This is the End

Einkahúmor af þessari stærðargráðu getur auðveldlega dottið í þann djöflapytt að verða þreyttur, sjálfumglaður og pirrandi. Bæði veltur þetta á álitinu sem áhorfandinn hefur á þeim sem eru á skjánum og augljóslega hvort og hvers konar innihald er í boði. Ef mynd í líkingu við This is the End heldur áhugasömum hlæjandi í 100 mínútur án þess að líði of margar pásur, þá er hún í rokkandi fínum málum, og aumingja þeir sem hneykslast yfir henni án þess að geta notið sín!

Í fjölmörg ár hafa þeir Seth Rogen og Evan Goldberg unnið saman að handritum (m.a. skrifuðu þeir Ananashraðlestina og Græna „geitunginn“) og hafa hér fengið einstakt tækifæri til að sleppa sér lausum sem aldrei, aldrei fyrr, í fyrsta sinn með leikstjórahúfurnar að auki.  Hugmyndin, sem byggð er á Rogen/Baruchel stuttmyndinni Seth and Jay Versus The Apocalypse,  er brilliant út af fyrir sig og afraksturinn hæfilega steiktur (og reyktur?), dökkur, smekklaus, yfirdrifinn en fyrst og fremst  meinfyndinn og oft meira en það. Flæðið er ekki gallalaust – og klárlega er mesta lægðin í kringum miðhlutann – en þrátt fyrir það er þetta hugmyndaríkasta, óvenjulegasta og fyndnasta grínmynd ársins þegar textinn er skrifaður. Ekki segir það samt mikið þegar árið hefur verið frekar dautt í húmornum hingað til. Alveg bókað að ekki verður meira hlegið að mynd þetta sumar.

Rogen og Goldberg settu sér það markmið að fjalla um það stærsta sem þeim datt í hug og gera eins litla mynd úr því og þeir gátu. Í beinu framhaldi voru allir félagarnir (s.s. (að utanskildum Seth) Jay Baruchel, James Franco, Danny McBrideJonah Hill, Craig Robinson og fullt af leynigestum) hóaðir saman í eitthvað sem freistandi er að líkja við maníska biblíublöndu af The Mist og Skyline, án þess að þetta tengist ólíku gæðum þeirra beint.  Og mér sýnist þeir líka hafa valið hárrétta heimsendinn til að leika með út frá þessu freðna ímyndunarafli og einnig hvernig persónuþróun “leikaranna” spilast út. Lokakaflinn er t.a.m. einhver sá grillaðasti sem lengi hefur sést í þessum geira. Fyrir utan brellurnar elska ég gjörsamlega þær áttir sem myndin fór í á seinustu metrunum. Músíkin slær þessu beint í mark.

Strákarnir eru allir frábærir, kannski misfrábærir en dýfa sér allir í spunann (og ég geri auðvitað ráð fyrir að hátt í helmingur samtalanna hafi orðið til á settinu…) og finna sinn innri sjálfhverfa drullusokk. Það að þeir hafa allir þekkst í áraraðir myndar sjálfsagða kemistríu sem gefur myndinni gott flug og kemur í veg fyrir að einkaflippið þreytist til lengdar.  Lykillinn að þessu er líka hvernig þeir gera grín að sjálfum sér, snúa út úr sínum opinberu týpum og skjóta stöðugt á líf, einkenni, galla og feril hvers annars (og mín vegna hefði mátt vera meira af því – svar Francos við orðrómum að hann sé samkynhneigður er t.d. ómetanlega fundið í prófílnum hans hér). Einhvers staðar hljóta að vera til meiriháttar blooper-tökur, en annars myndi ég segja að sama hversu vel áhorfandinn skemmtir sér, þá er enn meira fjör á milli félagana. Kemur ekki á óvart.

Franco er ekki langt á eftir en að mínu mati er það McBride sem á þessa mynd. Hann á langbestu innkomuna og tekur skíthælastimpilinn sem er límdur við hann upp á næsta stig. Eftir að Michael „sippy-time“ Cera er dottinn út var ég efins um að nokkur gæti stolið senunni eins og hann, en þar hafði ég innilega rangt fyrir mér. Myndin verður aldrei sprenghlægileg með eins stuttu millibili og á fyrstu 20 mínútunum, og Cera er stór partur af því. Allt sem tengdist Aziz Ansari gerði líka vikuna mína 10 sinnum betri. Stundum fannst mér eins og ég og allir í og á bakvið þessa bíómynd hugsum eins.

Cameo-in nýtast öll afar fínt þó það sé eitthvað við vannýttu Emmu Watson sem fer smávegis í mig hér. Kannski er það vegna þess að hún er sú eina á skjánum sem tekur sig eitthvað alvarlega, en skilur svo ekkert eftir sig nema nafnið. Mesta frussandi snilldin kemur samt ábyggilega frá stórkostlegum feik-trailer og beinni vísun í eina af bestu myndum Romans Polanski. Ef það heyrðist einhvers staðar í gaur sem hló eins og andsett svín þá var það ég.

Augljóslega er hér ekki um að ræða einhverja fyrirmynd í sögugerð, og óhjákvæmilega dregur það myndina heilmikið niður hvað brellurnar koma stundum illa út. Þær eiga ekki að skipta máli þegar húmor og smá sál hefur allan forgang, en þær gera það samt. Þegar framleiðslukostnaðurinn gerir ekki öllum brengluðu hugmyndunum frábær skil er maður dreginn örlítið út úr myndinni. Mér sýndist þær eitthvað batna þegar lengra var komið inn í söguna, ekki nema ég hafi bara náð að venjast þeim.

Jákvæðustu áhrifin sem This is the End hafði á mig voru þessi; löngu eftir að ég sá myndina var ég farinn að kvóta setningar úr henni enn og hugsa aftur til bestu atriðana. Hún er fullteygð til að vera einhvers konar nútíma-klassík en þó allt í allt klikkuð og – það sem skiptir meira máli – klikkað fyndin smögg-veisla með pláss fyrir lítinn persónufókus, brómantíska umhyggju og nokkur góð bregðu-móment. Miðað við fyrstu leikstjóratilraun er þetta ágætlega unnið djobb frá Rogen-berg dúóinu og þeirra taktar gera þetta að einhverju meira en bara stóru djókflippi á milli bransafélaga. Sem einkahúmor á þetta varla neinn sinn líka og á sinn bilaða hátt verður This is the End sérstakari fyrir vikið.

thessi

PS. Dýrkaði líka hversu brandaralega langt þeir fóru með Milky Way auglýsinguna. Eftir myndina fór ég og keypti helvítis súkkulaðið. Sá ekki eftir því.

Besta senan:
Úff, þær eru nokkrar. Fékk þegiðu-sting í magann þegar Franco douche-aði aðeins of mikið yfir sig, og fékk að finna fyrir því!
Pineapple-dæmið var líka gull.

Ein athugasemd við “This is the End

Sammála/ósammála?