World War Z

Það er voða sárt að horfa á bíómyndina World War Z ef maður hefur lesið bókina, en þess vegna er betra að gera sér grein fyrir því í byrjun að tvennt á lítið sameiginlegt hvort með öðru, aðallega bara nafnið.

Þetta eru væntingarnar sem þarf að hafa í huga fyrirfram: Hér er ein stærsta söluvara sumarsins! Hasardrifin „zombí-epík“ einokuð af Brad Pitt (sem er líka einn aðalframleiðandinn) frá sama manni og gerði seinast hina áttavilltu Machine Gun Preacher og (vanmetnu) alheimsvonbrigðin Quantum of Solace. Varla er þetta eitthvað til þess að „jibbí-ast“ yfir og aldrei eru góðar fréttir þegar uppvakningarmynd – af öllu – velur öruggu peningaleiðina og lendir á PG-13 merkinu. Stærðin og brjálæðin í sumum senum myndi gera zombí-unnendur lekandi af (meiri) gleði ef World War Z væri ekki svona mikil hæna í ljótleikanum, og krafturinn í fullt af senum verður rækilega fyrir barðinu vegna þess, en miðað við kostnaðinn á þessu kvikindi er ekki erfitt að skilja það.

Sögurnar á bakvið allt framleiðsluklúðrið eru eitthvað sem ég þrái að sjá heimildarmynd gerða um. Fyrir utan nokkur hikstaköst byrjaði þetta nokkuð eðlilega. Fyrir rúmu ári síðan var myndin tilbúin (og átti víst að koma út síðustu jól) en einhverjir á bakvið hana voru mjög ósáttir með endinn, eða síðustu kaflana öllu heldur. Skyndilega bættust við aukatökur, lokahlutinn var skrifaður upp á nýtt (með aðstoð frá herra Damon Lindelof – *ugh*). Það gæti vel verið að aðstandendur hafi haft rétt fyrir sér með fyrstu útgáfuna (sem heimurinn ÞARF einn daginn að sjá!) en samt tókst þeim einhvern veginn að klúðra (aftur?) þeim hluta af myndinni sem skiptir einna mestu máli. Eftir það sem ég las um gamla endinn á ég bágt með að trúa því að hann hefði ekki virkað aðeins betur.

World War Z eins og hún lítur út núna byrjar með krafti, byrjar síðan að þynnast meira út, missir svo aðeins dampinn en heldur samt keyrslunni, og svo þegar dettur á hinn helminginn hægist á sprettflæðinu og verða plottstefnurnar alveg hrikalega ónýtar. Heildarsagan og uppvakningafjöldinn minnkar og minnkar með hverju hasaratriði en handritið verður klaufalegra og klaufalegra. Ég kaupi margt í þessari mynd, sérstaklega uppvakningana, en ekki mikið af því sem gerist eftir flugvélaatriðið. Seinustu mómentin eru líka ófyrirgefanlega aum. Og ódýr.

Þegar myndin snýst öll um Brad Pitt og fjölskylduna hans, á góða hálftímanum, er hún mest spennandi, því einhvern veginn tengir maður best við óttann og ógnina þegar aðalpersónan hugsar um líf sinna nánustu undir verstu kringumstæðum. Ef handritið hefði gert meira úr fjölskyldutengslunum í stað þess að sundra hetjuna frá þeim þá hefði manni liðið eins og hvað sem er gæti gerst, eða a.m.k. var allt mun líklegra. En þar sem öll myndin gengur út á það að einsamall Pitt hleypur, glápir, trítlar, flýgur og hoppar á milli staða til að halda flæðinu rúllandi verður erfiðara að festast inn í hasarnum og léttara að dást að honum í staðinn. Svo er manni líka bara svo nett sama vegna þess að persónusköpun sem og persónuleiki er voða þunnur.

Maður skynjar einhvern veginn strax frá byrjun að Pitt, hárprúða stjarnan (sem breytir varla um svip út alla lengdina), er ósigrandi hetja. Maður jafnar sig á þessu fyrst en svo þegar myndin skiptir yfir í þriðja eða fjórða plottið, þá er reynt mikið á heimskukvarðann með hversu stór hetja Pitt verður. Aldrei leið mér samt eins og hann væri í hættu og það núllaði út allt adrenalínið fyrir mér, sama hversu mikið kameran reyndi að hrista áhuga mínum í gang.

Tökustíllinn er reyndar afskaplega flottur, svona aðeins „óhreinni“ en maður finnur oftast í Hollywood-myndum og þaðan nýtist bakgrunnur leikstjórans úr smærri myndum ósköp vel. Hann kemur stærðinni til skila og herðir einnig á innilokunarkenndinni í minni atriðum. Marco Beltrami samdi líka dúndurfína músík sem sækir í kunnuglega hljóma úr öðrum uppvakningarmyndum en gefur World War Z samt sitt eigið atmó allan tímann. Leikararnir eru annars flestir á sjálfsstýringu og Pitt þar á meðal, fyrir utan það að kreista út únsum af tilfinningadropum, en án þess að reyna of mikið. Kaflaskiptingarnar í strúktúrnum eru svo einkennandi að allir koma bara, fara og öllum er sama. Allavega mér. Þetta hefði virkað betur sem mini-sería. Fyndið samt að sjá Matthew Fox þarna í nokkrar sekúndur eftir að hafa verið klipptur nánast alveg út úr myndinni. Gott á’ann.

Fanatískir zombí-unnendur skiptast líklegast í tvær fylkingar með þessa. Ef metin sem heiladauð afþreying þá stendur hún bersýnislega undir fyrri lýsingu og bærilega undir þeirri seinni ef enginn er að leitast eftir einhverju með biti. Það eru stök atriði sem eru fantavel unnin en betra væri að sjá þau í stöku lagi en að sitja út sundurtætta söluvöru sem heldur athygli en þræðir óspennandi atburðarás í kringum geldan hasar. Fúlt, því ég held að allir gætu ímyndað sér betri útgáfu af þessari mynd.

fimm

PS. Það er aðeins ein góð bregða í allri myndinni.

Besta senan:
Fyrstu 20 mínúturnar í allri sinni dýrð virkuðu á mig eins og svöl, intense mini-mynd. Síðan hefst svokallaða plottið…

Sammála/ósammála?