulega, ódýran hræring af Die Hard 1 og 4. Svipuð saga hér (mínus ódýri parturinn), nema Tatum/Foxx-dúóið vekur upp skemmtilegar minningar af þriðju myndinni. Ekki nógu oft samt.

Allir á skjánum eru eintóm klisjupeð, ekki síst stúlkan sem leikur dóttur Tatum (svakalega tókst samt vel að finna manneskju sem er asskoti lík honum). Þeir sem voru hrifnastir af Olympus verða örugglega ekki ósáttir með þessa, en allir hinir þurfa vart að leita lengra en að skoða sýnishornin. Þau sýna öll bestu „peningaskotin“ og fólki er sparað alls konar rugli sem það hefur séð oft áður, jafnvel fengið löngu leið á og ef sóst er í flottan hasar má alltaf leita á betri stöðum. Allir hæfileikar sem unnu að White House Down hafa séð mun betri daga. Allir!

fimm

Besta senan: Eltingarleikurinn á forsetalóðinni. Heimskara verður það ekki. Svo tekur myndin leiðinlega dýfu niður…

Sammála/ósammála?